23.03.1976
Sameinað þing: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2716 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

103. mál, rekstrarlán til sauðfjárbænda

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hafa nokkrir ræðumenn komist svo að orði að á s.l. ári hafi rekstrarlánin til sauðfjárbænda verið tvöfölduð. Ég stend hér upp til þess að firra misskilningi þannig að þeir, sem ekki þekkja mikið til þessara mála, misskilji ekki hver er í raun og veru niðurstaðan af þessum umr. Þetta getur nefnilega bæði verið rétt og rangt eftir því hvernig það er skilið. Uppgjörslán, sem hér hafa verið nefnd, eru meðal rekstrarlána til sauðfjárbænda, en þau hafa ekki tvöfaldast. Fóðurkaupalánin eru líka meðal rekstrarlána til sauðfjárbænda, en þau hafa ekki heldur tvöfaldast. Það eru aftur á móti rekstrarlán í hinni þrengri gömlu merkingu orðsins sem voru tvöfölduð á s.l. ári, og það er þess vegna sem ýmsir hafa tekið svo til orða að rekstrarlánin hafi tvöfaldast. En þau nema aðeins litlum hluta af heildarupphæðinni. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram til þess að menn misskildu ekki það sem hér hefur verið sagt. Að öðru leyti vil ég bara þakka hv. þm. og þá ekki síst seinasta hv. ræðumanni fyrir ágætar undirtektir undir þessa tillögn.