31.03.1976
Neðri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

214. mál, skólakostnaður

Flm. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Á þskj. 445 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 49 frá 1967, um skólakostnað. Hér er um að ræða breytingu á 1. gr. gildandi laga um skólakostnað sem er á þá leið að á eftir 1. mgr. 7. gr. l. komi ný mgr. sem hljóði svo: „Þó skal ríkissjóður ávallt greiða 75% áætlaðs stofnkostnaðar sundlauga í útgerðarstöðum, sem hafa innan við 4000 íbúa.“

Hér er um að ræða þá breytingu frá því, sem er í gildandi lögum, að hækka þátttökukostnað ríkissjóðs úr 50% upp í 75%. Þá er gert ráð fyrir í þessu frv. að ákvæði til bráðabirgða verði, og í því gert ráð fyrir að einnig skuli ríkissjóður greiða 75% áætlaðs stofnkostnaðar þeirra sundlauga sem eru í byggingu og ekki hefur verið gengið formlega frá samningum um kostnaðarskiptingu.

Það er ljóst að sundkennsla er mikilvægur líður í menntun barna og unglinga, enda er svo að lágmarkskunnátta í sundíþróttinni er gerð að skilyrði fyrir fullnaðarprófi. Hér er um að ræða ákvæði sem búið er að vera í fræðslulöggjöf frá 1946, að ég hygg, og því miður er svo ástatt í sumum landsfjórðungum að um árabil og í sumum tilfellum áratugaskeið hefur ekki verið hægt að útskrifa unglinga með fullnaðarprófskírteini vegna þess að sundkennsla hefur ekki verið fyrir hendi.

Nú er það ljóst að þó að hér sé fyrst og fremst um að ræða framkvæmd á fræðslulöggjöf, þá er ekki síður það mikilvæga atriði að sjá svo til að á útgerðarstöðum, sjávarplássum, þar sem undirstaðan undir atvinnulífi er sjósókn og sjávarútvegur, þar hlýtur að verða að líta svo á að brýnni nauðsyn sé til að aðstaða til sundkennslu og sundiðkunar sé fyrir hendi heldur en þó annars staðar þar sem á annan veg er háttað.

Það hefur lengi verið ljóst að með núgildandi ákvæðum um hlutdeild ríkissjóðs í greiðslu stofnkostnaðar skólahúsnæðis, þ. á m. sundlauga, eiga fjölmörg minni sveitarfélög við sjávarsiðuna víðs vegar um landið þess engan kost að koma upp sundlaugum svo að viðunandi sé. Lítil og fjárvana sveitarfélög geta með engu móti lagt fram 50% af stofnkostnaði slíkra mannvirkja og háttar því svo til nú að á mörgum stöðum ern slík mannvirki alls ekki fyrir hendi og hafa ekki verið. Með flutningi þessa frv. er reynt að ráða þar á bót á þann hátt að fyrst og fremst sé ráðist í að byggja þessa aðstöðu upp á þeim stöðum þar sem sjávarútvegur er stundaður að verulegu marki. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá menntmrn., íþróttafulltrúa, er ástandið í þessum málum með þeim hætti að af 64 stöðum, sem eru með íbúa undir 4000, er aðeins um að ræða 32 staði sem hafa sundkennsluaðstöðu, þar af 2 staði, sem hafa algerlega ófullnægjandi aðstöðu, og 6, sem eru með slíka aðstöðu í endurbyggingu eða smíðum. Samkv. þessu er ljóst að um 24 útgerðarstöðvar í landinu hafa, eins og málum er háttað í dag, sundaðstöðu. 30 slíkir staðir, útgerðarstaðir, hafa enga slíka aðstöðu til að kenna sund og þar af leiðandi með engum hætti hægt að fullnægja því ákvæði gildandi fræðslulaga í sambandi við sundkennslu. Þetta er nokkuð mismunandi eftir kjördæmum og landshlutum.

Það er mjög áberandi að á Vestfjörðum er ástand langverst í þessum málum. Þar er um að ræða alls 13 staði sem kæmu til greina með að flokkast undir þessa skipan, ef sú breyting, sem hér er lagt til að gerð verði, næði fram að ganga, og af þeim 13 stöðum eru 8 sem alls enga aðstöðu hafa til sundkennslu og þar í eru útgerðarstaðir eða sjávarþorp sem sannarlega eru þess virði fyrir þjóðarbúið að sköpuð væri aðstaða til að sinna þessu verkefni.

Á tveimur stöðum á Vestfjörðum, aðeins á Ísafirði og Patreksfirði, er nú fyrir hendi aðstaða til sundkennslu og sundiðkunar. Á þremur stöðum er um að ræða annað hvort ófullnægjandi aðstöðu algerlega eða aðstöðu sem er í byggingu. Þar stendur því þetta mál þannig, að því er Vestfirði varðar, að af þessum 13 útgerðarstöðum er aðeins um 2 að ræða sem hafa aðstöðu til sundkennslu og sundiðkunar. Þetta verður að teljast vægast sagt óviðunandi ástand með hliðsjón af því að frá Vestfjörðum berast til þjóðarbúsins æðimikil verðmæti í gegnum þann atvinnurekstur, sem fyrst og fremst er stundaður þar, sjávarútveg.

Þetta lítur ekki jafnilla út í öðrum landshlutum. Á Norðurl. v. samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er alls um að ræða 7 staði sem mundu flokkast undir þetta og af þeim 7 stöðum eru 5 sem hafa þessa aðstöðu fyrir hendi, en aðeins 2 sem ekki hafa slíka aðstöðu.

