31.03.1976
Efri deild: 83. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., um álbræðslu við Straumsvík. N. fékk á sinn fund ýmsa menn sem við þessa endurskoðun á svonefndum álsamningi voru riðnir. Á fundi n. mættu Jóhannes Nordal seðlabankastjóri sem formaður viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, Árni Reynisson framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs, Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur, Eyjólfur Sæmundsson verkfræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri og Ingimar Sigurðsson fulltrúi í heilbrrn.

N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. mælir með samþykkt þess, eins og fram kemur í nál. á þskj. 433. Eggert G. Þorsteinsson var fjarverandi víð afgreiðslu málsins.

Þessi endurskoðun, sem hér er um að ræða, er með tilvísun til samnings, sem gerður var 28. mars 1966 við Swiss Aluminium Ltd. um byggingu álbræðslu við Straumsvík. Með þeim samningi var fyrirtækinu heimilað að byggja, eiga og reka slíka ábræðslu. Ég mun að sjálfsögðu ekki fara að rekja ákvæði þess samnings, en vil þó geta um þau atriði samningsins sem eru nú til endurskoðunar.

Samið var um raforkuverð þrjá þúsundustu úr dollar eða 3 mill og skyldi það gilda til svokallaðs þriðja afhendingarárs raforku sem var 1. okt. 1975. Þá átti raforkuverðið að lækka í 2 1/2 þúsundustu úr dollar.

Framleiðslugjald var upp tekið í stað íslenskra skatta. Ákvæði er í samningnum að framleiðslugjald skuli vera að lágmarki 250 þús. dollarar á ári, en jafnframt skuli greiða á hvert tonn framleiðslunnar 12.50 dollara til 1. okt. 1975, þ.e.a.s. þriðja afhendingartímabils, eins og það er nánar skilgreint í samningnum, en hækkar þá upp í 20 dollara á hvert tonn. Þessi hækkun samsvarar nokkurn vegin þeirri lækkun, sem ráðgerð var á raforkunni, um hálfan þúsundasta af Bandaríkjadollar. Síðan er samkvæmt samningnum gert ráð fyrir því að framleiðslugjaldið hækki á fimmtánda afhendingarári raforku upp í 27.50 dollara. Jafnframt er svo ákveðið í samningnum að greiða skuli til viðbótar þessu gjaldi 7 dollara á hverja smálest fyrir hvert amerískt cent sem álverið hækkar umfram 27 cent pundið, eins og það var þegar samningurinn var gerður. Verð á áli á heimsmarkaði er nú skráð 39 cent fyrir pund af áli. Framleiðslugjaldið er samkvæmt þessu nú orðið um það bil 100 dollarar á tonnið. Það er mikil hækkun frá því gjaldi sem ákveðið var 12.50 í upphafi á hvert tonn og síðan 20 miðað við 27 cent á skráðu heimsmarkaðsverði.

Hins vegar er á þessum samningi um framleiðslugjald sú takmörkun að greiðsla fyrirtækisins, framleiðslugjaldið, skuli ekki fara yfir 50 af hundraði af skattskyldum eða nettótekjum ÍSALs. Ef greiðslan fer fram yfir það getur fyrirtækið beðið um endurskoðun og sent sína reikninga með slíkri beiðni til iðnrn. sem getur látið alþjóðlegt fyrirtæki eða annað, sem það óskar, fara yfir slíka reikninga og úrskurðað síðan í samræmi við það. Á þetta reyndi í sambandi við greiðslur fyrirtækisins 1974. Ítarleg endurskoðun fór fram á reikningum þess. Endurskoðun framkvæmdi breskt endurskoðunarfyrirtæki. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar varð sú að fyrirtækið taldi að ýmislegt mætti finna athugunarvert við reikningsuppgjör ÍSALs og þá fyrst og fremst að þar væri ekki þess gætt að viðskipti við móður- og dótturfyrirtæki færu þannig fram að gætu talist á milli óskyldra aðila, en sú grundvallarstefna er mörkuð í upphaflegum samningi við ÍSAL. Einkum taldi endurskoðendafyrirtækið vafasama þá verðlagningu sem fram kemur á súráli til ÍSALs. Þar er um að ræða kaup frá öðru dótturfyrirtæki Swiss Aluminium og verðlagningin að sjálfsögðu þar algjörlega á valdi Swiss Aluminium Ltd. Engu að síður kom í ljós að ekki var unnt að lækka þessa inneign fyrirtækisins að neinu ráði, þannig að 1. okt. 1975 mun ÍSAL hafa átt innistæðu hjá íslenska ríkinu sem nam 4.4 millj. dollara. Ákvæði eru um að þetta greiðist ekki út, heldur verði innistæða og lækkar þá skattinn, sem greiddur er á næstu árum á eftir, allt niður að grunnframleiðslugjaldinu sem nú er 20 dollarar á tonnið. Hins vegar er það staðreynd, að afkoma fyrirtækisins var svo léleg á árinu 1975 og aftur lítur út fyrir að hún verði heldur léleg á árinu 1976, að jafnvel þótt fyrirtækið greiði aðeins þessa 20 dollara á hverja smálest mun enn aukast sú inneign sem fyrirtækið á hjá ríkissjóði. Er áætlað að hún gæti með þessu móti numið allt að 8-9 millj. dollara í lok þessa árs.

