25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

76. mál, afnám tekjuskatts af launatekjum

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. þm. er kunnugt stendur nú yfir allsherjarendurskoðun á öllu skattkerfi ríkisins á vegum fjmrn. Þessi endurskoðun var raunar hafin í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj., en hefur verið haldið áfram af hálfu hæstv. núv. ríkisstj. Ég er í hópi þeirra sem telja að því miður hafi störfum þeirra aðila, þó að ég efist ekki um að vandlega hafi verið unnið, hafi miðað heldur seint. En kannske er tíminn, sem í endurskoðunina hefur farið, órækast vitni þess hversu brýn þörf er á að endurskoða skattkerfi ríkisins í heild, og ber að vona að endurskoðuninni ljúki sem fyrst og ljúki með tillögugerð um verulegar breytingar. En einmitt vegna þess, að kunnugt er að endurskoðun stendur yfir, höfum við þm. Alþfl. viljað með flutningi sérstakrar till. til þál. gera grein fyrir því hvert við teljum að vera ætti markmið endurskoðunarinnar, hvern svip lokatillögur þær, sem lagðar verða fyrir Alþ., ættu að hafa. Og um það fjallar einmitt sú till. sem hér er nú til umr. En þar er skemmst af að segja, að þar leggja þm. Alþfl. til gagngera breytingu á skattkerfi ríkisins, þ.e.a.s. á tekjuöflun ríkisins.

Í till. er stefnumörkun sem í felst róttækasta tillögugerð sem fram hefur komið um skattamál á Íslandi um langan aldur. Meginbreytingarnar, sem við leggjum til að verði niðurstaða þeirrar endurskoðunar sem yfir stendur, eru þessar:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að horfið verði að fullu frá innheimtu tekjuskatts til ríkisins af tekjum launþega.

Í öðru lagi er lagt til að tekið verði að greina á milli atvinnurekstrar einstaklinga og einkabúskapar þeirra í því skyni að koma í veg fyrir að bókfærður halli á atvinnurekstri geti gert einstaklingi kleift að hafa háar raunverulegar tekjur í skjóli atvinnurekstrarins án þess að greiða af þeim nokkurn tekjuskatt eða útsvar vegna þess að atvinnureksturinn er talinn rekinn með tapi samkvæmt bókhaldi og skattaframtali. Gert er ráð fyrir að eiganda atvinnurekstrar, sem við hann starfar, séu jafnan áætlaðar tekjur sem telja má eðlilegar miðað við vinnuframlag hans í þágu fyrirtækisins og stöðu hans þar og séu þessar tekjur áætlaðar hliðstæðar launum sem greidd eru fyrir sams konar störf í atvinnurekstri. Síðan greiðir hann útsvar, — við ætlumst til að sveitarfélög haldi áfram að innheimta útsvör, — síðan greiðir hann útsvar af þessum áætluðu tekjum, auk þess sem hagnaður af atvinnurekstrinum yrði auðvitað skattskyldur almennt.

Ýmsum kann eflaust að þykja það nýlunda að jafnaðarmannaflokkur eins og Alþfl. skuli kunngera það sem stefnu sína að ríkið skuli hverfa frá innheimtu stighækkandi tekjuskatts og leggja til að teknir verði upp neysluskattar í staðinn. Fyrir hálfri öld eða svo var það eitt helsta baráttumál jafnaðarmannaflokka um víða veröld að taka upp stighækkandi tekjuskatta. En mikil breyting hefur orðið á lýðræðisþjóðfélögum vestrænna landa, á undanförnum áratugum, s.l. hálfri öld. Sannleikurinn er sá að um og eftir aldamótin síðustu voru stighækkandi tekjuskattar í raun og veru eina hagstjórnartækið sem tiltækilegt var til að jafna tekjuskiptinguna og eignaskiptinguna í þjóðfélaginu. En jafnaðarmenn töldu einmitt vera eitt megin-markmið sitt í stjórnmálabaráttu sinni að jafna þá tekju- og eignaskiptingu sem þá átti sér stað. En það er kunnara en frá þurfi að segja að á undanförnum áratugum hafa komið til skjalanna margvísleg önnur hagstjórnartæki sem beitt hefur verið í sívaxandi mæli einmitt til þess að ná þessu æskilega félagslega markmiði frá sjónarmiði jafnaðarmanna, að jafna tekjur og eignir. Á ég þar fyrst og fremst við félagsmálalöggjöfina sem orðið hefur æ útbreiddari og viðtækari og haft hefur æ meiri áhrif í öllum vestrænum ríkjum. Þá hefur það verið viðurkennt sem meginregla að menntun skuli vera ókeypis, en svo var ekki áður fyrr, og mjög víða er öll menntun nú ókeypis allt frá upphafi skólaskyldualdurs til loka hins lengsta háskólanáms. Auðvitað hefur þetta einnig haft mjög víðtækar tekjujöfnunarafleiðingar. Þá hefur ríkisvaldið og haft ýmiss konar afskipti af verðlagi, yfirleitt í þá átt að stuðla að því að neysluvörur alls almennings væru sem ódýrastar, en látið sig minna skipta þó að þær vörur, sem einkum eru notaðar af tekjuháu fólki, væru í háu verði.

