30.03.1976
Sameinað þing: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú staðið nokkuð lengi eða þegar í eina þrjá tíma og hafa þó ekki margir tekið til máls. Sýnir það að mönnum liggur mikið á hjarta. Ég vil nú leyfa mér að bæta hér fáeinum orðum við, því að ég get ekki orða bundist yfir ýmsu sem hefur komið fram í þessum umr.

Mér fannst það satt að segja furðulegt að hæstv. forsrh. skyldi bjóða alþm. þann fráleita málflutning sem hann hefur reyndar áður haft í frammi hér á Alþ., að endurteknar umr. í þinginu geti gefið bretum til kynna að við séum að gefast upp í landhelgismálinu. Þetta er að sjálfsögðu þeim mun furðulegra þar sem flestum mun nú ljóst vera að umr. hér á Alþ. hafa einkum beinst að því að fastar verði tekið á móti þar sem ofbeldisaðgerðir breta eru. Umr. á Alþ. eru auðvitað ekkert annað en endurómur af þeim umr. sem eiga sér stað manna á meðal um allt land, þar sem sú skoðun er yfirgnæfandi að tök ríkisstj. á þessu máli hafi verið harla fálmkennd. Satt best að segja væri það þvert á móti furðulegt ef alþm. þegðu við þessar aðstæður og gæfu þar með til kynna að þeir væru að öllu leyti ánægðir með aðgerðarleysi ríkisstj.

Auðvitað dettur engum í hug að með kröftugri aðgerðum af hálfu íslendinga og með eflingu landhelgisgæslunnar sé í einni svipan hægt að útiloka veiðar breta hér við land. Við vitum hvert hefur verið viðfangsefni okkar. Það hefur verið að torvelda veiðar breta sem mest og reyna að þreyta þá, gera þeim ljóst að þannig geti þetta ekki haldið áfram til lengdar. En til þess þurfum við að beita eins kröftugri sókn af okkar hálfu og við getum magnað á breta, og við þurfum að nýta alla þá möguleika sem fyrir hendi geta verið.

Eitt af því, sem lengi hefur verið hent á að til greina geti komið í þessu efni, er að íslendingar fengju sér hraðskreið skip í landhelgisgæsluna, og þessi hraðskreiðu skip hefur einmitt borið á góma hér í þessum umr. hér í dag. Menn hafa lengi bent á að það, sem varðskipin vantar, er ekki fyrst og fremst meiri vopn, heldur hitt, að þau geti gengið hraðar þannig að bresku herskipin geti ekki hindrað för þeirra, ýmist með hótunum um árekstra eða með beinum árekstrum. Því var því fagnað um allt land þegar hæstv. dómsmrh. tilkynnti í hátíðlegri fréttatilkynningu 6. mars s.l. að hann hefði farið fram á það við utanrrn. að það kannaði bandarísk gæsluskip af Ashville-gerð sem gætu komið sérstaklega til greina fyrir íslendinga og þess væri óskað að Bandaríkjastjórn lánaði okkur. Í þessari fréttatilkynningu kom fram að þessi mál hefðu verið athuguð hjá Landhelgisgæslunni, einkum af skipherrum gæslunnar, og eins og sagði í fréttatilkynningunni: skipherrarnir höfðu einkum augastað á tveimur gerðum, annars vegar bandarískum gæsluskipum af Ashville-gerð og hins vegar rússneskum smáfreigátum af Mirka-gerð. Þessi tilmæli voru síðan send til Bandaríkjastjórnar og biðin hófst. 10 dögum eftir að þessi fréttatilkynning var gefin út var það haft eftir hæstv. dómsmrh. í Tímanum að hann tryði ekki öðru en við fengjum svar við því í þeirri viku, sem þá var að líða, hvort við fengjum skip frá Bandaríkjunum eða ekki. Við höfum einungis beðið um skip, sagði dómsmrh., og það ætti ekkj að vera svo lengi gert að taka ákvörðun um slíka beiðni. — Þetta var 16. mars s.l. Enn leið ein vika og þá segir hæstv. dómsmrh. í viðtali við Þjóðviljann 23. mars: Ég lít á það sem neitun af hálfu Bandaríkjastjórnar fái ég ekki svar í þessari viku. Og enn hefur líðið heil vika. Nú er kominn 30. mars og enn virðist ekki liggja fyrir hvert verður svar Bandaríkjastjórnar.