Þetta eru þau atriði sem fyrst og fremst eru tekin til endurskoðunar, og var það raunar fyrst og fremst raforkuverðið sem leiddi til þeirrar endurskoðunar sem liggur hér fyrir. Ósk um breytingu á raforkuverði kom fram 1973 frá fyrrv. iðnrh., hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, og hefur nýlega birst í Þjóðviljanum skýrsla sú sem ráðh. skrifaði um ósk sína um endurskoðun og lagði fyrir ríkisstj. Iðnrh. fól viðræðunefnd um orkufrekan iðnað að annast þessa endurskoðun og hefur hún síðan staðið yfir.

Fljótlega kom hins vegar framleiðslugjaldið inn í þessa endurskoðun, og má segja að ósk beggja aðila. Það er ekkert sérstaklega æskilegt að mikil skuldi safnist við fyrirtækið. Var því af íslendinga hálfu talið réttara að endurskoða þessar forsendur sem fram eru settar í upphaflegum samningi, þar sem ljóst er að 7 dollara hækkun á framleiðsíugjaldi fyrir hverja smálest miðað við 1 cent hækkun á markaðsverði á hverju pundi fær ekki staðist. Þetta samsvarar því að þriðjungurinn af allri hækkun á áli renni í skatt sem framleiðslugjald. Hins vegar næst það aldrei, eins og fram hefur komið. Það þyrfti að vera ótrúlega mikil og góð afkoma fyrirtækisins til þess að það fengi nokkurn tíma staðist og ákaflega lítil hækkun á öðrum framleiðslukostnaði. Báðir aðilar voru því sammála um að þetta væri rétt að endurskoða í leiðinni.

Um orkuverðið vil ég segja að íslendingar töldu ljóst að á því þyrfti að fást breyting. Ég get ekki tekið undir það að þetta orkuverð, sem upphaflega var samið um, standi ekki undir kostnaði að sínu leyti við Búrfellsvirkjun, eins og að hefur verið látið liggja. Ég hygg að þetta sé rangt. Hins vegar er það staðreynd að þetta orkuverð er allt of lágt, því í slíku orkuverði verður að taka tillit til nýrra orkuvera sem kosta langtum meira en þau fyrri og leiða að sjálfsögðu til hækkunar á orkuverði í landinu og sjálfsagt og eðlilegt að fyrirtæki eins og ÍSAL taki þátt þeirri þróun. Auk þess má færa fyrir því gild rök að forsendur fyrir slíku orkuverði eru brostnar, því orkuverð allt í heiminum hefur hækkað svo mikið með hækkun olíuverðs að líkja má þessu nánast við force majeure. Ég get tekið það fram fyrir mitt leyti, að ég taldi lengi vel að það ætti að vera unnt að krefjast breytinga á þessum lið einum, eingöngu með tilliti til force majeure ákvæðis. Lögfræðingar töldu það hins vegar ekki kleift.