Á Norðurl. e. er alls um að ræða 12 útgerðarstöðvar, sem kæmu til með að flokkast undir þetta, og af þeim 12 hafa 8 þessa aðstöðu, þar af að vísu ein bygging í smiðum, en 4 hafa enga slíka aðstöðu.

Á Austurlandi er um að ræða alls 13 staði í þessu tilviki og af þeim hafa 7 þessa aðstöðu fyrir eða eru með hana í byggingu, en 6 staðir hafa enga slíka aðstöðu.

Á Vesturlandi er alls um að ræða 7 slíkar útgerðarstöðvar og af þeim 7 eru 5 sem hafa þessa aðstöðu, en 2 hafa hana ekki.

Í Reykjaneskjördæmi er þarna um að ræða alls 6 staði og af þeim hafa 2 þessa aðstöðu, að vísu annar, sem er Grindavík, bráðabirgðaaðstöðu, en 4 útgerðarstaðir í Reykjaneskjördæmi hafa ekki slíka aðstöðu.

Á Suðurlandi eru 4 slíkir staðir og hefur enginn þeirra þessa aðstöðu og er þó um að ræða allmikla útgerð frá þessum stöðum.

Mér sýnist að samkv. þessum upplýsingum fari vart hjá því að ljóst sé, að ástæða er og það mikil ástæða til breytinga í þessum efnum, breytinga í þá átt að gera þessum sjávarplássum og útgerðarstöðvum fært að koma upp þessari lífsnauðsynlegu aðstöðu, í fyrsta lagi til þess að fullnægja gildandi fræðslulögum og í öðru lagi og ekki síður, að ég tel, í því skyni að á þeim stöðum, þar sem sjávarútvegur er svo yfirgnæfandi atvinnuvegur eins og viða er um þá staði sem hér er um að ræða, þá er það lífsnauðsyn að sjómönnum og sjómannsefnum sé gert kleift að læra sund og halda slíkri sundkunnáttu við. Þar getur í mörgum tilvikum verið um mannslíf að ræða, hvort slík kunnátta er fyrir hendi eða ekki.

Nú má vel vera að einhverjum hv. þm. þyki heldur kynlegt að miða hér við ákveðna íbúatölu, og vissulega má um það deila hvort eigi að gera slíkt eða ekki og þá hvar eigi að draga mörkin. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að á þessum tiltölulega fámennu stöðum sé miklum mun örðugra um vik hjá viðkomandi sveitarfélögum að ráðast í slíkar framkvæmdir og því beri fremur að byrja á að styðja í auknum mæli við bakið á þessum stöðum heldur en þó hinum sem betur eru settir að því er fjármagn snertir. Einnig má vel vera að einhverjum hv. þm. þyki hér vera flutt mál sem hafi í för með sér allmikla útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði, og vissulega er svo. En ég er þó þeirrar skoðunar að þetta mál sé svo alvarlegs eðlis að það eigi rétt á sér að veita slíkum byggingum forgang umfram ýmislegt annað, þó nauðsynlegt sé, sem hugsanlega yrði ráðist í á næstunni. Ég geri mér ljóst að hér getur verið um að ræða nokkuð mikið fjármagn af hálfu ríkissjóðs sem hann þyrfti að standa skil á, en ég held að þetta málefni sé vissulega þess virði að í það séu látnir fjármunir, því það er öruggt að þeir skila sér margfaldlega aftur í þjóðarbúið.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég er þeirrar skoðunar að það megi furðu gegna hversu mikið tómlæti hefur ríkt af hálfu löggjafans að því er þessi mál varðar. Ég efast um að hv. þm. almennt hafi gert sér grein fyrir því hvernig þessi mál standa víðs vegar á landinu og tel að það fálæti, tómlæti, sem mér virðist í þessum málum hafa ríkt, sé kannske fyrst og fremst eða a.m.k. fremur vegna þess að þm. almennt hafi ekki kynnt sér hvernig þessu er háttað heldur en það skorti vilja hjá þeim til þess að bæta úr og ráðstafa í þetta meira fjármagni en gert hefur verið. Ég tel að það sé vart sæmandi þjóð eins og okkur íslendingum, sem byggjum að langsamlega mestum hluta á sjósókn og sjávarútvegi og því, sem úr sjó kemur, þá sé það vart sæmandi að það ástand, sem nú hefur ríkt um árabil og áratugaskeið, haldi áfram. Það á að vera forgangsverkefni að mínu víti að ráða hér bót á og skipa svo málum að hægt sé af miklum hraða, vil ég segja, fara í framkvæmdir með þessum hætti. Ég vænti þess að í þeirri hv. n., sem kemur til með að fá þetta mál til umfjöllunar, verði um skilning að ræða á þessari brýnu nauðsyn til breytinga, og ég vænti þess jafnframt að sú hv. n. sjái sér fært að skila sem fyrst áliti sínu til þingsins, þannig að afgreiðsla þessa máls geti átt sér stað áður en þessu þingi lýkur. Ég hef ekki trú á því að það verði um andstöðu að ræða gagnvart þessari breytingu. Mér kæmi það á óvart, ef slík andstaða ætti sér stað hér á Alþ. Ég vænti þess sem sagt að þessu máli verði tekið af skilningi og velvild og það nái fram að ganga á þessu þingi því hér er um lífsspursmál að ræða.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.