29.03.1976
Efri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

204. mál, tilraunaveiðar á úthafsrækju

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Sú till., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 428, er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um það nú þegar, að hafnar verði tilraunaveiðar á rækju á djúpslóðum fyrir Austurlandi. Fengin verði a.m.k. tvö skip til þessara veiða, veiðitilraunir standi eigi skemur en þrjá mánuði og verði rekstur skipanna í sem nánustu samráði við fiskifræðinga.“

Upphaf þessarar till. má rekja til mikillar umræðu eystra og þá einkanlega í sveitarstjórn Reyðarfjarðar í janúar í vetur. Sú umr, var um atvinnumál. Þá var einmitt mjög til þessa þáttar horft. Fréttirnar, sem við fengum af veiðitilraunum úti fyrir Reyðarfirði á s.l. sumri, voru þess valdandi. Þá þegar voru uppi beinar óskir um að koma þessu sem best á framfæri við stjórnvöld og jafnvel með tillöguflutningi ef það þætti líklegast. Það að þessi till. er ekki fyrr fram komin er fyrst og fremst vegna þess að annarra leiða var nokkuð leitað. Þar var velviljinn nægur, en það, sem máli skipti skorti yfirleitt, þ.e.a.s. fjármagnið.

Nú kom fram fljótlega eftir þinghlé í vetur till. frá hv. þm. Tómasi Árnasyni um fiskileit og tilraunaveiðar, almenna en ágæta stefnumörkun, en þar var um aðrar sjávartegundir rætt, þ.e. loðnu, kolmunna og spærling. Ég hafði lengi í huga að flytja við þessa till. brtt. um rækjuna og hafa þá þann líð jafnákveðinn og hér er lagt til, en sá fljótlega að þar mundi vera um hæpna leið að ræða þar sem hin till. var svo almenn og náði yfir landið allt. Þegar svo þessi mál vorn ítrekuð nýlega á fundi eystra þótti mér sjálfsagt að bera till. fram og freista þess að fá hana í gegn, þó að ég viti að helstu annmarkar hennar séu þeir hve ákveðin hún er, og ef til vill þykir mönnum fram á mikið farið, a.m.k. hef ég þegar fengið um það athugasemd. En ef alvara á hér að vera í málsmeðferð og ef ganga á úr skugga um möguleika á veiðum og vinnslu þarf að gera þar myndarlegt átak, hvort sem það verður í því formi, sem hér er lagt til, eða önnur leið valin, að því er sumir mundu segja öllu hófsamari. Um þetta má deila svo og hvort réttari leið hefði verið viðbótartill. í Sþ. við till. hv. þm. Tómasar Árnasonar. En það er mér ekkert atriði. Hér er um að ræða mál sem hlýtur að vera eðlilegt að sé rætt frá mörgum hliðum og leitast sé við að finna sem farsælasta lausn þess og það sem allra fyrst.

Ég ætla mér ekki hér og nú að fara að endurtaka þær gífurlegu umr. sem orðið hafa um nýtingu auðlinda hafsins, ástand veiðistofna í hafinu umhverfis okkur og verndun þeirra. Þá umr. þekkja allir. Sú dökka mynd, sem því miður hefur reynst of sönn, er öllum kunn og óþarft að tíunda hér. Það nýjasta í þessum efnum, till. um að leggja fiskiskipaflota okkar um lengri eða skemmri tíma, jafnvel 2–4 mánuði í sumar, ætla ég ekki heldur að fara út í. Þær till. koma eflaust til umr. á Alþ. í einhverri þeirri mynd sem geri það a.m.k. nauðsyn fyrir okkur að huga sem best að öllum nýjum leiðum, öllum nýjum möguleikum sem veiðar okkar gætu beinst að, skapað atvinnu og öryggi, einkum þeirra staða sem háðastir eru sjávarafla, og um leið forðað frá þjóðarvoða atvinnulega sem efnahagslega. Ég hef því i.alið nauðsyn á því að flytja þessa till. hingað beint inn til umr. og umhugsunar og vonandi til raunhæfra aðgerða í kjölfarið. Ég leyfi mér að vitna orðrétt í grg. mína, en þar segir svo:

„Þegar um nýja möguleika er rætt er eðlilegt að lítið sé til úthafsrækjunnar, og þá ekki síst hafa austfirðingar áhuga á því að veiðimöguleikar séu kannaðir í fullri alvöru. Þar dugar ekki skammtímaleit, heldur beinar tilraunaveiðar, og til þeirra þarf að tryggja hentug skip og veita þeim þá aðstöðu, sem gerði veiðarnar sem marktækastar.

Til þessara tilraunaveiða þarf verulegan fjárstuðning, eða þá að ríkið sjálft stæði beinlínis að veiðunum. Útgerðaraðilar hafa ekki möguleika á því að stunda veiðar sem þessar, aukakostnaður er mikill í byrjun og áhættan of mikil, því enn ríkir algjör óvissa um hversu til mundi takast, þó horfur virðist góðar.

Sjómenn hafa löngum orðið varir rækju fyrir Austfjörðum. Sumarið 1975 fór Hafþór í rækjuleit fyrir Austfjörðum, og þar kom í ljós að viða fannst rækja og djúpt úti af Vattarnesi fékk Hafþór ágætan afla, eða 200 kg á togtíma af stórri og góðri rækju. Áður hafði fengist ágætur afli í skyndileit út af Héraðsflóa. Þessi rækja þykir sérstaklega hentug til sölu — sveiflur á markaðsverði minni en varðandi smærri rækju — auk þess sem hér gæti opnast ný veiðislóð fyrir þorskveiðibáta okkar — þá sem nú jafnvel uppi till. um að leggja í 2–4 mánuði á næsta sumri. Það hlýtur því að teljast sjálfsagt að allra leiða sé leitað.

