29.03.1976
Neðri deild: 85. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

154. mál, sálfræðingar

Menntmrh. (Vílhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og hefur verið afgr. þaðan með smávægilegri breytingu. Það er undirbúið að tilhlutun menntmrn. af Hrafnhildi Stefánsdóttur fulltrúa þar, lögfræðingi, og Andra Ísakssyni prófessor, sem jafnframt er formaður Sálfræðingafélags Íslands, og þetta frv. er raunar undirbúið og flutt að ósk Sálfræðingafélagsins. Því fylgja nokkuð ítarlegar athugasemdir, þar sem bæði er greint frá þróun þessara mála hér á landi og í nálægum löndum og greint frá þeirri löggjöf sem þar hefur verið sett varðandi sálfræðinga, svo að ég sé ekki ástæðu til að hafa langa framsögu fyrir þessu frv.

Ég vil aðeins minna á það, að þrátt fyrir að sálfræðingar hafa í vaxandi mæli verið ráðnir til starfa, einkum innan skólakerfis og heilbrigðisþjónustu, þá hafa ekki verið sett nein lagaákvæði um starfsemi þeirra og starfsheitið sálfræðingur hefur ekki notið lögverndar. Aftur á móti setti síðasta Alþ. slík lög um félagsráðgjöf, þ.e.a.s. lög nr. 41 frá 1975, en eins og kunnugt er, þá eru störf félagsráðgjafa og sálfræðinga nokkuð hliðstæð, a.m.k. að öllum jafnaði mjög nátengd í framkvæmd því þeir starfa mikið saman. Ég hygg að það sé alveg eðlilegt í framhaldi af því, sem gert var hér á Alþ. í fyrra, þ.e.a.s. lagasetningu um félagsráðgjöf, að setja nú lög í þá stefnu sem lagt er til með þessu frv. En með vísun til þess að athugasemdir eru nokkuð ítarlegar, þá hef ég þessi orð ekki fleiri, en leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. menntmn.