04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

297. mál, fólk og framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég hef hér, held ég og vona, þær upplýsingar sem hv. 3. þm. Reykn. bað um og setti fram í fsp.- formi á þskj. 39.

Fyrsta spurningin er svona: „Hve margir íslendingar störfuðu í þjónustu Bandaríkjahers og við aðrar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli: a) í okt. 1974, b) í okt. 1975?“

Svar: Miðað við 1. okt. 1974 störfuðu alls 1094 íslendingar ýmist í þjónustu varnarliðsins sjálfs eða aðila sem unnu fyrir varnarliðið samkv. verksamningum. Sambærileg tala 1. okt. 1975 var 1422. Aukning á einu ári er því 328 manns. Þessi aukning stafar af þeim umsvifum sem ég minnti á þegar ég svaraði fsp. hv. þm. nú fyrir skemmstu, þ. e. a. s. byggingu íbúða. Hér eru ekki taldir með þeir sem að hluta vinna fyrir varnarliðið með ýmsum hætti, svo sem t. d. starfsmenn flugfélaga, skipafélaga, opinberir starfsmenn og þess háttar.

2. liður fsp. hljóðar svo: „Hve margir bandaríkjamenn (hermenn og aðrir starfsmenn) voru við störf á Keflavíkurflugvelli: a) í okt. 1974, b) í okt. 1975?“

Svar: Hermenn voru 1. okt. 1974 alls 3317. Þeir voru 3007 1. okt. s. l. Hefur þeim því fækkað á því ári, sem þarna um ræðir, um 310. Á launaskrá hjá varnarliðinu voru 218 óbreyttir borgarar 1. okt. 1974. Þeir voru 205 ári síðar og hefur þá fækkað um 13 samkv. þessu. Langstærsti hópur þessa fólks eru konur og aðrir aðstandendur varnarliðsmanna. Hinn 1. okt. 1974 voru samtals 113 bandaríkjamenn á sérstökum verksamningum við varnarliðið. Þeir voru 121 nú við 1. okt. s. l. og hefur þá fjölgað á umræddu ári um 8. Hér er um að ræða tæknimenn eða sérfræðinga í hvers konar tækjabúnaði, kennara, Rauðakrossstarfsfólk og annað sérhæft fólk.

3. liður fsp. hljóðar svo: „Hvað er áætlað að allar framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli nemi hárri upphæð: a) á árinu 1975? b) á árinu 1976?“ Í 4. lið er svo einnig spurt um það, hvað áætlað er „að íslensk verktakafyrirtæki vinni fyrir háa fjárupphæð á vegum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli: a) á árinu 1975, b) á árinu 1976?“

Ég bað starfsmenn varnarmáladeildar að hafa samband við hv. 3. þm. Reykn. um hvort ekki mætti svara þessum líðum tveim í einu lagi. Féllst hann góðfúslega á það og mun ég því svara þessum tveim líðum fsp. í einu lagi vegna þess að þetta fer nokkuð mikið saman.

Íslenskir aðalverktakar annast allar nýbyggingar fyrir varnarliðið og Keflavíkurverktakar annast viðhaldsvinnuna. Varnarliðið sjálft annast aðeins daglegt viðhald og viðgerðir, sem unnar eru af föstum starfsmönnum þess, auk alls konar annarra þjónustustarfa. Gert er ráð fyrir því og má það teljast nokkuð ábyggileg tala að fyrirtækin muni á þessu ári vinna fyrir um það bil 1535 millj. kr. Af þessari upphæð má telja efniskostnað nema um þriðjungi þannig að rúmlega einn milljarður kr. af þessari upphæð verði greiðsla vinnulauna á einn eða annan hátt. Að því er árið 1976 varðar er erfiðara að koma með nákvæmar tölur af ýmsum ástæðum. T. d. er þjóðþing Bandaríkjanna ekki enn búið að samþykkja allar fjárveitingar fyrir þetta tímabil. Einnig geta erfiðleikar við efnisútvegun tafið framkvæmdir. Því er gert ráð fyrir að framkvæmdir á árinu 1976 verði einhvers staðar á bilinu milli 2 530 og 2 890 millj. kr. Er þá miðað við núv. gengi á Bandaríkjadollar. Gert er ráð fyrir að efniskostnaður verði svipaður hundraðshluti og áður eða 1/3. Ættu þá vinnulaun á einn eða annan hátt af starfsemi þessara tveggja verktakafyrirtækja að nema frá 16901 930 millj. kr. Þess ber enn fremur að geta, að eins og áður hefur verið sagt mun atvinnuástandið í þessum landshluta einnig geta haft nokkur áhrif á það hve mikill hraði verður á þeim byggingarframkvæmdum sem hér um ræðir.

Vona ég að þessi svör fullnægi fsp. hv. 3. þm. Reykn.