Loks er rétt að geta þess, að gengi Bandaríkjadollars hefur haft veruleg áhrif, eins og fram kemur m.a. í skýrslu Magnúsar Kjartanssonar þar sem samanburður er gerður á tekjum annars vegar í dollurum og hins vegar í svissneskum frönkum og þýskum mörkum. Kemur þar fram ákaflega mikill munur í dollurum. Árssalan er þar talin árið 1973 226.2 millj. kr., í svissneskum frönkum 324.8, en í þýskum mörkum 370.9. Hins vegar held ég að þetta sé atriði sem ákaflega erfitt var að gera sér grein fyrir þegar þessi samningur var gerður. Menn geta sagt nú að rétt hefði verið að gera samninginn í svissneskum frönkum. Hins vegar voru lánin ákaflega mikið í dollurum, og þá geta menn alveg eins spurt: Hvers vegna var hann ekki gerður í þýskum mörkum? Þau hafa hækkað mest. Það er stundum auðvelt að vera skynsamur eftir á. Engu að síður tel ég að þessi breyting á gengi Bandaríkjadollars, sé önnur rík ástæða til þess að biðja um endurskoðun.

Ég hefði talið eðlilegt að fengist hefði hækkun á raforkuverði, a.m.k. tvöföldun, ef ekki þreföldun. Um þetta urðu miklar og langar viðræður við fyrirtækið með þeirri niðurstöðu sem rakin er ítarlega í grg. með þessu frv. og ég ætla ekki að rekja hér nema í grófum dráttum. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi kynnt sér það í grg. Þetta er dregið saman á bls. 26. Þar kemur fram að raforkuverðið hækki smám saman á næstu mánuðum, þannig að til ársloka 1975, þ.e.a.s. síðustu ársloka, verði það 3 mill eða 3 þúsundustu úr dollar. Næstu 6 mánuði 3.5, þar næstu 12 mánuði 4 og næstu 6 mánuði þar á eftir 4–4.5 mill. en frá 1. jan. 1978 tengist það síðan álverði í hlutföllum sem fram koma í samningnum sem nú á að gera. Gert er ráð fyrir því, að það verði fyrst 1% af álverði, en viðbótin verði síðan ákveðinn hundraðshluti af hækkun, minnkandi eftir því sem álverðið hækkar meira. Jafnframt fylgir með tafla á bls. 31 sem gerir grein fyrir því hvert orkuverðið muni verða með álverði allt frá 39 centum pundið upp í 200 cent pundið. Þá mundi orkuverð hækka úr 3,9 mill upp í 11.31. Þarna er þá a.m.k. fenginn hreyfanleiki í þetta raforkuverð. Um það má deila, hvort það á að tengjast álverðinu frekar en öðru. En ég leyfi mér að fullyrða að ekki hafi verið unnt að ná þessum hreyfanleika á raforkuverði nema á þennan máta. Ég get upplýst að mjög mikil vinna var lögð í athugun á þessu. Leitað var til óháðra aðila í þessu sambandi. Þannig liggur mikil vinna að baki þeirri endanlegu niðurstöðu sem hér er fengin. Alls ekki verður um það deilt að hér er um verulega hækkun á orkuverði að ræða og sömuleiðis mjög aukið öryggi þegar litið er fram í tímann í sambandi við orkuverðið.

Af þessu hlýtur Landsvirkjun auknar tekjur, eins og fram kemur í samanburði sem einnig er í grg. með þessu frv. Þennan samanburð er dálítið erfitt að gera því að hann er háður breytilegu álverði. Hann er gerður fyrir tvenns konar þróun álverðs á bls. 29 og bls. 30. Í fyrra dæminu er gert ráð fyrir svipaðri verðþróun á áli og undanfarið, en í öðru dæminu er gert ráð fyrir örari verðhækkun á áli eða 5% á ári að meðaltali. Í báðum tilfellum kemur fram að auknar tekjur til Landsvirkjunar eru mjög miklar. Í fyrra dæminu, þar sem álverðið er talið hækka mjög hægt, eru viðbótartekjur á 5 ára tímabili 9 millj. dollarar, þ.e.a.s. hækkar úr 14.1 í 23.1 greiðslan fyrir raforku í millj. dollara á 10 ára tímabili úr 28.1 millj. dollara í 50 . millj. dollara og á 19 ára tímabili, þ.e. til enda samningsins, úr 53.4 í 103.4 millj. dollara. Þannig er um verulega tekjuaukningu Landsvirkjunar að ræða. Þetta kemur einnig mjög greinilega fram á línuriti á bls. 37, þar sem einnig eru teknir inn breytilegir vextir.

