29.03.1976
Efri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði, langar mig aðeins til að vekja athygli á því, að á því er munur hvort um er að ræða að einstaklingum eru veitt heiðurslaun og því, sem hv. þm. vakti athygli á áðan, að einstökum listamönnum er gefið tækifæri til þess að koma fram erlendis og þá um leið eru þeir að afla sér atvinnutekna. Það eru samningar á milli þjóða þannig að ekki verði um tvísköttun að ræða, og í því tilfelli, sem var vikið að áðan, eru tvísköttunarsamningar þannig, að viðkomandi listamaður hefur verið skattlagður í því landi þar sem honum var boðið að koma fram. Þegar svo dæmi hans er gert upp hér heima, þá er um að ræða frádrátt vegna þess sem hann hefur greitt í skatt í viðkomandi landi. Við megum ekki blanda saman heiðurslaunum, eins og hér er verið að tala um, þ.e.a.s. verðlaunum Norðurlandaráðs, og því þegar listamenn fá tækifæri til þess að koma fram á erlendri grund, en eru þá um leið að afla sér atvinnutekna.

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það frv., sem hér um ræðir, fjallar eingöngu um heiðurslaun bókmennta- og tónverka hjá Norðurlandaráði, en ekki að það sé verið að veita skattfríðindi af atvinnutekjum sem menn hafa með verkum sínum eða vinnu aflað sér á erlendri grund. Við getum að sjálfsögðu, þegar hin almennu skattalög eru til meðferðar, haft skoðanir á því með hvaða hætti við viljum skattleggja tekjur listamanna sem þeir afla á erlendri grund þar sem þeim hefur verið boðið að koma fram.