31.03.1976
Neðri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

214. mál, skólakostnaður

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. flm. þessa frv. til l. að hér er um nauðsynlegt mál að ræða. Þessi hugmynd um að hækka hlutdeild ríkisins í kostnaði við byggingu sundlauga er raunar ekki ný. Það hefur oft verið á þetta minnst, fólk hefur gert sér grein fyrir því að þarna er mjög brýn nauðsyn annars vegar hvað sundkennslu og sundkunnáttu varðar, ekki síst í sjávarplássum. Það má kannske segja að það sé ekki tímabært nú að koma fram með frv. eða till. hér á hv. Alþ. sem leggja auknar byrðar á ríkissjóð, og undir það tek ég. Hins vil ég þó vænta, að hv. Alþ. líti á þetta mál með þeim skilningi sem það verðskuldar.

Það er enginn vafi á því að sundíþróttin almennt er ein sú heilsusamlegasta og mest heilsubætandi íþrótt sem við eigum völ á að iðka hér. En í útvegsstöðum um land allt, þar sem meiri hluti vinnandi manna er sjómenn sem þurfa að sækja á sjó út hvernig sem viðrar, er að sjálfsögðu fullkomin nauðsyn að þeir menn séu syndir. Það kann sumum að koma á óvart að í sumum okkar verstöðvum er manni tjáð að helmingur sjómanna á fiskiskipaflotanum sé ósyndur. Slíkt er náttúrlega óhæfilegt öryggisleysi og verður að bæta hér úr, og þá tel ég að sjálfsagðasta aðferðin sé að skapa aðstöðu til þess að kenna börnum og unglingum að synda, að ekki sé minnst á hina almennu hlið skólamálsins, að það er gert ráð fyrir sundkunnáttu sem skyldugrein til fullnaðarprófs á barnaskólastigi.

Hitt vil ég jafnframt benda á, um leið og ég lýsi fullum stuðningi mínum við þessa hugmynd, að það væri full ástæða til þess að huga að því hvernig staðið er að uppbyggingu sundlauga og sundkennslumannvirkja og að það sé af ríkisins hálfu ekki gert ókleift fyrir minni og fámennari sveitarfélög að koma upp þessari aðstöðu. Þá á ég við það að manni hefur sýnst boginn fullhátt spenntur hjá þeim sem á vegum ríkisins hanna þessi mannvirki. Það er ekki langt um liðið síðan eitt slíkt dæmi kom upp í mínu kjördæmi, í litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum, á Flateyri, þar sem sveitarstjórnin hefur kvartað sáran undan því að íbúunum þar sé af hálfu íþróttafulltrúa ríkisins og þeirra, sem ráða gerð byggingarinnar, með yfirbyggingu mannvirkisins lagður allt of þungur fjárhagslegur baggi á herðar. Að vísu mundi hagur sveitarfélagsins vænkast að mun ef kostnaðarhlutdeild þess yrði ekki nema 25% í staðinn fyrir 50%. Engu að síður tel ég það skyldu þeirra, sem þessum málum ráða, að stefna fyrst og fremst að því grundvallarmarkmiði að til sé aðstaða til sundkennslu. Tiltölulega lítil og ódýr sundlaug, alla vega sem fyrsti áfangi, mundi gegna fullvel því nauðsynlega hlutverki. Þess vegna get ég, um leið og ég mæli með skilningi gagnvart þessu frv., tekið undir hugmyndir sem hafa komið fram á Alþ. um að það sé settur einhver hemill á það hvernig opinberar byggingar eru hannaðar af hálfu þeirra er málum ráða á þessu sviði. Ég tel mjög mikið atriði að þessa sé gætt jafnframt. Það er rétt, sem kom hér fram hjá hv. flm., að það eru óhugnanlega mörg útvegspláss sem enga aðstöðu hafa til sundkennslu. Það er hrein óhæfa. Það hefur hingað til verið sveitarstjórnum nokkur þröskuldur í vegi líka, að jafnvel þótt byggingin væri upp komin, þá hefur reksturinn með upphitun, hugsanlega og venjulegast með olíu eða jafnvel kolum, verið allerfiður einnig. Það er sagt að við stefnum hraðbyri út í upphitun með heitu vatni og það finnst heitt vatn í jörðu nú þar sem engan óraði fyrir að það væri að finna, þannig að þessi þáttur málsins vænti ég að í framtíðinni verði auðveldari viðureignar, þ.e.a.s. hvað sjálfan reksturinn áhrærir.

Ég endurtek: Ég lýsi fullum skilningi mínum á þessu máli og vænti þess að hæstv. ríkisstj., sem hér kemur til með að hafa ákvörðunarvaldið, sýni því þann velvilja sem það á skilið. Sjálf á ég sæti í þeirri n., sem frv. verður vísað til. og þar mun þessi afstaða mín koma fram.