24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2724 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta frv., sem hæstv. ráðh. hefur nú mælt hér fyrir, hlýt ég að skilja sem verulegt spor í rétta átt, þó að sjálft orðalag 1. gr. sé þannig að það segi ekkert ákveðið um hvort upphæð sú, sem lánuð er til eldri íbúða og endurbóta á íbúðum öryrkja í raun hækka eða þá hvað mikið. En það er þó glögglega meiningin eftir orðum hæstv. ráðh. Eins og hann tók rækilega fram, hefur hingað til verið um lögleidda upphæð að ræða, hámarksupphæð, sem mun tvívegis hafa verið hækkuð frá því að hún var fyrst lögfest, og við það miðað þá að þar væri algjört hámark sem veita mætti á ári hverju í þessu skyni.

Ég flutti í fyrra við afgreiðslu húsnæðismála hér í þessari d. brtt. við það frv. sem þá kom hér fram um hækkun upphæðarinnar. Frv. var ágætt og þýddi tvöföldun hámarksupphæðar. Ég flutti þá brtt. sem fól það í sér að ákveðin prósenta eða allt að 10% af heildarfjármagni því, sem veitt er til húsnæðismála úr Byggingarsjóði ríkisins, yrðu veitt til þeirra liða sem um getur í 1. gr.till. var felld. En það kom þá glögglega í ljós hjá hæstv. ráðh. að þessi mál væru í endurskoðun og á þessu yrði breyting til batnaðar. Hér mun það fram komið. Þó að ég hefði kosið öllu ákveðnara orðalag, t.d. ákveðið lágmark eða ákveðna prósentu sem lágmark, er ráðh. ásamt húsnæðismálastjórn mætti hækka ef svo sýndist, þá get ég út af fyrir sig fagnað því spori sem hér er tekið. Ég þykist sem sagt víta að ætlunin sé að hækka hér verulega. Það er hvergi beint fram tekið í sjálfri greininni. Ég tel það ögn miður úr því að sá er beinn tilgangur frv. Yfirlýsingar hæstv. ráðh. nú eru vissulega mikils virði, þó ekki algildar, ekki nema þá að því leyti sem snertir hann sem hæstv. ráðh.

Það fyrirkomulag, sem gilt hefur, ákveðin hámarksupphæð, hefur vissulega reynst allt of þröngt og það hefur sífellt krafist breytinga. Það er mjög eðlilegt að annar háttur sé þar á hafður. Þrátt fyrir hækkanir hefur upphæðin ævinlega reynst of lág og eflaust hefur hún verið allt of lág í upphafi, en alveg sérstaklega hefur hún verið lág vegna þess hve ásókn í þessi lán hefur aukist, eins og kom fram í máli ráðh. áðan. Fyrst vissu menn hreinlega ekki af þessum lánum, sérstaklega viða úti um land, og notfærðu sér þau ekki. Nú hefur hér orðið gerbreyting á. Menn kaupa varla svo eldri íbúð nú orðið, þ.e. venjulegt fólk sem ekki ætlar að braska neitt með það, að þeir sæki ekki hér um lán. Hins vegar hefur upphæð þessara lána orðið sífellt lægri í raun í hlutfalli við verð íbúðanna þrátt fyrir hækkunina, og nú er þannig komið að fólk trúir ekki þeirri meðalupphæð sem út úr þessum lánum fæst, tæplega 100 þús., sem er meðalupphæð lána á síðasta ári, eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. Fólk hefur jafnvel haft við orð að það tæki því ekki að safna gögnum til þess að fá slíka smáupphæð. Þar er ég að vísu ekki á sama máli. En það kann svo sem vel að vera að fólk geti útvegað þá upphæð á annan hátt úr því að hún er ekki hærri.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að sem allra best ætti að greiða fyrir kaupum á eldri íbúðum svo og endurbótum á þeim, þannig að nýting húsnæðis þess, sem íbúðarhæft er eða getur verið, verði sem allra best. Þenslan í okkar húsbyggingum er ærin. Það er um margt eðlilegt og sjálfsagt. En hins vegar ef hægt er nokkuð úr að draga óhóflegri þenslu með því að auðvelda fólki að kaupa sér eldri íbúðir og þá oft hóflegri og ódýrari og um leið viðráðanlegri fyrir þá sem t.d. eru að byrja sinn búskap, — ef það er unnt með réttri lánastefnu, þá tel ég um rétta stefnu að ræða. í þá átt hlýt ég að skilja að þetta frv. stefni.

Ég sagði áðan að mér þætti orðalagið frjálslegt og það segði út af fyrir sig ekki neitt um raunhæfa framkvæmd, framtíðarframhald á þessu, og því síður auðvitað um líklega upphæð t.d. nú á þessu ári í stað þeirra 164 millj. sem í dag gilda. Ég hefði talið ákveðnara orðalag betra og mun athuga í n. hvort um eitthvað slíkt gæti verið að ræða. Segir hér að húsnæðismálastjórn geri árlega till. til ráðh. um þá heildarfjárhæð sem heimilt er að veita á ári hverju í þessu skyni og ráðh. setji með reglugerð ákvæði um heildarfjárhæð o.s.frv. að fengnum till. húsnæðismálastjórnar.

