01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

156. mál, bann við geymslu kjarnavopna á íslensku yfirráðasvæði

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 3. landsk. þm., Magnúsi T. Ólafssyni, leyft mér að flytja till. þá til þál. sem er birt á þskj. 337 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf er banni geymslu hvers konar kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði og lendingu flugvéla sem flytja kjarnorkuvopn. Jafnframt verði kveðið á um eftirlít íslendinga til að tryggja að þessi lög verði virt.“

Mér er engin launung á því að hið beina tilefni þessa tillöguflutnings eru fullyrðingar sem birst hafa í erlendum sérfræðiritum í vetur þess efnis að bandaríkjaher hafi kjarnorkuvopn í herstöð sinni hér á Íslandi. En það er skoðun mín að jafnvel þótt þessi skrif hefðu ekki birst og ekkert beint tilefni gæfist til grunsemda um kjarnorkuvopn hér á landi væri eftir sem áður rétt og nauðsynlegt að setja löggjöf til að tryggja íslendinga gegn þeirri vá sem kjarnorkuvopn eru. Ég held jafnvel að þótt engin erlend herstöð væri í landinu væri sjálfsagt að banna t.d. lendingar flugvéla sem flytja kjarnorkuvopn, hverrar þjóðar sem þær væru.

En vitanlega gera allir íslendingar sér ljóst að hættan af kjarnorkuvopnum fylgir bandarísku herstöðinni fyrst og fremst. Um herstöðvamálið sjálft ætla ég ekki að ræða hér, en ég minni á að enda þótt menn hafi mismunandi skoðanir á réttmæti bandarískra herstöðva hér á landi hafa allir stjórnmálaflokkar verið sammála um að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn. Þegar tilefni hefur gefist til hafa viðkomandi stjórnvöld lýst yfir því á Alþ. að þau teldu síg hafa vitneskju um að hér væru ekki slík vopn. Slíka yfirlýsingu gaf hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson í jan. s.l. er umr. urðu um hugsanleg kjarnorkuvopn Bandaríkjahers hér á landi. Þegar umr. hafa orðið áður um það hvort kjarnorkuvopn mundu vera hér á Íslandi hafa stjórnvöld máli sínu til stuðnings og áréttingar vitnað í sérstakt samkomulag við Bandaríkjastjórn um að svo skyldi ekki vera. Yfirlýsingar um slíkt samkomulag hafa verið gefnar hér á Alþ., t.d. árið 1968 er umr. urðu utan dagskrár í tilefni af því að bandarísk flugvél hlaðin kjarnorkuvopnum fórst á Grænlandi. Í þeim umr. sagði þáv. utanrrh., Emil Jónsson, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef raunar ekki annað um þetta að segja heldur en það, að það er fullt samkomulag á milli ríkisstjórnar Íslands og varnarliðsins, þeirra sem því stjórna, um það að hér á Íslandi séu ekki kjarnorkusprengjur af neinu tagi.“

Og síðar í þessari sömu ræðu sagði Emil Jónsson að hann hefði heyrt viðtal í útvarpi við aðmírál Stone, yfirmann varnarliðsins þá, þar sem hann hefði ítrekað og undirstrikað einmitt þetta, að um þetta væri fullt samkomulag einnig af þeirra hálfu.

Íslendingar hafa treyst því og trúað að þetta samkomulag væri í fullu gildi, enda ekki annað komið fram. Sams konar samkomulag gerðu ríkisstjórnir norðmanna og dana við Bandaríkjastjórn. En nú spyrja menn kannske: Er þá nokkuð að óttast? Er ekki samkomulag við Bandaríkjastjórn fullgild trygging fyrir okkur? Ég held að atburðir á þessum vetri sýni að svo er ekki. Það er rétt að rifja hér upp hin erlendu blaðaskrif, hvers eðlis þau eru og hvaða rit er hér um að ræða. Þessi rit voru fréttabréf kjarnorkuvísindamanna, bandarískt tímarit. Þar birtist grein eftir Barry Sehneider er starfar við upplýsingamiðstöð varnarmála í Washington. Hann sagði siðar í viðtali við Dagblaðið, að Loekhead Orion vélar bandaríska flotans á Keflavíkurflugvelli væru að öllum líkindum búnar djúpsprengjum með kjarnaoddi. Vélar þessar fljúga reglulegt könnunarflug frá Íslandi. Annað rit, sem birti sams konar fullyrðingar, er Bulletin of Peace Proposals sem gefið er út í samvinnu við háskólaforlagið í Osló. Ekki sakar að geta þess að Hans G. Andersen er einn ráðunautur þessa tímarits. Og loks er þriðja tímaritið, sem heitir Ambio og er blað sænsku vísindaakademíunnar. Í þessum ritum báðum var fullyrt að Bandaríkjaher hefði hér kjarnorkuvopn.