Sannleikurinn er sá að tekjujöfnunaráhrif stighækkandi tekjuskatts hafa algjörlega horfið í skuggann fyrir þessum nýju hagstjórnartækjum sem beitt hefur verið til tekjujöfnunar og ég var að nefna. Hér á landi er t.d. óhætt að fullyrða að tekjujöfnunaráhrif hins stighækkandi tekjuskatts til ríkisins eru hégómi einn í samanburði við áhrif almannatryggingakerfisins og þess að við íslendingar erum í hópi þeirra þjóða þar sem skólaganga öll er svo að segja ókeypis, kostuð af hinu opinbera.

Þetta er ástæðan fyrir því að innan jafnaðarmannaflokka hefur fylgi við þau sjónarmið, sem þessi till. grundvallast á, farið vaxandi með hverju árinu sem líður. Hvarvetna hafa mönnum orðið æ ljósari gallarnir á innheimtu stighækkandi tekjuskatts, eins og tekjuskattskerfið hefur verið framkvæmt, og þeim sjónarmiðum því vaxið fylgi að heppilegra væri að breyta hinum stighækkandi tekjuskatti til ríkisins yfir í neysluskatta í einhverju formi.

Fyrsti þekkti jafnaðarmannaleiðtoginn á Norðurlöndum, sem gerðist talsmaður þess að stighækkandi tekjuskatti yrði breytt í neysluskatt, í söluskatt, var fyrrv. forsrh. norðmanna, Trygve Bratteli. Hann hélt m.a. um þetta stórmerkt erindi hér á Íslandi fyrir um 20 árum, en þá var hann fjmrh. Noregs. Hann leiddi í þessu erindi glögg fræðileg rök að því að frá sjónarmiði heildarinnar, frá sjónarmiði launþega og atvinnurekenda og frá því sjónarmiði að efla bæri sparnað á kostnað neyslu, þá væru neysluskattar heppilegri en stighækkandi tekjuskattur eins og hann væri framkvæmdur á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu yfir höfuð að tala.

Þessum sjónarmiðum hefur vaxið fylgi innan jafnaðarmannaflokka í Vestur-Evrópu. Og nú kveður Alþfl. upp úr með það sem stefnu sína. Sú varð niðurstaðan á síðasta flokksþingi Alþfl., sem haldið var í nóv. s.l., að það skyldi verða eitt af verkefnum flokksins að berjast fyrir því að tekjuskattur á launafólk, á launatekjur til ríkisins skyldi afnuminn, en neysluskattur innheimtur í staðinn. Sannleikurinn er sá, að byrði beinna skatta er orðin óbærilega þung og álagning þeirra er að mörgu leyti mjög ranglát, auk þess sem hún er afar dýr í framkvæmd. Álagningarkerfið er orðið óeðlilega flókið og veitir skilyrði til margháttaðra undanbragða undan réttlátri skattgreiðslu, bæði löglegra og ólöglegra. Hlutfall tekjuskatts af tekjum er orðið svo hátt að almennir launþegar eru farnir að greiða frá þriðjungi og allt að helmingi tekna sinna í beina skatta af tekjum sínum bæði til ríkis og sveitarfélaga. En samtímis verða þeir vitni þess að fyrirtæki, sem hafa gífurleg umsvif, greiða litla eða jafnvel enga tekjuskatta útsvör vegna rekstrar síns. Þessi óhóflega skattheimta af tekjum launþega er í mörgum tilfellum orðin og verður í æ fleirum beinlínis fjötur á framtakssemi einstaklinga, beinlínis fjötur á vinnuvilja og er því orðin hemill á heilbrigðan og eðlilegan vöxt þjóðartekna.

