24.03.1976
Efri deild: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég býst við, að flestir hv. dm. geri sér grein fyrir nauðsyn þessa frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt hér fram. Tilefni eru ýmis, ástæður ýmiss konar, en þó ætla ég að tilefnin séu brýnust frá s.l. hausti þegar freklega voru brotin reglugerðarákvæði varðandi kvóta við síldveiðarnar hér suðvestanlands.

Ég tel að þetta frv. sé góðra gjalda vert, það sé nauðsynlegt. Að vísu kemur til álita hvort veita beri ráðh. vald til þess að úrskurða og framkvæma upptöku verðmæta á þennan hátt, — kemur til álita með hvaða hætti slíkt yrði gert. Ég áskil mér, eins og að líkum lætur, rétt til þess að hugleiða þau atriði nánar í n. Það breytir ekki eðli málsins því frv. er þarft.

Ég tek undir það sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði varðandi fisk undir lágmarksstærð, undir þeirri stærð sem veiða má og kveðið er á um nú að henda skuli í sjóinn. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að hið gagnstæða ætti að vera reglan, það væri óleyfilegt að henda í sjóinn nokkrum dauðum fiski sem um borð kemur. Einmitt þetta atriði, að aflinn, þeir fiskar, sem drepnir eru, séu færðir í land, gerir okkur kleift að hafa eftirlit með veiðunum, að trúnaðarmenn hins opinbera geti með þeim hætti fylgst með því hvers konar fiskur það er sem drepinn er. Það er á almannavitorði að við höfum verið að fleygja nú undanfarna mánuði allt að því helmingi af þorski og ýsu sem hafa verið drepin á vissum slóðum hérna kringum landið. Það hefur verið um þetta deila, jag á milli forustumanna hafrannsókna og fiskiskipstjóra, eiginlega óviðurkvæmileg á köflum. En það hefur ekki þurft ítarlegri rannsókn til þess að sannfæra mig um þetta heldur en þá sem ég hef sjálfur getað framkvæmt með viðtölum við kunningja mína á þessum fiskiskipum — til þess að sannfæra mig um að þarna hefur átt sér stað sóðaaðferð í fiskveiðum á þessum slóðum, samtímis því sem við hér á hv. Alþingi höldum uppi miklu hjali um nauðsyn fiskverndar og raunar fleiri aðilar heldur en hv. þm.

Frv. um hagnýtingu fiskstofnanna eða fiskislóðarinnar hjá okkur er annað mál. Ég ætla að það sé ekki fjarri lagi, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði, að þar ættu ákvæði á þessa lund að standa. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar að okkur beri ekki að ýta svo mjög á eftir því máli í gegnum þingið. Ég segi fyrir mig að ég vildi gjarnan fá ærinn tíma til þess að kynna það mál í mínu kjördæmi, Norðurlandskjördæmi eystra, fyrir fiskmönnum þar áður en það væri tekið til endanlegrar afgreiðslu. Ég vona a.m.k. að það verði unnið svo varlega að því máli að ráðh. þurfi á heimild að halda eins og þeirri sem ráðgerð er í þessu frv. áður en hitt er komið endanlega í gegnum þingið.