Ég tel að málið sé það brýnt, að skipulegar veiðar eigi að hefja á sumri komanda með beinni aðstoð opinberra aðila, svo sem Fiskimálasjóðs, og undir umsjá Hafrannsóknastofnunar.

Sérstakar óskir hafa komið fram frá reyðfirðingum um það, að þessar veiðar fari fram einkum með tilliti til þeirrar jákvæðu niðurstöðu sem Hafþór fékk sumarið 1975 út af Vattarnesi. Þar þykir mönnum einsýnt, að sem fyrst þurfi að ganga úr skugga um það, hvort hér sé um það magn að ræða sem á mætti byggja veiðar með tilheyrandi vinnslu.

Áhugi reyðfirðinga sérstaklega á þessu máli er auðskilinn. Miðin eru út af firðinum, sjávarútvegur og fiskvinnsla eru þar enn í lágmarki miðað við Austfirði almennt, en til er á staðnum aðstaða, sem hentar vel til rækjuvinnslu, en er nú ónotuð með öllu. Þar er einnig að finna skip sem kjörin eru til þessara veiða, en óvíst um möguleika þeirra til veiðiskapar í sumar.

Það er því að vonum að menn vilji fá úr því skorið sem fyrst, hvers vænta má af rækjuveiðum út af Austfjörðum. Miðað við útlit og horfur og nýlegar till. um stöðvun fiskiskipastóls okkar hlýtur hér að vera um þjóðhagslega nauðsyn að ræða einnig, því einskis má láta ófreistað að koma í veg fyrir allar ógæfutillögur af þessu tagi. Hér er því beint lagt til að skip verði fengin til veiða í sumar með atbeina rn. og Hafrannsóknastofnunar og tilheyrandi fjárhagsaðstoð og skipulegar veiðar verði stundaðar í a.m.k. 3 mánuði.“

Við þessa grg. er raunar litlu að bæta. Þó vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér þá grg. sem fiskifræðingur Hafrannsóknastofnunar lét frá sér fara eftir rækjuleitina 1975, en hún er svo hljóðandi:

„Nýlokið er leiðangri með Hafþór sem farinn var gagngert til rækjuleitar á djúpslóðum. Athugað var Lónsdýpi, Bernfjarðaráll og svæðið milli Vattarness og Dalatanga rúmar 50 sjómílur undan landi. Sæmilegur rækjuafli fékkst í Lónsdýpi, eða 45 kg á togtíma, en fremur lítill í Berufjarðarál. Aftur á móti fékkst ágætur afli djúpt af Vattarnesi, eða 200 kg á togtíma, en þar var um að ræða 494 m dýpi. Síðan fylgdum við 400 m dýptarlínunni norður fyrir Gletting móts við Vopnafjarðargrunn og fengum alls staðar rækju, en í litlum mæli. Í fyrir leiðöngrum hefur ágætur rækjuafli fengist við Héraðsflóadjúp og á Bakkaflóadjúpi, eða allt upp í 210 kg á togtíma í Héraðsflóadjúpi og 105 kg á togtíma í Bakkaflóadjúpi að jafnaði. Að vísu hefur ekki gefist tækifæri til þess að athuga þessi svæði á hinum mismunandi árstímum og ræður veður þar mestu um. Þessi svæði eru á það djúpu vatni og langt undan landi að aðeins stærri skip gætu hugsanlega stundað rækjuveiðar þarna.“

Hér virðist sem sé ljóst að um geti verið að ræða umtalsvert rækjumagn, og ég álít að það megi einskis láta ófreistað að ganga úr skugga um hvort um það magn sé að ræða sem á megi byggja ef til vill verulegar veiðar. Skýrslan sýnir einnig glögglega að leit eins og sú, sem þarna fór fram, og reyndar sú, sem áður hafði farið fram, dugar ekki, meira þarf til svo að úr megi skera. Ég álít okkur ekki hafa efni á því að láta þetta verkefni óhreyft.

Það fer óneitanlega um okkur kaldur hrollur við tilhugsunina um veiðistöðvun svo mánuðum skipti. Fyrir fjölmarga staði mundi nánast vera um algjört atvinnuleysi að ræða, svo mjög sem framkvæmdagildi opinberra framkvæmda hefur rýrnað og fyrirsjáanlegur er samdráttur bæði þar og í framkvæmdum almennt. Ég held því að fleiri en sveitarstjórn minnar heimabyggðar hafi um þessi mál fjallað beint. Nýlega sá ég ályktun frá bæjarstjórn Neskaupstaðar sem mjög gekk í sömu átt, og frá Eskifirði fékk ég í gær einnig ákveðna stuðningsyfirlýsingu við þessa till. frá þeim aðila þar sem ég met mest hvað öll sjávarútvegsmál snertir. En allar vangaveltur og hik duga ekki. Hér verður að taka af skarið — annað hvort eða — og gera marktækar tilraunir til veiða eða þá að aðhafast ekkert. Ég álít að við höfum ekki efni á því að láta neitt tækifæri ónotað og því er till. þessi flutt.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. sjútvn.