Gallar mjög víðtæks og flókins tekjuskattskerfis með háum skattstigum eru ekki einungis orðnir vandamál á Íslandi, heldur einnig í nálægum löndum þar sem um er að ræða viðtæka og vaxandi gagnrýni á slíka skattheimtu. Nægir í því sambandi að minna á þær umr. sem einmitt þessar vikurnar eiga sér stað í Svíþjóð um innheimtu tekjuskatta af launatekjum þar í landi. Þegar vitað er að um eða yfir helmingur viðbótartekna fer til greiðslu tekjuskatts, þá getur ekki hjá því farið, að ekki sé talað um þýðingu þess við hvers konar kjarasamninga, að það hafi lamandi áhrif á framtakssemi og vinnuvilja.

Þegar stighækkandi tekjuskattur var upphaflega lögfestur hér og annars staðar var hann, eins og ég sagði áðan, helsta tækið sem fyrir hendi var til þess að jafna tekjur. En hann er það ekki lengur og þess vegna er orðið tímabært að taka þetta kerfi allt saman til endurskoðunar. Þegar óbeinn skattur, eins og t.d. söluskattur eða virðisaukaskattur, er greiddur, þá ræður skattgreiðandinn meiru um það sjálfur hversu mikið hann greiðir með því að ákveða hvað og hversu mikið hann kaupir umfram nauðþurftir, og má tvímælalaust telja þetta til kosta neysluskatta miðað við stighækkandi tekjuskatta. Enn fremur má í þessu sambandi nefna að framkvæmd tekjuskattsinnheimtu er óhemjudýr og miklu dýrari en innheimta söluskatts. Og í þriðja lagi verður að nefna það, að fyrst innheimta neysluskatta gerir skattgreiðandanum kleift að ákveða sjálfur hversu mikið hann greiðir í skatta, í stað þess að honum eru ákveðnir skattar ef tekjuskattskerfið er notað, þá má gera ráð fyrir því að hann spari meira en ella, en sparnaður er undirstaða heilbrigðra framkvæmda. Má því hiklaust staðhæfa að neysluskattakerfið sé líklegra til þess að stuðla að auknum sparnaði og þar með heilbrigðari fjármögnun framkvæmda heldur en ef sömu upphæðar er aflað til ríkisins með innheimtu stighækkandi tekjuskatts.

Það varð tilefni nokkurrar opinberrar umr. á s.l. hausti, þegar skattskrár voru birtar fyrir s.l. ár, að áberandi munur var á þeirri skattbyrði, sem launamenn urðu að bera vegna sinna tekna, og þeim sköttum sem félög greiddu eða þeir einstaklingar, sem stunduðu atvinnurekstur. Í fyrra voru talin um 5190 félög á skattskrá og nam álagður skattur á þau aðeins um 1200 millj. kr. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að skattur félaga verði lægri en þetta, verði aðeins rúmlega 1000 millj. kr. Í fyrra var áætlað að um það bil 7 500 einstaklingar hefðu aðaltekjur sinar af eigin rekstri, og athugun, sem gerð var, leiddi í ljós að aðeins rúmur helmingur þessara 7 500 einstaklinga, sem hafa aðaltekjur af eigin rekstri, greiddi tekjuskatt, um það bil 400–500 millj. kr. Af öllum atvinnurekstri í landinu, bæði þeim sem stundaður er af félögum og stundaður er af einstaklingum, voru því í fyrra greiddar 1600–1700 millj. kr. í tekjuskatt. 55–56% af þessum aðilum, félögum og einstaklingum, sem stunda atvinnurekstur, greiddu tekjuskatt, en 44–45% af þessum aðilum greiddu bókstaflega engan tekjuskatt. Miðað við verðlag eins og það var á s.l. hausti í okt., en það er einmitt það verðlag sem fjárlagafrv., sem þá lá fyrir, var miðað við, mátti áætla að heildarvelta allra atvinnufyrirtækja í landinu hafi í fyrra verið um 360 milljarðar kr. Hér er að sjálfsögðu ekki um nákvæma tölu að ræða, eflaust einhverja tvítalningu, en talan er áreiðanlega ekki fjarri lagi.

