25.03.1976
Sameinað þing: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

206. mál, ráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og búseturöskun í Norður-Þingeyjarsýslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki tala hér lengi öðru sinni. Raunar hefði ég ekki komið hér upp aftur ef mér hefði ekki blöskrað þessi sígilda hræsni sem kemur úr kokum sumra hv. þm. hér í þessum hv. sal. Hvatinn til þess að hv. þm. Albert Guðmundsson kom hér upp áðan var sá að hann þóttist skynja óvirðingu við Alþ. í dálítið kaldranalegri upphrópun, í dálítið beisku og sáru upphrópunarmerki 3 ræðulok hjá hv. þm. Kristjáni Ármannssyni. Ég tók þessa setningu hans, sem kom þarna fram, raunverulega sem tilvitnun innan gæsalappa, ekki sem tilraun til fyndni. Ég tók hana sem líkingu og réð í hana þá sárbeittu skoðun, að stundum sé allmikill munur á orðanna hljóðan og fyrirheitum sem gefin eru í þessum sal, og meiningunni, sem á bak við býr. Það var ekki óvirðing við hv. Alþ., það var alvara.

Óvirðing við Alþingi felst kannski í skorti á einlægni af hálfu manna sem sjálfir eru ekki við því búnir eða hafa ekki lag á því að segja nógu satt í þessum virðulegu sölum eða óvanir því að hafa rétt eftir jafnvel. En hún felst ekki í orðum manna sem gagnrýna með sléttum orðum, en dálítið beiskri áherslu, vinnubrögð hv. Alþingis.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ingvar Gíslason sagði þrátt fyrir allt um byggðaþróunaráætlunina. Þetta er ekki að öllu leyti slæmt ritverk. Sem „litteratúr“ er þetta gott að sumu leyti, jafnvel sem sögulegt plagg. Þar er greinargerð um vandamál í Norður-Þingeyjarsýslu, — vandamál sem við er að glíma. Ýmsar tölur eru þar réttar miðað við þann tíma sem bókin var unnin á. Sem slík, sem fræðirit um ástand á þeim tíma þegar ritið er samið, þá er þetta nokkuð gott. En þetta er hagvaxtaráætlun. Markmiðin, sem sett eru í þessari áætlun, eru hagvaxtarmarkmið þar sem miðað er að því að þetta landsvæði geti keppt við þéttbýlissvæði t.d. sunnanlands með því að bjóða ýmislegt sem nú þykir eftirsóknarvert, en á þrátt fyrir allt ekki heima á þessu landssvæði og gefur mannlífinu þar ekki gildi. Það er markmið í þessari áætlun t.d. að málefni komist í það horf að það verði rakari á Þórshöfn og skemmtiiðnaðarmiðstöð. Það er ekki þetta sem vantar á Þórshöfn. Núna vantar þar skip og það vantar fisk, það vantar hráefni. Það vantar undirstöðu undir atvinnu fólksins í plássinu.

Ég veit að þessi dæmi, sem ég tek núna, eru ekki að öllu leyti kurteislegt svar við ræðu hv. þm. Ingvars Gíslasonar, og það er ekki heldur ætlast til þess að þau verði tekin sem svar við ræðu hans. En þessi mælikvarði, sem fram kemur í byggðaþróunaráætluninni eins og hún var kynnt á sínum tíma nyrðra, dæmi um það, hvers konar samfélag eigi að koma þarna upp og standa undir rakara og skemmtiiðnaðarmiðstöð, sýna kannski hversu fráleitt það er að — við skulum segja — hin fjarlægari markmið með þessari bók séu raunhæf.

Að slepptum bartskera á Þórshöfn sem mun nú ekki hafa átt að vera undirstaða undir mannlífinu þar, heldur mælikvarði á það hversu flott það væri orðið, — að honum slepptum, þá er hitt rétt, að útkoma þessarar bókar sem grg. um slæmt ástand, þá er útgáfa þessarar bókar góð. En hitt skortir, viðbrögðin við þessu ástandi, og eftir því sem mér skilst á Þórshafnarbúum, eftir því sem mér skilst á kaupfélagsstjóra þeirra kópaskersbúa sem hér mælti með þáltill. sinni áðan, þá er nú svo komið að það má ekki dragast úr hömlu að við þessum vandamálum sé brugðist og þá fyrst þeim sem verst eru. Og við væntum þess að nú verði brugðist við þeim þannig að komist verði hjá því að byggðarlög fari þarna í eyði.