23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

201. mál, þjóðarbókhlaða

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það hefur komið fram í þessum umr. að Byggingarsjóður þjóðarbókhlöðu er ekki vel á vegi staddur og horfir því ekki mjög vel um framkvæmdir þessa mikla menningarmáls sem strengd voru heit um á þjóðhátíðarári að koma í framkvæmd. Ég þarf ekki að hafa yfir þær tölur sem hér hafa verið um hönd hafðar. Á annan milljarð er áætlað að þessi veglega bygging eigi að kosta og greinilegt að eitthvað þarf til að koma til þess að þessu verði hrundið í framkvæmd á næstunni.

Mér dettur í hug í þessu sambandi, og það er vegna þess að ég stend hér upp, að ég bar fram fsp. hér á hv. Alþ. í fyrra til hæstv. viðskrh. um ráðstöfun ágóða af sölu þjóðhátíðarmyntar sem stofnað var til sérstaklega í tilefni af 1100 ára Íslandsbyggð. Það kom fram í dagblöðum og fjölmiðlum að sennilega yrði hreinn ágóði af þessari sölu um 300 millj. Það var Seðlabankinn sem sá um söluna, og fsp. mín var í þá átt, hvernig þessum hagnaði yrði varið og hvort ekki mætti vænta þess að Alþ. yrði haft a.m.k. með í ráðum um ráðstöfun hans. Hæstv. viðskrh. svaraði því ákveðið til að svo mundi verða, að Alþ. mundi standa að ákvörðun um ráðstöfun þess fjár. En síðan þetta skeði hefur ekkert um þetta mál spurst og ég hef satt að segja alltaf ætlað mér að ítreka mína eftirgrennslan um þetta, en hefur ekki orðið af. Ég harma að hæstv. viðskrh. er hér ekki staddur til að upplýsa þetta frekar. En ég leyfi mér að benda hæstv. menntmrh. á, ef hann vantar í Byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu, hvort ekki væri ráð að huga að þessu hjá yfirvöldum Seðlabanka Íslands sem hefur væntanlega vaxtað þessar 300 millj. Þær væru sannarlega hvergi betur komnar heldur en til þess að hrinda þessu menningarmáli í framkvæmd.