29.03.1976
Efri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það var ekki til þess að taka þátt í þeirri mjög svo áhugaverðu deilu um hver sé menningarviti og hver ekki sem ég kvaddi mér hér hljóðs. Ég ætla að leiða það hjá mér, enda eigast þeir einir við sem geta séð um sinn málstað, heyrist mér. En ég ætlaði að láta það koma hér fram sem mitt sjónarmið að við erum nógu lengi, alþm. búnir að verða okkur til skammar að því er snertir Ólaf Jóhann Sigurðsson og viðurkenningu hans sem rithöfundar, eins hins besta rithöfundar sem hér hefur skrifað, þó að við förum nú ekki að kroppa í þau fátæklegu heiðurslaun sem Norðurlandaráð veitir honum að þessu sinni mjög maklega. Ég held að við getum lifað jafnvel eða illa í þessu landi okkar þó að við látum það vera að seilast í vasa þeirra manna sem með ótvíræðri snilld hafa aflað sér viðurkenningar erlendis, þó í fjármunum sé mælt. Ég geri síður að umtalsefni tónskáldið okkar, ég hef ekki fylgst nægilega með því. En ég tel einsýnt að hann eigi að sitja við sama borð, enda hefur þessi stefna verið mörkuð varðandi heiðurslaun íslenskra listamanna, og ég vona að henni verði haldið áfram og Alþ. fari aldrei svo langt niður stigann að seilast til að drýgja ríkistekjurnar með skattlagningu heiðurslauna, þó ekki væri væri vanþörf á að auka þær.