Þess ber að sjálfsögðu að geta, að sá virðisauki, sem í þessari veltu felst, er auðvitað mjög breytilegur eftir atvinnugreinum. Hann er t.d. áreiðanlega miklu minni í verslun en í framleiðslugreinum og minni í framleiðslugreinum en í ýmsum þjónustugreinum. En sé gert ráð fyrir því að fyrirtækin, sem tekjuskatturinn er lagður á, hafi um 2/3 veltunnar og það er áreiðanlega ekki fjarri lagi, þá nemur tekjuskattur sá, sem þau greiddu í fyrra, um 3/4% eða undir 1% af veltunni. Veltu hinna, sem í fyrra greiddu bókstaflega engan tekjuskatt, má áætla á bilinu 100–130 milljarðar kr. Er hér augljóslega um svo mikla veltu að ræða að það hlýtur að teljast óeðlilegt að bókstaflega ekkert sé greitt til ríkissjóðs af slíkri veltu, af 100–130 milljarða kr. veltu.

Þessar tölur, sem ég hef nefnt, sýna alveg ótvírætt að það er um að ræða gífurlegan mun á skattbyrði einstaklinga og félaga. Í fyrra var greiddur tekjuskattur einstaklinga um 5.6 milljarðar kr., en félaganna, eins og ég sagði áðan, um 1200 millj. kr. Á fjárlögum yfirstandandi árs er tekjuskattur einstaklinga aðeins hærri, hann er áætlaður 5.7 milljarðar kr., en tekjuskattur félaga hins vegar aðeins lægri en í fyrra, þ.e.a.s. rúmur 1 milljarður kr. Og þegar við höfum það í huga að venjulegur launþegi greiðir frá þriðjungi og upp í helming tekna sinna í tekjuskatt, en hins vegar er enginn tekjuskattur greiddur af atvinnurekstri sem hefur 100–130 milljarða kr. veltu og af öllum atvinnurekstri í landinu voru í fyrra aðeins greiddar um 1600–1704 millj. í tekjuskatt, bæði félaga og einstaklinga sem stunda atvinnurekstur, þá er hér um að ræða svo augljóst þjóðfélagslegt misrétti að við það verður ekki búið lengur.

Sannleikurinn er sá að þær tilraunir, sem í áratugi hafa verið gerðar til að leiðrétta tekjuskattsgerð, til að draga úr þessu augljósa misrétti, hafa aldrei borið árangur. Það er þess vegna sem við þm. Alþfl. höfum komist að þeirri niðurstöðu að á þessu máli sé aðeins ein lausn til, það sé ekkert annað lengur eftir en að höggva á hnútinn, þ.e.a.s. afnema alveg tekjuskatt af tekjum launþega og láta atvinnureksturinn í landinu greiða tekjuskatt, en bæta hins vegar ríkissjóði upp tekjumissinn vegna niðurfellingar tekjuskattsins á launþegum með því að auka neysluskatta.

Raunar gerum við ráð fyrir að fleiri breytingar séu gerðar á skattalögum heldur en þessi grundvallarbreyting, að hætta að innheimta tekjuskatt af launþegum, en halda tekjuskatti af atvinnurekstri.

Við gerum í fyrsta lagi einnig ráð fyrir því að reglum um afskriftir eigna sé breytt á þann veg að ekki verði framvegis hægt að afskrifa sömu eign í skattframtali oftar en einu sinni vegna þess að hún hefur skipt um eiganda. En réttur nýs eiganda til fullra afskrifta samkv. gildandi lögum hefur verið ein aðalundirrót misréttis milli skattgreiðslu af tekjum atvinnurekenda annars vegar og launþega hins vegar.

Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að reglur um heimild til að draga vexti af skuldum frá tekjum af atvinnurekstri verði við það miðaðar að um sé að ræða eðlilega lánsfjáröflun í þágu atvinnurekstrar. En gildandi heimildir til vaxtafrádráttar hafa verið mjög misnotaðar og átt verulegan þátt í því misrétti sem ég gerði áðan að umtalsefni.

Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir að hagnaður af sölu eigna verði skattlagður að svo miklu leyti sem hann á ekki rót sina að rekja til rýrnunar á verðgildi peninga. Það atriði, sem einna vandasamt er að setja um skynsamleg og réttlát ákvæði í lögum um skattatekjur af tekjum, er einmitt, hvernig skuli fara með söluhagnað af eignum, ekki síst vegna sífelldra breytinga á verðgildi peninganna. Það er skoðun okkar, sem flytjum þessa till., að ekki sé réttmætt að skattleggja söluhagnað ef hann á eingöngu rót sína að rekja til þess að verðlag hefur hækkað og peningar þess vegna lækkað í verði. Annan söluhagnað teljum við hins vegar réttmætt að skattleggja og þó alveg sérstaklega þann hagnað sem á rót sína að rekja til verðhækkunar eigna sem orðið hefur vegna opinberra aðgerða og án nokkurs tilverknaðar af hálfu eiganda eignarinnar. Vegna ákvæða gildandi laga hafa háar tekjur af sölu eigna sloppið undan eðlilegu skattgjaldi. Á hinn bóginn er eðlilegt að viðurkenna rétt atvinnurekenda til afskrifta af raunverulegu verðmæti eigna þegar afskrift fer fram.

Í fjórða lagi leggjum við til að hvort hjóna um sig verði sérstakur skattgreiðandi án tillits til hjúskaparstéttar. Nú gildir, sem kunnugt er, sú regla að tekjur hjóna eru lagðar saman við álagningu skatta og er það að sjálfsögðu óeðlilegt. Hins vegar er veittur viss frádráttur vegna þeirra tekna sem eiginkona aflar utan heimilis. Ef annað hjóna aflar tekna utan heimilis, en hinn aðilinn annast heimilisstörf, hvor aðilinn sem það er, þá á hinn síðarnefndi að eiga rétt á því að ráðstafa hluta af tekjum helmillsins og greiða þá að sjálfsögðu útsvar af þeim hluta, en tekjuskatt gerum við ráð fyrir að hann greiði ekki, sbr. það sem ég hef áður sagt. Þetta sjónarmið er að okkar dómi það eina sem er í fullu samræmi við nútímahugmyndir um jafnrétti kynjanna.

Þá gerum við í fimmta lagi ráð fyrir því að þeim söluskatti, sem nú er innheimtur, skuli fyrir árslok þessa árs breytt í virðisaukaskatt hliðstæðan þeim sem nú er innheimtur á Norðurlöndum og í ýmsum löndum Vestur-Evrópu. Á vegum ríkisstj. mun vera unnið að till. um breytingu söluskatts í virðisaukaskatt. En ríkisstj. hefur ekki viljað lýsa yfir að það muni verða gert á þessu ári. Við leggjum hins vegar áherslu á að það verði gert á þessu ári.

Þá er í sjötta og síðasta lagi lagt til að gildandi lög um tekjustofna sveitarfélaga verði endurskoðuð með það fyrir augum að auka frjálsræði þeirra til að ákveða á hvern hátt þau afla sér tekna sinna, án þess þó að þeim verði veitt heimild til að innheimta söluskatt eða virðisaukaskatt sem við teljum eðlilegt að sé skattstofn ríkisins.