Það kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh. í dag að hann hefði fengið einhver skilaboð frá sendiherra bandaríkjamanna, en því miður var harla óljóst hvort þar hefði verið um jákvæða eða neikvæða niðurstöðu að ræða, eftir því sem manni skildist helst væru þessi mál enn í athugun hjá bandaríkjamönnum. Því miður er það alkunnugt að það orðalag, sem svo heitir, að málin séu í athugun, er oft aðferð sem notuð er til að draga málin á langinn, og spurningin hlýtur því að vera: hve lengi verður beðið eftir svari?

Dómsmrh. hefur sagt nú að undanförnu viku eftir viku að það verði ekki beðið lengi eftir svari og hann ætli ekki að láta draga sig á asnaeyrunum hvað þetta snertir, hann muni líta svo á að ef ekki fáist úr þessu skorið, hvort Bandaríkjastjórn vill lána þessi skip eða vill það ekki, þá muni hann að tiltölulega skömmum tíma liðnum líta svo á að tilmælum hafi verið hafnað. Ég skil vel þessa afstöðu hæstv. dómsmrh., vegna þess að það er auðvitað ljóst að það getur komið sér mjög illa fyrir íslendinga að við séum lengi dregnir á svarinu. Það má vel vera að skipherrar Landhelgisgæslunnar, sem sendir voru til Evrópulanda nú fyrir nokkrum dögum og eru nýkomnir heim, hafi ekki komið með jákvæða niðurstöðu hvað snertir þau skip sem þar var verið að athuga. En það liggur hins vegar fyrir og hefur komið opinberlega fram að það eru aðrir möguleikar fyrir hendi, og spurningin er þá hversu lengi á að bíða með að þeir verði teknir til athugunar og hvort hæstv. dómsmrh. hlýtur ekki að leita til ríkja utan Atlantshafsbandalagsins ef í ljós kemur að ekki fæst úr því skorið hjá ríkjum Atlantshafsbandalagsins hvort þau vilja lána slík skip.

Ég hjó eftir því og ég býst við að margir fleiri hafi tekið eftir því að hæstv. forsrh. ræddi þessi mál á nokkuð annan hátt en hæstv. dómsmrh. hér áðan. Eitt af því, sem gerði allstóran mismun á þeirra ræðum, var það að ólíkt dómsmrh. þá minntist forsrh. ekki einu einasta orði á þann hugsanlega möguleika að fá hraðskreið skip í landhelgisgæsluna. Hæstv. forsrh. talaði ítarlega um ráðstafanir sem verið væri að gera og gera þyrfti til að efla landhelgisgæsluna. Hann nefndi þann möguleika að togarar yrðu teknir á leigu og að Hafrannsóknastofnunin þyrfti auk þess að fá skip, en hann minntist ekki aukateknu orði á hraðbáta. (Forsrh.: Það er ekki rétt, ég nefndi þá.) Já, þá verð ég að biðja hæstv. forsrh. afsökunar ef hann hefur nefnt hraðbáta í þessu sambandi, ég tók ekki eftir því, en það eru þá mín mistök og a.m.k. hef ég grun um að það hafi ekki verið í mörgum setningum sem hann vék að því máli.

