31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

225. mál, Þjóðleikhús

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður við 1. umr. málsins, frv. kemur til n. sem ég starfa í, en vegna þess, sem fram kom hjá hv. 11. landsk. þm. sem allt var rétt, vil ég aðeins víkja að nokkrum atriðum varðandi 8. og 9. gr., þar sem talað er um starf framkvæmdastjóra í 8. gr. og fjármálafulltrúa í 9. gr.

Þjóðleikhúsið er í dag geysiumfangsmikil stofnun, og ég er ekki frá því að það sé nauðsynlegt, já, viss nauðsyn á því, að koma þar á meiri og gleggri starfsskiptingu einmitt til þess að gæta hagsýni í rekstri. Ég er ekki með neinar átölur á stofnunina í þessum orðum, en þetta er orðið miklu umfangsmeira fyrirtæki, ef svo mætti segja, heldur en menn kannske í upphafi gerðu sér grein fyrir að yrði starfsemi Þjóðleikhússins og aðsókn að því sýnir það gleggst nú undanfarin ár að þetta er mjög umfangsmikil stofnun.

Það er rétt sem hv. 11. landsk. þm. kom inn á varðandi dansflokkinn. Fyrrv. menntmrh. — þökk sé honum — kom þessum dansflokki að nokkru leyti á fót, ef svo má segja, án sérstakrar fjárveitingar, réð hingað erlendan listdansstjóra, mann sem leysti sitt starf, held ég, prýðilega af höndum. Á þessari listgrein er og hefur verið mikill áhugi, það er óhætt að segja það. Það hefur hins vegar gengið upp og niður með að halda þeirri starfsemi stöðugt í gangi þar til þessi tilraun var gerð sem ég hér vitna til. Síðan hefur þessi flokkur starfað, ég vil segja með mikilli prýði. Auðvitað kostar það peninga, og það er ekki nema eðlilegt, þegar velta þarf fyrir sér hverri krónu, ef svo má segja, að einn hafi fremur áhuga á því að verja fénu í þetta og annar í hitt. Hér er alltaf um matsatriði að ræða. En það er alveg öruggt mál, að ef gera á ráð fyrir því að listdansflokkurinn geti starfað áfram, og ég teldi mikið spor aftur á bak ef svo yrði ekki því að það er mjög vaxandi áhugi á þessari listgrein hjá æskunni í dag, þá er fjármálalega séð kannske ekki miklu óhagkvæmara að ráða fastan listdansstjóra heldur en að vera að fá menn til þess tímabundið árlega. Þeir verða eðlilega tiltölulega miklu dýrari miðað við þann skamma starfstíma sem þeir starfa heldur en þegar um er að ræða ráðningu á manni til lengri tíma. Á þessu vildi ég vekja athygli ef menn á annað borð hafa það í huga að þessi listgrein starfi áfram.

Eins og hæstv. ráðh. kom inn á í framsöguræðu sinni, þá er hér einnig vikið að starfsmönnum, starfsheitum, sem raunverulega eru fyrir hendi í dag og eru búnir að vera nokkurn tíma, þrátt fyrir það þótt þeir hafi ekki verið í gildandi lögum um Þjóðleikhús, og þar vitna ég einnig til ummæla minna áðan, að Þjóðleikhúsið hefur mjög verið að vaxa í starfsemi og er það vel. En auðvitað kostar þetta peninga og sá varnagli er settur að aukin umsvif verði því aðeins að um auknar fjárveitingar verði að ræða. En auðvitað skilja engir betur en hv. fjvn.— menn, að það getur oft verið erfið þeirra staða að velja og hafna og skipta því sem til skipta er.