23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

201. mál, þjóðarbókhlaða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, svo langt sem þau náðu. Ég hlýt vitanlega að harma það að svo skuli hafa til tekist að af þeim framlögum, sem Alþ. hefur hér til veitt, skuli ríkisvaldið hafa kippt 1/4 og ríflega það aftur til baka. Ekki er þar stórmannlega að verki verið og gefur svo sem ekki fyrirheit um að stórmannlega verði að verki verið, þar sem um er að ræða mikið og fjárfrekt verkefni, en engu að siður það brýnt og þannig saga þess öll að hún hlýtur að kalla á athafnir og aðgerðir í málinu, en ekki frekari undirbúning.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri miðað við að framkvæmdir hæfust á næsta ári. Ég hlýt að skora á hæstv. ráðh. að fylgja þessu máli þann veg eftir við ríkisstj. og fjárveitingavald að þetta geti þá orðið að veruleika, að þessi bygging verði ekki lengur hugmynd ein eða falleg teikning á pappír, heldur verði hér um að ræða þann minnisvarða um stórhug margrómaðrar bókaþjóðar sem ég hygg að mönnum hafi verið efst í huga varðandi þetta mál. Ég held að ég hafi mátt skilja orð ráðh. svo, að hann mundi beita sér hér fyrir af fullum krafti, þannig að það er ekki bara miðað við að hugsanlega gætu framkvæmdir hafist á næsta ári, heldur yrði að því stefnt ákveðið og framkvæmdir mundu þá hefjast. Og í trausti þess þakka ég hæstv. ráðh. hans svör.