24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

210. mál, orlof

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sumarið 1974 skipaði þáv. félmrh., Magnús T. Ólafsson, n. manna til að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um orlof. Í þessa n. voru skipaðir þeir Snorri Jónsson framkvstj. Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson hagfræðingur og Guðmundur H. Garðarsson alþm., þessir þrír samkv. tilnefningu Alþýðusambands Íslands. Kristján Ragnarsson framkvstj. og Barði Friðriksson skrifstofustjóri samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, Matthías Guðmundsson póstmeistari eftir tilnefningu Pósts og síma, Skúli Pálmason hrl. samkv. tilnefningu Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Guðmundur Karl Jónsson, þá deildarstjóri í félmrn., og var hann formaður nefndarinnar. Nefndin skilaði áliti um s.l. áramót og er þetta frv., sem hér liggur fyrir, árangur af starfi hennar.

Helstu breytingar, sem gerðar eru með þessu frv., ern í fyrsta lagi að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að sett verði félmrn. til aðstoðar um meðferð orlofsmála orlofsnefnd ríkisins. Starfssvið hennar er m.a. að afgreiða kvartanir frá launþegum og vinnuveitendum sem kynnu að telja sig misrétti beitta samkv. lögunum. Orlofsnefndin á að hafa umsjón með framkvæmd orlofslaganna, eftirlit með útborgun og ávöxtun orlofsfjár, gera till. um vexti samkv. 12. gr. laganna og úthluta fé úr orlofssjóði samkv. 14. gr. til orlofsmála. Í þessari orlofsnefnd eigi sæti 7 menn skipaðir til fjögurra ára í senn, þrír eftir tilnefningu Alþýðusambandsins, tveir eftir tilnefningu Vinnuveitendasambandsins, einn eftir tilnefningu Vinnumálasambands samvinnufélaga og einn án tilnefningar, en n. kýs sér sjálf formann. Sú n., sem fjallaði um málið, taldi að æskilegt væri að koma þannig á fót samstarfsaðila milli fulltrúa launþega og vinnuveitenda til að fjalla um þessi mál og fylgjast með þeim.

Önnur breyting er varðandi orlofsárið og er fjallað um það í 4. gr. Orlofsárið hefur verið frá 1. maí til 30. apríl, en n. leggur til að því sé breytt um einn mánuð, þannig að það skuli byrja 1. apríl og enda 31 mars. Ástæðan er sú, að æskilegt þykir að veita framkvæmdaaðila orlofskerfisins tíma til þess að annast nauðsynlega skýrsluvélavinnu við uppgjör orlofsársins og útsendingu orlofsávísana. En samkv. 5. gr. er svo orlofstímabilið, sem svo er kallað, fært fram um hálfan mánuð, þannig að með þessu myndast eins og hálfs mánaðar tímabil frá því að orlofsárinu lýkur og þar til orlofstaka hefst. Þetta er talinn nauðsynlegur vinnslutími fyrir þann aðila sem sér um framkvæmd þessara mála.

Þá er gert ráð fyrir því í 5. gr. frv., 4. mgr., að samkomulag um skemmri tíma en 21 orlofsdag á orlofstímabilinu skuli skapa launþega rétt til orlofsuppbótar í formi viðbótarorlofsdaga eða orlofsgreiðslu. Hér er haft í huga vetrarorlof, þannig að ef samkomulag yrði milli vinnuveitenda og launþega um að starfsmaður tæki orlof sitt að einhverju leyti að vetrinum, þá kæmi það launþega til góða með einhverri uppbót. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að launþegi geti sjálfur ákveðið slíkt, heldur þurfi um það samkomulag milli aðilanna. Er enginn vafi á því að í ýmsum starfsgreinum er hagkvæmt að dreifa þannig orlofstöku og er hér opnaður möguleiki til að gera samkomulag um slíkt og jafnvel og leið til að hvetja launþega til að taka orlof að einhverju leyti á öðrum tíma en þeim hefðbundna.

Þá er ákveðið í þessu frv. að vextir skuli reiknaðir af orlofsfé. Er ákvæði um það í 12. gr. frv., en gert ráð fyrir að nánari ákvæði verði sett um það í reglugerð eftir að orlofsnefnd ríkisins hefur um það fjallað og gert till. þar um. Það er gert ráð fyrir að launþegi fái greidda vexti sem svari mismun á innlánsvöxtum og þeim kostnaði sem við það er að standa undir rekstri kerfisins.

Þá er gert ráð fyrir að lengja fyrningarfrest orlofs úr einu ári í tvö ár og enn fremur ákveðið að fyrnt orlofsfé skuli renna í sérstakan orlofssjóð. Um það eru ákvæði í 14. gr. frv. að orlofssjóðinn skal nota til hagsbóta fyrir orlofsþega og verður eitt af verkefnum orlofsnefndar að fjalla um það mál.

Ég ætla að hér hafi verið raktar helstu breytingar sem undirbúningsnefndin leggur til að gerðar verði á núgildandi lögum. Um þessi atriði var samstaða í þessari n., sem var, eins og ég gat um, skipuð fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.