Þessar tekjur Landsvirkjunar leiða að sjálfsögðu til þess að Landsvirkjun þarf a.m.k. ekki að fá þá hækkun á raforkuverði sem annars hefði ef til vill orðið nauðsynleg, og þær hljóta þar með að leiða til lækkunar á raforkuverði fyrir þá sem njóta Landsvirkjunar. En ég vil taka það fram strax að þetta leiðir hugann að jafnaðarverði fyrir landið allt á raforku. Mér finnst ekki rétt að landsvirkjunarsvæðið eitt njóti þeirrar lækkunar sem verður á raforkuverði til almennings við þessa samninga. Í mínum huga knýr þetta enn á um markaða almenna stefnu í orkumálum með það meginmarkmið í huga að tryggja sömu gjaldskrá raforku a.m.k. í heildsölu um land allt og raunar helst í smásölu þótt það sé nokkru flóknara mál.

Ég gat þess að framleiðslugjaldið var einnig tekið til endurskoðunar að ósk beggja aðila. Niðurstöður urðu þær að sett er lágmarksframleiðslugjald, 20 dollarar á tonn, þ.e.a.s. miðað við núverandi framleiðslu, 75 þús. tonn á ári, er það 1 millj. og 500 þús. dalir. Það er mikil hækkun frá þeim 230 þús. dollurum sem lágmarksgjaldið er nú. Og þetta ber að greiða án tillits til afkomu verksmiðjunnar. Síðan er gert ráð fyrir því að þetta framleiðslugjald hækki í hlutfalli við hækkun á áli. Er frá þessu greint á bls. 27 í skýrslu til ríkisstj. sem fylgir með í grg. frv. Miðað við 40–50 centa verð á áli á hvert pund hækkar framleiðslugjaldið um 90% af hlutfallslegri hækkun, síðan fyrir 50—60 centa verð á áli um 80% af hlutfallslegri hækkun, fyrir 60 —70 centa verð á áli á pund um 70% af hlutfallslegri hækkun og yfir 70 cent hækkar framleiðslugjaldið um 60% af hlutfallslegri hækkun.

Inn í samninginn er jafnframt sett að hámarksgreiðsla fyrirtækisins skuli ekki verða yfir 55% af nettótekjum og skal þessi viðbót umfram fyrrnefnda 20 dollara gerð upp á árinu eftir að tekjurnar skapast. Fyrirtækið, ef það telur að það muni fara fram yfir 55% með þessu framleiðslugjaldi, eins og það kann að verða á hverjum tíma, getur óskað eftir slíkri athugun. Hins vegar getur einnig hið opinbera óskað eftir endurskoðun ef það telur að gjaldið sé fyrir neðan 35% af nettótekjum. Með þessu er sett svigrúm í greiðslu framleiðslugjaldsins, það skuli vera milli 35 og 55% nettótekna, en þó aldrei lægra en 20 dollarar á tonn. Samanburður er gerður á þessu í töflu 1 á bls. 29. Sá samanburður er að ýmsu leyti nokkrum vandkvæðum bundinn vegna þess að hann er mjög háður því hver þróun álverðsins verður, en í þeim tveimur dæmum, sem þarna eru tekin, verður sá samanburður hagstæður þegar tekið er tillit til þeirrar skattainneignar sem fyrirtækið hefur eignast og mun halda áfram að eignast ef þróun álverðs verður svipuð og verið hefur upp á síðkastið. Að vísu kemur í ljós að við þá þróun, sem hefur verið, minnka skattgreiðslurnar, en þegar tekið er tillit til skattinneignar í lok tímabilsins, t.d . 5 ára tímabils, verður nettóskattgreiðslan meiri, þannig að auknar heildartekjur af raforku og skattgreiðslu verða miðað við 5 ára tímabil og laka afkomu álversins eða litla hækkun á verði samtals 12.1 millj. dollara aukning, sem er um það bil tvöföldun á því sem nú er. Ég tel ekki nauðsynlegt að lesa upp þessar tölur, hv. þm. hafa þær fyrir framan síg. Í báðum dæmunum er um heildarhækkun að ræða, en hins vegar er sú hækkun á skattgreiðslu í sumum dæmum mjög lítil og ef ekki er tekið tillit til skattinneignarinnar er í sumum tilfellum um lækkun að ræða. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að deilur hafa verið um það hvernig fara eigi með þessa skattainneign að loknum gildistíma samningsins, þ.e.a.s. eftir 19 ár. Lögfræðingar hafa skoðað það og ekki orðið sammála um það. Við höfum haldið því fram að þessi skattinneign falli til ríkisins, en hins vegar hefur fyrirtækið haldið því fram að skattinneignina beri að greiða að loknu þessu 19 ára tímabili. Um þetta ríkir óvissa og engin endanleg niðurstaða hafði fengist.