Engin sérstök rannsókn hefur verið gerð af hálfu íslenskra stjórnvalda, svo að vitað sé, til að sannreyna þessar fullyrðingar. En þegar íslenskir blaðamenn inntu yfirmann herliðsins á Keflavíkurflugvelli og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi eftir sannleiksgildi þess, sem stóð í hinum erlendu ritum um kjarnorkuvopn á Íslandi, fengust engin svör önnur en þau að Bandaríkjamenn segðu aldrei neitt um kjarnorkuvopn sín eða hvar þeim væri búinn staður, það væri stefna þeirra að játa hvorki né neita ef þeir væru spurðir slíks.

Ég þarf varla að fjölyrða um það, að þetta svar er í hrópandi mótsögn við það sem áður hefur verið sagt og skrifað um þessi mál á Íslandi. Þetta svar er að mínum dómi bæði tortryggilegt og siðlaust. Með þessu svari eru bandarísk yfirvöld að neita að staðfesta að þau haldi samkomulag sem þau hafa gert við íslensk stjórnvöld. Úr því að yfirmanni varnarliðsins þótti fært árið 1968 að vitna til samkomulags víð íslendinga um að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn, af hverju má þá ekki gefa slíka yfirlýsingu nú? Slíkt samkomulag hefur hingað til ekki farið leynt, samkomulag bandaríkjamanna við dani og norðmenn svipaðs eðlis hefur heldur aldrei verið neitt leyndarmál.

Það er kapítuli út af fyrir sig að íslenska ríkisstj. skuli láta þessa framkomu bandaríkjamanna óátalda, því með þessu hefur íslensku ríkisstj. verið sýnd slík lítilsvirðing að með fádæmum er í samskiptum ríkja. Það er vissulega lágmarkskrafa, ef samkomulag er gert við aðila, að hann viðurkenni að það sé til.

Eftir slysið á Grænlandi þegar ljóst varð að bandaríkjamenn höfðu brotið samkomulagið við dani um að ekki skyldi flogið með kjarnorkuvopn yfir danskt yfirráðasvæði kröfðust danir nýrrar yfirlýsingar af hálfu bandaríkjamanna, þess efnis, að þeir mundu virða stefnu dana, og bandaríkjamenn urðu við þeirri kröfu. Því má líka bæta við, að um þær mundir er bandaríkjamenn neituðu að svara einu eða neinu til um kjarnorkuvopn hér á landi var skýrt í fréttum frá samkomulagi milli bandaríkjamanna og spánverja um framtíð bandarísku herstöðvanna á Spáni, og þar var ekki undan dregið að kjarnorkuknúnir kafbátar skyldu fjarlægðir af tiltekinni flotastöð á Spáni og skyldi því lokið á vissu árabili. Þennan samning þurftu bæði þjóðþing bandaríkjamanna og spánverja að samþykkja og því sannarlega ekkert leyndarmál. Vissulega væri eðlilegt og sjálfsagt að hæstv, utanrrh. krefðist þess að bandaríkjamenn gerðu hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum undanbragðalaust.

En hitt dylst engum, að samkomulag við slíka menn er engin trygging fyrir okkur íslendinga. Við getum ekki treyst á samkomulag sem annar samkomulagsaðilinn vill ekki kannast við að sé til. Þetta samkomulag er ekki til skriflegt. Flestir munu hafa gengið að því vísu að það væri munnlegt. Ég hef reynt að grafast fyrir um hvenær þetta margrædda samkomulag íslendinga við Bandaríkjastjórn hafi verið gert og hvenær þess hafi fyrst verið getið hér á landi. En þetta hefur mér ekki tekist. Hins vegar hefur hæstv. utanrrh. upplýst mig um að menn muni hafa túlkað 3. gr. hins svonefnda varnarsamnings svo að hér mættu ekki vera kjarnorkuvopn. Sé þetta rétt, þá ætti vissulega að vera fyrir hendi sams konar túlkun af hálfu beggja aðila, og það ætti þá ekki heldur að vera neitt leyndarmál.

