29.03.1976
Efri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ákvað að nota strax síðari skammtinn minn, sem mér er ætlaður við þessa umr., til þess að lýsa yfir ánægju minni með nánari útskýringu hv. þm. Jóns G. Sólness á afstöðu hans í þessu máli. Ég tek skýringu hans fyllilega gilda. Það má vel vera að það hafi beinlínis verið að kenna skilningsskorti af minni hálfu að ég leit svo til að hann viki: aths. sinni um menningarvitana beinlínis að rithöfundinum og tónskáldinu sem hér um ræðir, sem þegið hafa verðlaun og fjallað er um í þessu frv. að skuli að fá eftirgjöf á skatti fyrir þessi verðlaun sin. Ég ætla nú samt að það hafi verið til nokkurra bóta að ég skyldi gefa hv. þm. tækifæri til að undirstrika þessa sína frómu afstöðu öllu betur en hann gerði í fyrra sinnið ef vera mætti að fleiri hefðu misskilið hann en ég.

Varðandi vita þá, sem hv. þm. ræddi hér um, hina svonefndu menningarvita, sem eiga að vísa okkur leiðina í málefnum hinna æðri lista, þá get ég náttúrlega tekið undir það, ég hlýt að taka undir það með hv. þm. að þessir vitar, sem hér um ræðir, þeir hafa lýst hvítt yfir býsna mörg blindskerin á liðnum árum og þeir, sem eftir þeim hafa stýrt, hafa viðast steytt á skeri fyrir bragðið. Ég er þeirrar skoðunar að það færi vel að hv. alþm. leyfðu sér ekki að greiða atkv. um gildi annarra bókmennta t.d. hér á hv. Alþ. — annarra bóka en þeirra sem þeir hefðu lesið sjálfir — og reyndu þá að fara eftir sínum eigin smekk prívat og persónulega þegar þeir kveða á um það hvort þær bækur eða þær bókmenntir séu verðlaunahæfar, og jafnvel mætti þetta gilda um tónlist og myndlist líka. En sem sagt, ég ítreka þetta: Það gleður mig stórlega að ég skyldi misskilja orð hv. þm., og ég sætti mig mjög vel við þá skilgreiningu sem hann gaf síðar í ræðu sinni.