Ef sjónarmið okkar reynist rétt, að skattinneignin falli niður að loknu tímabilinu, þá er um verulega lækkun skatts að ræða í dæmi B. Þar er um lækkun skatts að ræða og verulega lækkun ef skattinneignin hefði fallið niður.

Menn geta að sjálfsögðu metið það á ýmsa vegu, hvort rétt var að fara út í þessa endurskoðun. Af ríkisstj. hálfu var framleiðslugjaldið nú talið óraunhæf skattlagning og fengi ekki staðist af þeim ástæðum, sem ég lýsti áðan, og ekki æskilegt að standa í, sem augsýnilega hefði orðið, árlegum deilum og endurskoðun á rekstrarreikningum fyrirtækisins, með þessu móti náist öryggi í skatttekjum og sé það mikils virði. Ég er þessu sammála.

Ýmsa aðra þætti samningsins hefði mátt endurskoða og var á það minnst. Upptalningin var fljótlega æðilöng. Niðurstaðan varð hins vegar sú að láta þarna staðar numið nema að því leyti að samþ. stækkun til álversins um 10 þús. tonn eða 20 mw. orkunotkun. Þetta byggist á því loforði, sem fyrirtækinu var gefið þegar gengið var til þessara samninga, að ef samningar næðust yrði ekki haft gegn því að álverið stækkaði sem þessu nemur, enda er kerskáli 2 miðaður við þessa stækkun. Þar eru öll tæki til, eins og afriðlar, flutningstæki o.fl., sem nauðsynlegt er fyrir þessa stækkun og með henni reiknað í þeim kerskála. Hins vegar er þessi stækkun að sumu leyti hagkvæmari fyrir okkur og þá sérstaklega í sambandi við raforkuverðið. Um það náðist samkomulag að fyrir þessa stækkun yrðu 40% raforkuverðsins forgangsorka, en 60% afgangsorka og það er töluvert mikils virði fyrir landsvirkjunarkerfið þar sem afgangsorka er mikil. Ef gert er ráð fyrir svipuðu verði á afgangsorkunni og samið var um við Íslenska járnblendifélagið kemur í ljós að verð á þessari forgangsorku, sem þarna er um að ræða, er 10.3 mill hver kwst. Þetta er því tvímælalaust langtum hagkvæmari orkusölusamningur en hinn almenni orkusölusamningur til álversins.

Mikið hefur í þessu sambandi verið rætt um náttúruvernd og fjölluðu fundir n. að langmestu leyti um þann þátt málsins. Þá er rétt að geta þess í upphafi, að í upphaflegum samningi fjalla 12. gr. og 13. gr. samningsins um náttúruvernd. Ég hygg að á þetta verði minnst töluvert hér á eftir og því sé nauðsynlegt — með leyfi hæstv. forseta — að ég lesi þær greinar, enda eru þær nú ekki langar.

12. gr. fjallar um mengun og þar segir svo: „ÍSAL skal bera fulla ábyrgð á hverju því tjóni, sem hlýst af gastegundum og reyk frá bræðslunni utan við svæði með ummáli reiknuðu frá miðju bræðslukerasvæðisins í fyrsta áfanga bræðslunnar, eins og sýnt er á uppdrætti H með bræðsluáætluninni. ÍSAL tekst á hendur fulla ábyrgð á hverju því tjóni sem hlýst af gastegundum og reyk frá álbræðslunni innan slíks svæðis á eignum eða öðrum hagsmunum manna, sem nú búa þar eða eiga þar eignir, svo og gagnvart þeim, sem síðar kunna að öðlast framsal frá þeim, að svo miklu leyti sem um er að ræða núverandi afnot þess eða afnot í framtíðinni, önnur en búskap og garðyrkju. Aðrir þeir, sem héðan í frá taka sér bólfestu innan ofannefnds svæðis eða eignast þar eignir, laka með því á sig áhættu á hvers konar tjóni að því er varðar búskap og garðyrkju, er hlýst af gastegundum eða reyk frá bræðslunni og ÍSAL skal ekki bera ábyrgð á því.“

Síðan kemur líður 12.02 sem ég tel mikilvægastan í þessu sambandi:

„ÍSAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.