Þá kem ég að síðustu að því veigamikla atriði hvernig við teljum hugsanlegt að bæta ríkissjóði þann tekjumissi sem hann yrði fyrir við að fella niður tekjuskatt af launatekjum. Þegar við fluttum till. okkar á fyrri hluta þingsins stóðu mál þannig að raunverulegur söluskattur var 17%, 2% runnu í Viðlagasjóð og áttu að falla úr gildi um áramótin, en 1% í Olíusjóð sem falla átti úr gildi 1. apríl s.l. Það má gera ráð fyrir að hvert söluskattsstig svari til u.þ.b. 1200 millj. kr. tekna í ríkissjóð, svo að með því að lýsa yfir fylgi við þá hugmynd að söluskattur yrði áfram 20% eftir að viðlagagjaldið væri fellt niður og olíuskatturinn yrði felldur niður, þá fengjust með því að halda áfram 20% söluskatti um 3 600 millj. kr. og þá vantaði ekki verulega á þá upphæð sem tekjuskattur einstaklinga af launatekjum nemur, en nákvæmur útreikningur á því hvað sú upphæð er mikil er ekki til. Það eru aðeins til upplýsingar um tekjuskatt allra einstaklinga, bæði af launatekjum og atvinnurekstri, en þær eru í ár áætlaðar, eins og ég sagði áðan, um 5.7 milljarða, en námu í fyrra um 5.6 milljörðum. Nú hefur hins vegar sú breyting orðið á að tvö söluskattsstigin, sem falla áttu niður um áramótin, renna nú í ríkissjóð og lagaákvæðið um 1% olíugjaldið hefur verið framlengt til 1. apríl á næsta ári.

Við þm. Alþfl. vorum andvígir því að þau tvö söluskattsstig, sem runnu í Viðlagasjóð, færu í ríkissjóð, og við töldum unnt að endurskoða fjárlög ríkisins með þeim hætti að hægt væri að komast hjá því að taka þessi tvö söluskattsstig í ríkissjóð. Rök okkar fyrir því voru einföld. Þau voru þau að henda á þá gífurlegu hækkun sem orðið hefur á undanförnum árum á tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Í því sambandi má minna á að síðustu fjárlögin, sem samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. lagði fyrir Alþ., fjárlögin fyrir árið 1971, gerðu ráð fyrir 11 milljarða tekjum ríkissjóðs. Þau fjárlög, sem nú eru í gildi, gera ráð fyrir 60 milljarða tekjum í ríkissjóð. M.ö.o.: á s.l. 5 árum frá árinu 1971–1976, hafa tekjur ríkissjóðs hvorki meira né minna en 5–6-faldast. Það gefur auga leið, þó að mér sé ljóst að mjög verulegur hluti af útgjöldum ríkissjóðs er lögbundinn, þá hlýtur slík gífurleg aukning, 5–6-földun á 5 árum, að kalla á gagngera endurskoðun á útgjaldakerfi ríkissjóðs. Í þessu sambandi ætti tekjumissir, sem væri einhvers staðar á milli 4 og 5 milljarða kr., ekki að vera slíkt vandamál sem hann kann að virðast í fljótu bragði ef menn hafa ekki í huga hve stórkostleg breyting hefur orðið á tekjum og gjöldum ríkissjóðs á undanförnum 5 árum. Við gerðum einnig ráð fyrir því í haust og gerðum okkur alveg ljóst að það að halda þrem söluskattsstigum mundi ekki duga til þess að bæta ríkissjóði upp missinn á tekjuskatti launþega. En í því sambandi bentum við á í fyrsta lagi að fyrirtæki, sem stunda atvinnurekstur, mundu greiða aukinn tekjuskatt vegna breyttra reglna um fyrningarfrádrátt og vaxtafrádrátt, enda er tekjuskattur þeirra, sem stunda atvinnurekstur, nú sáralítill, eins og ég gat um áðan, auk þess sem næstum helmingur atvinnurekenda greiðir bókstaflega engan tekjuskatt. Við bentum í öðru lagi á að tekjuskattur af söluhagnaði eigna mundi vaxa. Og við bentum í þriðja lagi á að það væri nauðsynlegt að allsherjarendurskoðun færi fram á útgjaldakerfi ríkisins. Við minntum einnig á að innheimtukostnaður ríkisins vegna tekjuskatts mundi stórlækka, en hann nemur verulegum fjárhæðum. Samt sem áður gerðum við okkur ljóst, — við vildum vera algjörlega raunsæir í málflutningi okkar, — að þetta mundi ekki nægja að fullu til þess að bæta ríkissjóði tekjumissinn vegna niðurfellingar tekjuskatts af launatekjum. Þess vegna stungum við upp á því, og sú till. verður enn brýnni nú eftir að ríkissjóður hefur tekið tvö söluskattsstig eða sem svarar 2400 millj. kr. af því sem við vildum láta ganga til þess að bæta tekjumissinn vegna launatekjuskattsins, — sú hugmynd verður enn brýnni nú, enn brýnna að hún sé könnuð ofan í kjölinn, og hún er sú að leggja skatt á veltu fyrirtækja sem stunda atvinnurekstur, bæði félaga og einstaklinga.