Viðbrögð bandarískra yfirvalda nú sýna okkur að í þessum efnum hljótum við íslendingar að treysta fyrst og fremst á sjálfa okkur og gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að bægja kjarnorkuháska frá landi og þjóð. Frumskilyrði er það, sem hér er lagt til með þessari till., að leitt sé í íslensk lög að óheimilt sé að geyma kjarnorkuvopn, af hvaða tagi sem er, á íslensku yfirráðasvæði og bannaðar séu lendingar flugvéla sem flytja kjarnorkuvopn. Í framhaldi af slíkri löggjöf er eðlilegt að komið verði á eftirliti íslendinga sjálfra til þess að tryggja að slík lög verði haldin.

Það er staðreynd að íslenskir ráðh., sem flytja okkur yfirlýsingar um að hér séu ekki kjarnorkuvopn, byggja þær yfirlýsingar sínar á trú, en ekki vissu. Ég er ekki að efast um að þeir séu sjálfir í góðri trú er þeir flytja slíkar yfirlýsingar. En hitt má öllum vera ljóst og þeim líka, að þeir hafa engin tök á því að sannreyna sjálfir hvort yfirlýsingar þeirra séu réttar. Þetta er að sjálfsögðu fráleit aðstaða fyrir íslenska ríkisstjórn í máli sem varðar líf og öryggi þjóðarinnar. Hér má líka minna á, að danir voru í góðri trú er það kom í ljós að bandaríkjamenn brutu samkomulagið við þá, eins og ljóst varð árið 1968.

Til þess að annast eftirlit það, sem gert er ráð fyrir í þessari till., þarf ekki neitt íslenskt herlið, heldur hóp sérmenntaðra manna sem heiðu í þessu skyni allan nauðsynlegan aðgang að herstöðinni. Mér er tjáð af sérfræðingi, sem ég hef haft samband við, að slíkir eftirlitsmenn yrðu að hafa séð og lært að þekkja kjarnorkuvopn. Slíkan lærdóm yrði að sækja til annarra landa, þar sem þá þekkingu er að finna. Enn fremur væri höfuðnauðsyn að þeir hefðu algjöran aðgang að herstöðinni í þessu skyni, því að mjög auðvelt væri, að skerma af plútóníum sem væri líklega notað í hinum smærri sprengjum.

Ef einhverjum þykir í mikið ráðist með þessari till. og slíku eftirliti bið ég þann hinn sama að hugleiða þá ógn sem því fylgir að hafa ef til vill kjarnorkusprengjur við bæjardyrnar hjá sér. Dreifing kjarnorkuvopna út um svo til allar jarðir skapar slíka slysahættu að því verður vart jafnað við neitt sem mannkynið hefur áður þekkt. Varnarmálarn. Bandaríkjanna hefur viðurkennt a.m.k. 11 meiri háttar slys við meðferð kjarnorkuvopna. Kjarnorkunefndin ameríska hefur tilkynnt a.m.k. 4 slík slys í viðbót, og sannanir munu vera fyrir því að mörg önnur slík slys hafi orðið þótt þau hafi aldrei verið tilkynnt.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þær afleiðingar sem það hefði fyrir íbúa á suðvesturhorni landsins og lífríkið allt ef slíkt slys yrði hér. Það á öllum hv. alþm. að vera kunnugt. En það er á valdi Alþ. að búa svo um að slík slys hendi ekki, einfaldlega með því að samþykkja bann við slíkum ógnarvopnum í landi okkar og með því að eftirlitið sé í höndum okkar sjálfra.

Við stöndum berskjölduð frammi fyrir hernaðarumsvifum bandaríkjamanna. Það hefur t.d. verið upplýst að á síðustu árum hafi bandaríski herinn byggt á vellinum tvær rammbyggðar skotfærageymslur og a.m.k. önnur þeirra fullnægi öryggisreglum sem settar eru af hálfu hersins um geymslu kjarnorkuvopna. Íslenska ríkisstj. hefur ekki hugmynd um hvað þarna er geymt.

Sjálfstæð þjóð tryggir öryggishagsmuni sína sjálf með þeim ráðum sem henni eru tiltæk. Hún hefur yfirsýn yfir það sem gerist í landi sínu. Hún tekur sjálf ákvarðanir og krefst þess að aðrir virði þær kröfur. Það væri spor í áttina ef Alþ. samþykkti þá till. sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Ég legg til að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.