23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

165. mál, snjómokstur á vegum

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Hér er komið að máli sem er mjög brýnt og mikilvægt fyrir fjölda fólks í landinu. Það eru vetrarsamgöngurnar Mig langar af þessu tilefni til að nefna það hér, að til þess að þessi mál komist í sæmilegt lag er raunar ekki til nema eitt ráð og það er að byggja upp vegina í snjóþyngstu héruðunum. Það er vissulega stór upphæð þegar varið er á 400. millj. til að hreinsa snjó af vegum landsins á einu ári. Og það, sem verst er við þetta, er að þessa verks sér enga staði þegar upp er staðið á vordögum. Ég held að það væri mikil nauðsyn að gera nokkra breytingu á uppbyggingu í vegamálum, þannig að nú um nokkurt skeið yrði lögð höfuðáhersla á að byggja upp fjölförnustu vegi í snjóþungum héruðum landsins svo að á skömmum tíma megi í aðalatriðum losna við þennan snjómoksturskostnað. Það á að vera metnaðarmál okkar að sjá íbúum landsins fyrir undirstöðusamgöngumöguleikum, og til þess að þetta megi verða á skömmum tíma er ekki annað ráð vænna en að verja miklu stærri hluta þess fjár, sem varið er til uppbyggingar vega, til þess að byggja upp snjóþyngstu vegina nú í næstu framtíð.