Ég benti á það fyrr í ræðu minni, að í fyrra hafi sá tekjuskattur, sem fyrirtækin greiddu, numið undir 1% af veltunni, auk þess sem fyrirtæki, sem veltu 100–130 milljörðum, greiddu bókstaflega engan tekjuskatt. Hér sýnist okkur vera um að ræða tekjustofn sem hafi verið svo að segja alveg ónotaður. Það er kunnara en frá þurfi að segja að sveitarfélög innheimta aðstöðugjald af brúttótekjum fyrirtækja í sveitarsjóð. Hliðstætt teljum við að ríkissjóður ætti að gera, hann ætti að leggja brúttóveltuskatt eða veltugjald á veltu fyrirtækja. Það þyrfti ekki að vera mjög hátt, mjög lítil viðbót við það tæplega 1% sem þau nú greiða í tekjuskatta. Hækkun þessi þyrfti ekki að vera nema mjög lítil til þess að bæta ríkissjóði það sem á vantar að tekjur hans jafnist upp vegna þeirra breytinga sem ég gat um áðan á tekjuskattslögunum og tvímælalaust mundu fela í sér auknar tekjur til ríkissjóðs.

Ég hef auðvitað ekki aðstöðu til þess og ekki einstakir þm. að gera um það nákvæmar athuganir hversu hár slíkur veltuskattur þyrfti að vera til þess að ríkissjóður stæði skaðlaus eftir. En það gætu þeir ágætu sérfræðingar, sem fjmrh. hefur á að skipa, eflaust reiknað út eða fyrir því gætu þeir gert sér grein á tiltölulega skömmum tíma. Verði till. samþ. yrði árangurinn einmitt sá að slík athugun færi fram. Og ég er sannfærður um á grundvelli lauslegra athugana sem ég og fleiri hafa gert í þessum efnum, þó að ég vilji ekki fara með tölur í þessu efni, að þessi veltuskattur þyrfti aðeins að vera mjög lágur og yrði engan veginn tilfinnanlegur, en bætti þó ríkissjóði að fullu teknamissinn vegna niðurfellingar tekjuskattsins af launatekjum.

Síðustu orð mín skulu vera þau, að það getur varla nokkur maður verið í vafa um að það væri réttlátara að láta allan atvinnurekstur í landinu greiða mjög smávægilegan brúttóveltuskatt heldur en íþyngja launþegum jafnherfilega og nú á sér stað og jafnranglátlega og nú á sér stað með innheimtu stighækkandi tekjuskatts til ríkisins af launatekjum. Sannleikurinn er sá, og það skulu vera síðustu orð mín, að mestu félagslegu réttlætismálin, sem nú eru á döfinni í íslensku þjóðfélagi, eru annars vegar nauðsyn þess að setja heildarlöggjöf um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og svo hins vegar að losa íslenska launþega undan því félagslega ranglæti sem í því felst að láta þá greiða gífurlegar upphæðir í tekjuskatta, samtímis því sem atvinnurekstur í landinu greiðir nær engan tekjuskatt. Þetta er augljóst ranglæti. Ég hika ekki við að segja að við hlíð lífeyrissjóðsmálsins er það brýnasta félagslega réttlætismálið, sem nú er á döfinni, að bæta úr því óréttlæti sem núverandi innheimta stighækkandi tekjuskatts af launafólki felur í sér.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til að þessari till. verði vísað til hv. fjvn.