Ég þykist vita nokkuð um hug flestra þeirra, er nú starfa við húsnæðismálastjórn, til þessa máls til þess að geta fullyrt að þeir telji að hér þurfi að gera mun betur en nú er, t.d. tvöfalda þá upphæð sem nú gildir. Þeir hafa mikla reynslu af núverandi ástandi, að lánsupphæðir eru í flestum tilfellum alls ófullnægjandi nema um sé að ræða gömul hús sem eru rétt á mörkum þess að vera íbúðarhæf og þurfa gjarnan endurbóta við. Þeir gera sér, held ég, einnig ljósa stóraukna þörf sem um leið gæti dregið heldur úr nýbyggingarþörfinni, og þeir gera sér ljóst að stórfelld hækkun einstakra lánsupphæða er nauðsyn.

Eigi að fylgja þessu frv. óbreyttu, þá verð ég að treysta annars vegar því að húsnæðismálastjórn leggi til verulega hækkun þessara lána og a.m.k. verði komið til móts við þá, að ég hygg, hóflegu till. sem ég flutti í fyrra um allt að 10% heildarfjármagnsins í þessu skyni, en það lætur nærri að verða á þessu ári í algjöru hámarki um 400 millj. skv. þeim upplýsingum sem ég hef gleggstar. En það þyrfti auðvitað alls ekki að fara það langt, enda er þarna miðað við allt að þessari prósentu. Eftir ræðu hæstv. ráðh. verð ég einnig að vona hið besta hér um. Orð hans hneigjast öll í þá átt að hér verði um verulegar breytingar til batnaðar að ræða og verulega hækkun upphæðarinnar sem varið verður í þessu skyni þegar á þessu ári.

Ég get sem sagt verið sammála um að ekki sé rétt, eins og verið hefur, að binda upphæðina svo algjörlega eins og gert hefur verið, enda er þar ábyggilega m.a. að finna orsökina til mikillar seinkunar þessara lána. Svo dæmi sé nefnt, þá er nú fyrst um miðjan apríl unnt að veita lán til þeirra sem keyptu íbúðir í júlí–sept. á s.l. ári vegna þess að upphæðirnar báðar, fyrir árin 1974 og 1975, reyndust of knappar og þá kannski alveg sérstaklega á árinu 1974. Ég hefði sem sagt kosið einhverja viðmiðun svo a.m.k. yrði ætíð tryggt, hver sem á héldi, að ekki yrði stigið spor aftur á bak nema þá ef um stórfelldan samdrátt yrði að ræða í kaupum þessara íbúða, sem ég á ekki von á. Ég mun athuga þetta nánar í þeirri n. þar sem ég fæ það til meðferðar og vona hið besta þar um.

Um síðari liðinn vil ég aðeins segja það, að hér er um að ræða jákvæða afgreiðslu á óskum sveitarstjórna víðs vegar um land um fyrirkomulagið varðandi leiguíbúðirnar og möguleikana á sölu þeirra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hér má auðvitað um það spyrja hvers vegna sveitarfélögin hafi sótt svo fast á þetta. Reynslan hefur einfaldlega orðið sú að sveitarfélögunum hefur reynst þetta ofviða. Upphaflega var ætlunin með þessum leiguíbúðum að jafna metin við höfuðborgarsvæðið vegna hinna góðu kjara sem fylgdu á sínum tíma Breiðholtsframkvæmdunum. Hér er verið að fara inn á sömu braut, og það hlýtur að vera eðlilegt miðað við upphaflegt markmið að þar verði sem best og mest samræmi við þær framkvæmdir á sínum tíma. Því er það fyrirkomulag, sem hér er lagt til, sjálfsagt. En um leið vaknar spurning um skipulag hvors tveggja samhliða þ.e.a.s. verkamannabústaða og leiguíbúða. Ég held að það væri full ástæða til þess fyrir húsnæðismálastjórn að athuga sinn gang í þessu efni, að samhæfa þessa þætti á einhvern hátt, — og fyrir sveitarfélögin einnig, ekki síst í ljósi þess að það hefur glögglega komið í ljós hjá húsnæðismálastjórn að verkamannabústaðirnir hafa þar ævinlega, að ég hygg, haft forgang, en hins vegar varðandi leiguíbúðir hefur ríkt viss tregða vegna fjárskorts. Þær hafa ekki haft þann forgang sem verkamannabústaðakerfið hefur réttilega haft. Þessa þætti ætti því að skoða jafnhliða af rn., húsnæðismálastjórn og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég held að það væri mjög þarft.

Í grg. segir að hlutaðeigandi sveitarfélögum verði heimilað án tímaskilyrða að selja umræddar íbúðir einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. É'g aðeins skýt því hér að hvort það væri e.t.v. eðlilegt að þetta væri bundið í lögum að einhverju leyti, að til viðbótar þessu kæmi að heimilt sé að veita lán til byggingar leiguíbúða eða söluíbúða — heimilað að selja íbúðir að uppfylltum tilteknum skilyrðum og það væri bundið og þetta yrði ekki eins frjálst fyrir sveitarstjórnirnar. Hins vegar hygg ég að það sé kannski ekki mikil þörf á því. En sjálfar hafa sveitarstjórnirnar og samband þeirra gert ráð fyrir því að þarna yrðu að vera tiltölulega þröng skilyrði, ýmis skilyrði fyrir því að þær gætu selt umræddar íbúðir, svo sem að þeir gengju þá þar fyrir sem mesta hefðu þörfina. En aðalatriðið hlýtur auðvitað að vera það í þessu efni að sem best verði staðið að framkvæmdum við leiguíbúðirnar svo að takast megi að standa við áður gefin fyrirheit og nú nýlega ítrekuð fyrirheit af hæstv. ráðh. um leiguíbúðir á 5 árum. En að því vík ég ekki hér þar sem ég hef lagt fram í Sþ. fsp. um þessi atriði sem ég vænti sem bestra og jákvæðastra svara við á næstunni.