23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

165. mál, snjómokstur á vegum

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram í umr., sem spunnist hafa út af þessari fyrirspurn, að fjárskortur hamlaði því að nýjar reglur væru settar.

Ég lít þannig á þetta mál að það sé um tvennt að ræða: Annars vegar ber að viðurkenna að það þýðir ekki að setja reglur nema því aðeins að fjármagn sé fyrir hendi til þess að framkvæma þær reglur. En ég tel líka spurningu um það, hvort hægt er að breyta þeim reglum, sem nú eru í gildi, miðað við það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar, hvort þessa. reglur sem eru frá 1968, ef ég hef tekið rétt eftir áðan, eru enn þá þær reglur sem bestar eru miðað við það fjármagn sem við höfum. Því svara ég ákveðið neitandi Síðan 1969 hafa orðið slíkar breytingar á umferð og leiðum sem fólk fer, að við athugun kemur í ljós og hefur sést í blaðaskrifum að reglurnar eru nánast fáránlegar. Fólk getur komist hluta af sinni leið þegar vegur er ruddur á ákveðnum tímum, en aðra vegarspotta sömu leiðar, og þá á ég við að sjálfsögðu leiðir t.d. að flugvöllum eða flutningaleiðir, þar sem verið er að flytja afurðir, hluta af þessum leiðum á aldrei að moka eða kannske einu sinni í mánuði. Ég tel sem sagt að enda þótt við verðum að einskorða okkur við einhvern ákveðinn ramma, þá sé ástæða til þess að líta vandlega á hvort ekki er hægt að breyta þessum reglum miðað við breytt samgöngukerfi eins og það er í dag.