30.03.1976
Sameinað þing: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

124. mál, rannsóknir og hagnýting á sjávargróðri

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mikil dæmalaus þvæla gat oltið upp úr hv. 3. þm. Vestf. Hér flutti hann útdrátt úr minni ræðu og sneri bókstaflega hverju einasta atriði við. Ég ætla aðeins að nefna nokkur dæmi.

Hann sagði að ég hefði óskað þess að þessi till. hefði verið flutt við fjárlög. Ég sagði aldrei neitt slíkt. Ég sagðist óska þess að stuðningur hv. þm. við vísindin hefði komið fram við afgreiðslu fjárl. fremur en t.d. stuðningur við styrk til Kaupmannasamtakanna.

Hann taldi að ég hefði sagt að ekki væru til hæfar stofnanir. Ég tek skýrt fram að við hefðum ekki hæfustu menn, en við hefðum ýmsar hæfar stofnanir. Þannig gæti ég endalaust talið.

Hann sagði að ég hefði sagt að honum væri sæmra að flytja þáltill. um sveppi. Ég sagði það aldrei. Ég sagði að hann gæti einnig flutt aðra mjög merka þáltill, um sveppi. Ég var bara að ráðleggja honum. Ég held hann ætti að gera það, því að þar hefur enn þá minna verið rannsakað.

Svo var aðalefnið hjá honum um vinkonu mína, Ivku Mundu. Ég veit ekki hvernig þetta beygist. Ég hef nefnilega ekki umboð fyrir hana nema í nefnifalli. Ég kann því vel að eiga vinkonur og ég á margar vinkonur.

Hann kallar mig formann Rannsóknaráðs. Formaður Rannsóknaráðs stendur þarna, hæstv. menntmrh. Af hverju er hann að veitast að hæstv. menntmrh. sem á enga sök í þessu sambandi? Ég skil ekki hvað maðurinn er að fara. Í Rannsóknaráði situr 21 maður, þar af 7 þm., og svo er hæstv. menntmrh. formaður. Ég er ekki formaður Rannsóknaráðs. Ég er bara aumur framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs.

Svona mætti halda áfram. Ég skal ekki meta svipinn, hvort það er t.d. hundasvipur á hv. þm. núna eða einhver annar svipur, en ef hann mat það svo sem það væri hundasvipur á mér, þá hann um það.

Ég hef ekkert á móti því að fluttar séu till. um sjávarútveg og iðnað og margt margt fleira þótt Rannsóknaráðið fjalli um þá atvinnuvegi. En ég mundi sannarlega mæla gegn því að sett yrði n. til að skipuleggja slíkar rannsóknir t.d. á sviði sjávarútvegs. Við eigum ágætar stofnanir. Ég mundi t.d. leggja til að slíku væri vísað til Hafrannsóknastofnunarinnar, eins og t.d. hv. þm. Tómas Árnason gerði um merka till. sem hann flutti um rannsóknir og fleiri hafa gert. En að skipa sérstaka n. er hrein endileysa.

Nei, staðreyndin er sú að ég tók mjög vægt til orða. Ég reyndi að koma dálitlu viti í þessa till. og forðaðist að segja það, sem vitanlega lá í orðum mínum, að þetta væri þvæla sem hann flutti hér.

Og ég skal segja ykkur að hann hefur aftur og aftur staðið upp, þegar við höfum átt orðaskipti hér við, og lýst miklum vonbrigðum með skilningsleysi mitt á málflutningi hv. þm. Hann um það. Ég vona að hann tapi ekki svefni af þessu. En ég hef hins vegar ekki orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með málflutning hv. þm., því að staðreyndin er sú að hann hefur yfirleitt verið af þessu taginu — þvæla.