31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

222. mál, fjölbýlishús

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil ekki teygja þessar umr. neitt á langinn, en vil aðeins lýsa yfir ánægju minni yfir framkomu þess. Þetta er búið að vera áhugamál mitt um nokkur ár, þau ákvæði sem hér er lagt til að verði lögfest og ég tel um leið, eins og ég hef margoft áður sagt, að séu sanngirnismál. Hér hefur því miður um of langt skeið tíðkast sá þáttur að einn hefur orðið að líða fyrir annan í sambandi við afborganir og skyldur við það að eignast húsnæði. Eru þess mýmörg dæmi að menn hafa orðið að sameina sig um að greiða fyrir einhvern einn sem ekki hefur getað staðið í skilum af margvíslegum ástæðum sem of langt yrði hér upp að telja. Ég held að með þessu frv., sem hæstv. félmrh. var nú að mæla fyrir, sé fyrir þetta girt og að slíkt misrétti og óréttlæti verði ekki viðhaft öllu framar í sambandi við sameign í fjölbýlishúsum. Þess vegna vildi ég ekki láta hjá líða að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. og vonast til þess að aukið réttlæti fylgi því ásamt þeim reglugerðum sem með frv. fylgja.