ÍSAL skal framkvæma reglulegar athuganir með því að taka með vissu millibili sýnishorn af gróðri, efnum og eignum á fyrir fram ákveðnum athugunarstöðum í nágrenni bræðslulóðarinnar, í samvinnu við hlutaðeigandi rannsóknastofnun ríkisstj., að því er varðar möguleg áhrif af gastegundum og reyk frá bræðslunni. Niðurstöður slíkra athugana skulu vera tiltækar fyrir ríkisstj.

Síðan segir í 13. gr.:

„Reglur um öryggi, heilbrigði og hreinlæti. Að tilskildum ákvæðum 12. gr. skal ÍSAL byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti, og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.“

Þetta ákvæði 13. gr. og það, sem ég las áðan í 12.02 um skyldu ÍSALs til að gera allar eðlilegar ráðstafanir, tel ég langsamlega mikilvægast í þessu sambandi. Það hefur dálítið verið gagnrýnt að ekki skyldu sett nein nánari ákvæði á sínum tíma. Ég hygg að ég geti upplýst að á þessum tíma voru nánast engin slík ákvæði þekkt og engin, að því er ég best veit, í iðnvæddum löndum eða í heiminum almennt. Þá var ekki til Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Þá hafði að sjálfsögðu ekki verið sett sú reglugerð, sem um þetta fjallar, né þau lög sem reglugerðin er byggð á. Þetta mál var þá skoðað vandlega í Noregi og niðurstaðan varð sú, að talið var tryggast að fá inn ákvæði sem skyldar ÍSAL til að fara að þeim venjum, sem skapast kunna í iðnvæddum löndum. Ég átti nokkurn þátt í þessu. Ég tel fyrir mitt leyti að þetta sé fullkomlega fullnægjandi, og ég tel að það hafi komið fram í störfum n. að svo er.

Hjá n. mættu bæði menn frá Náttúruverndarráði, frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og frá rn. Í ljós kemur að fyrirtækið skrifaði heilbrrn. skömmu eftir að reglugerð nr. 164/1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, var gefin út og fór fram á rekstrarleyfi. Rn. svaraði því með bréfi til fyrirtækisins þar sem rn. kveðst líta á þetta bréf fyrirtækisins sem umsókn um rekstrarleyfi skv. þessari reglugerð og hefur því aldrei verið mótmælt. Þannig hefur fyrirtækið fengið rekstrarleyfi og því verið sett skilyrði um hreinsunartæki. Það hefur dregist nokkuð að setja þessi hreinsunartæki upp, m.a. vegna þess að þarna hafa farið fram tilraunir með íslenska uppgötvun á þessu sviði sem því miður hefur ekki reynst fær um að hreinsa gastegundirnar eins og nauðsynlegt er. Því hefur orðið að hanna aðra gerð hreinsunartækja, orðið að loka ofnunum og útbúa tæki sem ná gasinu og hreinsa það með aðferð sem er tiltölulega nýleg, en hefur reynst ná allt upp í 97–98% af flúor sem sleppur annars frá slíkum fyrirtækjum. Núna koma út í andrúmsloftið um 14–16 kg af flúor á hvert tonn sem er framleitt, en með þessum tækjum er talið að þetta megi minnka niður í 1 kg á hvert tonn og jafnvel í 0.75, þó að þetta lægra mat muni að öllum líkindum vera mjög erfitt í eldri bræðslum sem ekki eru upphaflega byggðar með slíkt í huga. Ég vil geta þess að flúor hefur hækkað mjög í verði og er með þessari nýju aðferð endurheimt úr gasinu og greiðist þannig að verulegu leyti rekstrarkostnaður við slík hreinsunartæki. Áætlað er að stofnkostnaður muni verða um 2200 millj. kr. fyrir fyrirtækið í Straumsvík. Þetta er ekki lítil upphæð.

