29.03.1976
Neðri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

163. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv. um breyt. á almennum hegningarlögum, sem hér er lagt fyrir, fjallar einungis um viðauka við 6. gr. almennra hegningarlaga og er borið fram vegna fyrirhugaðrar fullgildingar Íslands á milliríkjasamningi frá 14. des. 1973 um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þ. á m. sendierindrekum. Er lagt til að unnt verði að refsa eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi þá sem greinir í nefndum milliríkjasamningi þótt hún hafi átt sér stað utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er að henni valdur.

Ísland hefur undirritað þennan milliríkjasamning og að ósk utanrrn. var hegningarlaganefnd falið að gera könnun á því hverjum ákvæðum íslenskra laga þyrfti að breyta eða hvernig ákvæði þyrfti að setja svo að unnt væri að fullgilda umræddan milliríkjasamning. Varð niðurstaða n. að ekki þyrfti að koma til lagabreytinga annarra en þess viðauka við hin almennu hegningarlög sem hér er lagt til.

Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Ed. og verið samþ. þar óbreytt. Ég skal ekki segja um það hvort þessum samningi hefur verið útbýtt hér eða ekki, en það skiptir ekki máli, þá er lagaheimildin til.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska þess að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.