23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

103. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það má vel vera rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að tölum okkar hafi ekki öllum borið saman. T.d. gæti það stafað af því, að þær hefðu ekki verið teknar upp á sama tíma, og einnig af því sem hann sagði, að hann þekkti til að fyrirtæki hefðu ekki notið þeirrar breytingar sem varð á rekstrarlánunum í fyrra. Hef ég séð í skýrslum að eitt kaupfélag í því kjördæmi, sem hann er þm. fyrir og á heima í, kom þannig út að það var búið að selja það mikið af afurðum þess að uppgjörslán til þess var sama og ekkert, og þetta hafði veruleg áhrif á útkomu þess.

Áður fyrr var það svo, t.d. þegar ég var bóndi, að þá var ekki um það að ræða að bændur fengju áburð með öðrum hætti en hönd seldi hendi. T.d. tek ég eftir því á blöðum mínum að árið 1958 er engin króna vegna áburðarlána. Það voru aftur, ef miðað er við lok ágústmánaðar í fyrra, 959 millj. kr. sem fyrirtækin skulduðu vegna áburðarkaupa. Þessu til viðbótar voru 752 millj. kr. sem ríkissjóður greiddi áburðinn niður og ekki komu þarna til útreiknings.

En það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að rekstrarlánin sjálf hafa verið óhreyfð í krónutölu þangað til í fyrra. Hins vegar hafa verið teknir upp þeir nýju þættir, sem ég gat hér, og í fyrra varð um tvöföldun á þessu að ræða, auk þess sem þeir nýju þættir, sem ég greindi þá frá, höfðu komið inn á þessu tímabili.

Þetta vona ég að skýri þetta mál betur og m.a. að áburðarlánin hafa komið inn á þessu tímabili. Ef á að taka myndina í heild þá þarf að gera það. Ég held að ég hafi hvorki verið jákvæður né neikvæður gagnvart till. hans, heldur skýrði ég málið fyrst og fremst og það taldi ég koma að bestu gagni í þessu tilfelli. En það er aftur augljóst að afurðalán í svo ríkum mæli að það væri komið upp í 3/4 af væntanlegum afurðum hygg ég að mundi ekki vera lánað nema þá afurðirnar væru örugglega komnar til skila, því að það væri talin nokkur áhætta fólgin í því, enda mætti mikið bæta frá því, sem nú er, þó að ekki væri komið í það. Og ég er ekki alveg viss um að það mundi mönnum henta oft, því að margar greiðslur falla til að haustinu, eins og afborganir af lánum og slíkt, sem viðskiptafyrirtæki bændanna sjá um og að sjálfsögðu verður að hafa í skilum líka, en út í það ætla ég ekki að fara.

Ég vil endurtaka að það verður unnið að því að leysa þetta mál, eins og þegar hefur verið gert og er verið að vinna að, og ég tel að það hjálpi í þessu tilfelli hvað afurðalánin voru mikil í fyrravetur og menn búa að þeim í ríkum mæli enn þá, þó að mér sé alveg ljóst að yfirleitt eru menn í fjárhagsvandræðum og ekki síst í rekstri í jafnört vaxandi verðbólgu og er í okkar landi, og leiðir það alveg af sjálfu sér.

Ég tel mig hafa gefið þær upplýsingar, sem þörf var á í þessu sambandi, og hafa á engan hátt verið að haga máli mínu svo að með öðrum hætti væri.