Ég tel það mikilvægt í þessu sambandi jafnframt, að hv. iðnn. Nd. fékk yfirlýsingu frá fyrirtækinu sem birt er með nál. Kemur þar greinilega fram, undirskrifað af framkvæmdastjóra fyrirtækisins og formanni stjórnar, að fyrirtækið mun setja þessi hreinsunartæki í verksmiðjuna og gerir ráð fyrir að því muni lokið á næstu tveimur árum. Þetta er mikið verk, en þeir segja að því verði að fullu lokið í árslok 1978. Þetta er mjög mikið verk og kostnaðarsamt og eðlilegt að sé tekið tillit til þess.

Eyjólfur Sæmundsson verkfræðingur, starfsmaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins gaf n. miklar og góðar upplýsingar, og mér þykir ljóst að Heilbrigðiseftirlitið vinnur ötullega að þessu máli. Það vinnur núna að því að setja ákveðna staðla sem ég sé enga ástæðu til að ætla að fyrirtækið fari ekki eftir. Heilbrigðiseftirlitið er í nánu sambandi við svipuð yfirvöld bæði í Bandaríkjunum og í Noregi og hefur fengið allar upplýsingar þaðan, bæði um þá staðla, sem settir verða eldri verksmiðjum og að öllum líkindum verða ekki eins strangir og fyrir nýjar, og sömuleiðis það sem er í undirbúningi fyrir nýjar verksmiðjur.

Á það hefur verið deilt að ekki skuli við þessa endurskoðun nú tekið í lögin ákvæði sem skyldi fyrirtækið til þess að fara eftir reglugerð þeirri sem ég nefndi. Mér þótti í þessu sambandi mikilvægt það sem kom fram hjá ráðuneytisstjóra heilbrrn., Páli Sigurðssyni á nefndarfundi þegar hann sagði að rn. fyrir sitt leyti væri mjög í vafa um að rétt væri að skylda fyrirtæki með lögum með slíku ákvæði til að setja þessi hreinsunartæki inn fyrir stækkunina, því að þá mætti e.t.v. túlka það svo að það væri ekki skyldugt til þess að setja slík hreinsitæki fyrir það álver sem nú er starfrækt. En rn. telur sig hafa fengið fullvissu fyrir því að fyrirtækið muni fara eftir reglugerð um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna og vafalaust að stækkanir hjá fyrirtækinu falli undir þá reglugerð og undir þau ákvæði sem þar eru mjög skýr. Ég tel því fyrir mitt leyti að þetta sé í ágætu lagi og engin ástæða til að óttast að svo verði ekki. Ég legg ríka áherslu á það að hreinsunartæki þurfa að koma, og ég fagna því að þau munu koma.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri. Það mætti segja margt um þetta fyrirtæki og rekstur þess. Hann hefur verið erfiður á undanförnum árum vegna verðfalls á áli. Ég held að hiklaust megi segja að við íslendingar höfum hins vegar haft af þessu fyrirtæki verulegar tekjur. Þær skipta milljörðum á ári hverju í vinnulaunum, greiðslu fyrir raforku og í framleiðslugjaldi, og ég fæ ekki séð að sagt verði að við höfum haft af þessu fyrirtæki sérstakt óhagræði. Ég efast a.m.k. um að hafnfirðingar vilji samþykkja það. Og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér sýnist svisslendingar hafa lagt kapp á að fara eftir samningnum. Það verður ekki borið á þá að þeir hafi brotið samninginn. Hitt er annað mál, að þeir eru harðir viðskiptamenn og hafa ávallt reynst harðir í samningum, en öruggir, og fyrir það er nokkuð gefandi.

Ég vil að lokum geta þess, að sú breyting, sem hér er um að ræða á framleiðslugjaldi, leiðir til þess að breyta verður samningnum á milli íslenska ríkisins og Hafnarfjarðar um hlutdeild Hafnarfjarðarkaupstaðar í álgjaldinu, sem svo er venjulega nefnt, eða framleiðslugjaldi. Þeir samningar eru nú í gangi. Þeim er ekki lokið. Ég get ákaflega lítið um þá sagt. Út af fyrir sig eru þeir samningar óháðir staðfestingu á því frv. sem hér liggur fyrir, en þeim samningum verður þó að vera lokið áður en samningur þessi er undirskrifaður, því að sjálfsögðu þarf samþykki hafnfirðinga t.d. fyrir þeirri stækkun sem hér er um að ræða. En ég hef verið fullvissaður um að þetta er í gangi og menn vænta þess að þeim samningum verði lokið mjög fljótlega.