31.03.1976
Neðri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

214. mál, skólakostnaður

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Mig langar til að segja örfá orð um þetta mál, og ég sé ástæðu til þess að þakka hv. flm. fyrir að hafa flutt þetta mál inn í þd. og vekja athygli á því.

Það er nú svo, enda þótt sundkennsla sé ein af hinum lögboðnu kennslugreinum í landinu og enda þótt reynt sé að verða við þeim ákvæðum á þann hátt að börnum sé kennt að synda jafnvel á stöðum þar sem engin aðstaða er fyrir hendi, auk þess að tiltölulega stór hluti unglinga á skyldunámsaldri fer í aðra skóla þar sem sundaðstaða er, þá fer því víðs fjarri að þessi sundkunnátta nýtist ef til hennar þarf að taka síðar í lífinu hjá þeirri stétt manna þar sem sundkunnátta er mjög mikið öryggisatriði. Það er sem sagt ekki nóg að hafa lært kannske á 12, 13, 14 ára aldri að halda sér á floti. Ef ekki er fyrir hendi aðstaða til þess að viðhalda þessari líkamsþjálfun, þá kemur hún að sáralitlu gagni þegar til hennar þarf að grípa.

Hér er um að ræða öryggismál og þetta er atriði sem liggur býsna þungt á stétt sjómanna og forráðamönnum sjávarþorpa, a.m.k. þeim sem um þetta hugsa. Það er að sjálfsögðu ekki frjótt að vera að vitna í ákveðin dæmi, en ég get þó ekki látið hjá líða að geta þess, að mér er það mjög í minni þegar rétt við fjarðarmynnið heima fórst bátur fyrir nokkrum árum. Þá komust af tveir menn, þetta var að hausti til, en veturinn áður höfðu þeir báðir haft aðstöðu til þess að iðka sund og gerðu það, og það var eingöngu því að þakka að þeir komust af, en hinir hlutu allir að lúta í lægra haldi fyrir náttúruöflunum. Þótt ég nefni þetta dæmi hér, þá eru eflaust mörg önnur slík sem hægt væri til að tína. Ég vil þess vegna taka undir það, að ég tel að málið sé þess eðlis að það þurfi að taka á því og gera meira. Ég held að við þyrftum að gera okkur grein fyrir af hvaða stærðargráðu kostnaðurinn kemur til með að verða.

Frsm. var hér með ágætar upplýsingar um fjölda staða þar sem aukin kostnaðarhlutdeild ríkisins mundi koma til við að byggja upp aðstöðu. Ég er ekki svo bjartsýnn að láta mér detta í hug að á þessu ári verði hægt að setja lög sem komi til framkvæmda núna 1976. Ég held að þess vegna væri rétt að leita strax að leiðum, og við gerum okkur það öll ljóst að breyting verður ekki gerð nema ríkisstj. og þeir þingflokkar, sem að henni standa, hvort sem það er nú eða síðar, fyrst og fremst taki þessa stefnumarkandi ákvörðun um að fé skuli til þessara hluta veitt og þá í framhaldi af því að setja sér eitthvert takmark, eitthvert ákveðið ár þegar þessu marki skuli náð. Þá kemur að sjálfsögðu til að móta stefnu um leið í þá veru sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, hvernig þessi mannvirki verða hönnuð, hvaða staðlar það verða sem látnir skulu gilda fyrir þessi mannvirki. Og ég vil aðeins vekja athygli á því af því að umr. hafa farið fram — ekki endilega um sundlaugarbyggingar, heldur íþróttamannvirki almennt, að hvaða staðlar sem koma til með að verða ofan á varðandi íþróttahús, þá er ekki hér verið að tala um þau, heldur fyrst og fremst um sundlaugar og aðstöðu fyrir unglinga til þess að læra og fyrir fólk til að viðhalda líkamsrækt sinni. Ég vil þannig leyfa mér að taka undir málið. Ég er eins og hv. síðasti ræðumaður í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál, en ég vil taka undir það að nauðsynlegt er að skoða þetta mál vel.