Ég hef satt að segja tekið eftir því að í skrifum Morgunblaðsins um þessi mál hefur ekki verið mikið um jákvæðan tón gagnvart þeirri hugmynd að fá hingað hraðskreiða báta, og ég hef oft spurt sjálfan mig að því hvort þarna væri einhver maðkur í mysunni og hvort afstaða sjálfstfl.-manna væri að þessu leyti önnur en afstaða ráðh. Framsfl. Ég verð að játa það, að ég tók ekki eftir því að hæstv. forsrh. minntist á hraðbátana, en mér þætti vænt um og ég veit að ýmsir aðrir mundu fagna því ef hæstv. forsrh. ræddi það mál meira en hann hefur gert og tæki af skarið um það hver er afstaða hans til þeirra mála, því að það verður að segjast eins og er, að skrif málgagna flokks hans um þetta mál hafa verið mjög tvíbent og Morgunblaðið hefur hvað eftir annað reynt að gera þennan möguleika heldur tortryggilegan. Ég vil t.d. leyfa mér í þessu sambandi að spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort það liggi fyrir að ríkisstj. og hans flokkur mundu taka jákvæða afstöðu til þess að keyptur eða leigður yrði slíkur bátur ef hann reyndist fáanlegur, og ég vil þá gjarnan fá það á hreint að það breyti engu í þessu sambandi hvaðan báturinn sé fenginn og ef ekki reynist unnt að fá bát frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins, þá verði leitað eftir slíkum bát annars staðar.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. dómsmrh., að hann sagði að það hefði ekki komið fram hugmyndir af hálfu alþb.- manna um eflingu landhelgisgæslunnar og þá væntanlega einhverja fjáröflun í því skyni fyrr en í janúarmánuði. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á og öðrum þeim, sem ekki hafa orðið varir við sjónarmið okkar í þessu efni á s.l. ári, að þegar í nóv. var margsinnis bent á það af hálfu alþb.- manna í umr. um þessi mál að þörf væri á eflingu landhelgisgæslunnar. Þetta kom m.a. mjög greinilega fram í umr. um samninginn við vestur-þjóðverja sem fram fóru hér í þinginu í nóvemberlok. Ég vil líka minna á það, að við tveir þm. Alþb. fluttum við afgreiðslu fjárl. till. um að veittar yrðu aukalega 350 millj. kr. til Landhelgisgæslunnar til þess að hún gæti leigt skip til landhelgisgæslu. En þessi till. var felld við afgreiðslu fjárl. með atkv. stjórnarsinna, en gegn atkv. stjórnarandstæðinga.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því í þessu sambandi að ástandið á miðunum er fyrir löngu orðið svo ískyggilegt, einkum vegna tíðra og markvissra ásiglingartilrauna af hálfu breta, að það duga engin vettlingatök í þessu máli. Það verður að efla landhelgisgæsluna, það verður að ná allsherjarsamstöðu um að stíga spor í þá átt og það fljótt, en ekki láta þetta mál dragast á langinn viku eftir viku og mánuð eftir mánuð án þess að mikið gerist.

Það er vissulega hörmulegt að horfa upp á þau uppgjafarskrif sem lesa má næstum því daglega í Morgunblaðinu, að lítið þýði fyrir íslendinga að ætla sér að fjölga skipum í landhelgisgæslunni eða gera aðrar ráðstafanir til þess að efla hana vegna þess að þá geti bretar bara bætt við skipum af sinni hálfu. Auðvitað eru þetta hin mestu falsrök og ekkert innlegg í þær umr. sem fram hafa farið um að fá skip sem gætu haft veruleg áhrif á gang mála á miðunum. Það þarf sem sagt að fjölga skipum og þ. á m. að fá hraðskreiðan bát, því að staðreyndin er sú að einmitt slíkt skip, jafnvel þótt það gæti ekki verið að nema í tiltölulega góðum veðrum, væri mjög til þess fallið að gera bretum erfitt fyrir. Auk þess þarf að sjálfsögðu að framkvæma það, sem oft hefur verið talað um, að koma upp skiptiáhöfnum, þannig að skipin séu ekki lengi í burtu af miðunum vegna þess að áhafnirnar þurfi að hvíla sig. Hins vegar er það ljóst og um það ættu allir að vera sammála að slík viðbrögð duga ekki, enda eru þau ekki nein endanleg lausn málsins.

Það er ekki unnt að loka augunum fyrir því að það eru NATO-herskip sem gera árásir á íslensku löggæsluskipin. Nú seinast mun hafa komið fram í útvarpinu fyrir stundu síðan að bresk herskip, NATO-herskip, væru vaðandi hér fyrir innan þriggja mílna mörkin, og er það ekki í fyrsta sinn. Ég held að það sé alveg ljóst af því, sem hefur gerst á undanförnum mánuðum, að við verðum að gera Atlantshafsbandalagið ábyrgt fyrir því sem hefur gerst. Og ég fagna sannarlega þeirri ádrepu sem fólst í orðum hæstv. dómsmrh., Ólafs Jóhannessonar, hér áðan og hann beindi bersýnilega að formanni þingflokks Alþfl. sem hefur verið með mjög svo ótímabærar yfirlýsingar á erlendum vettvangi. Það er að sjálfsögðu alger lágmarkskrafa að sendiherra Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu verði kvaddur heim, og jafnframt hlýtur að koma að því að augu almennings opnist almennt fyrir því að við getum ekki verið aðilar að hernaðarbandalagi sem lætur það afskiptalaust að eitt voldugasta aðildarríkið standi fyrir árásum á íslensk löggæsluskip og noti til þess herskip bandalagsins.