01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

221. mál, graskögglaverksmiðjur

Flm. (Vigfús B. Jónsson):

Herra forseti, Sú þáltill., sem ég er hér flm. að ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssyni, er á þskj. 459 og svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að graskögglaverksmiðjur þær, sem landbrh. samþykkti með bréfi 2. júní 1972 að byggðar yrðu á vegum ríkisins, verði fullgerðar og teknar í notkun árið 1979.“

Það hefur löngum fylgt okkur íslendingum að notfæra okkur lands og sjávar gæði án sérstaks tillits til afleiðinga. Það verður ekki af okkur skafið að við erum þjóð sem búin er að lifa á rányrkju um aldir. En nú höfum við því betur áttað okkur á því að rányrkjan skuli heyra fortíðinni til. Við getum ekki lengur gengið á höfuðstólinn og framtíð okkar hlýtur að byggjast á ræktun, bæði til sjós og lands.

Þegar auðlindir þær, sem við höfum mest sótt í á undanförnum árum, fiskstofnarnir umhverfis landið, eru jafnþrotnar og raun ber vitni um, þá hlýtur að teljast eðlilegt að við einbeitum okkur enn þá meir að nýtingu annarra auðlinda sem landið hefur að bjóða. Ein af auðlindum þessa lands er moldin. Upp úr hinni íslensku mold sprettur, að því er ég best veit, það kostaríkasta gras sem um getur í gjörvallri Evrópu og jafnvel þótt viðar væri leitað.

Ein árangursríkasta aðferð til að nýta gróðurmoldina og þá uppskeru, sem hún gefur, er að bestu manna yfirsýn sú að byggja og reka graskögglaverksmiðjur. Þegar ég ræði hér um að reisa graskögglaverksmiðjur, þá á ég ekki bara við það að byggja verksmiðjuhúsin sem slík með vélbúnaði, heldur líka að rækta það grastekjuland sem verksmiðjan þarf að hafa til úrvinnslu, til hráefnisöflunar. Ég bið menn að taka eftir þessu. Þær versmiðjur, sem hér um ræðir og þáltill. nær til, eru verksmiðjan í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu, Hólminum í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Framkvæmdir við tvær hinna síðarnefndu eru nánast á byrjunarstigi. Verksmiðjan í Flatey tók til starfa s.l. sumar, þó aðeins með 1/3 hluta af fullri afkastagetu. Þá verksmiðju skortir nú í dag um 80 millj. kr. til þess að uppbyggingu og búnaði hennar sé að fullu lokið og hámarksafköstum verði náð.

Till. þessi til þál. er fyrst og fremst flutt og ég vil undirstrika það — hún er fyrst og fremst flutt til þess að beina því til ríkisstj. að hún athugi allar leiðir til þess að því marki verði náð að ljúka uppbyggingu verksmiðjunnar í Hólminum í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu þannig að þær geti tekið til starfa sumarið 1979. Það er ljóst að til þessa þarf allmikið fjármagn eða um 200 millj. kr. til hvorrar verksmiðju um sig. Það er hugsanlegt að Stofnlánadeild landbúnaðarins láni til þessara framkvæmda allt að 100 millj. kr. Fjáröflun á vegum ríkisins og annarra aðila þyrfti því að vera því sem næst 300 millj. kr. Í þessu dæmi verður auðvitað til viðbótar að taka tillit til þeirrar fjárþarfar sem fyrr er að vikið í sambandi við Flateyjarverksmiðjuna.

Þær graskögglaverksmiðjur, sem hingað til hafa verið byggðar, hafa verið fjármagnaðar af ríkisfé, ef frá er skilin verksmiðjan í Brautarholti á Kjalarnesi sem er í eigu einstaklinga. Með sama áframhaldi þyrfti verulega auknar fjárveitingar á fjárlögum næstu ára til graskögglaverksmiðja svo að því marki yrði náð sem till. greinir. Við flm. teljum þó að ástæða geti verið til að taka til athugunar fleiri fjáröflunarmöguleika til þess að auðvelda framgang málsins. Gæti þar komið til greina hvort tveggja sérstök fjáröflun og aðild heimaaðila. Það mun ekki vera óalgengt að ræktunarsambönd heima í héruðum hafi lánað vinnu til þessarar uppbyggingar, og ég hugsa að kaupfélög hafi einnig viða sýnt þessum málum mikla fyrirgreiðslu.

Uppbygging graskögglaverksmiðja er eitt af mestu hagsmunamálum landbúnaðarins. Staðsetning þeirra í hinum ýmsu landshlutum er þýðingarmikil til þess að komist verði hjá óhóflegum flutningskostnaði, en of langar flutningsleiðir geta rýrt það mjög að hagkvæmt sé að nota grasköggla. Graskögglaverksmiðjurnar í Hólminum og Saltvík hafa alveg sérstaka þýðingu fyrir norðlenska bændur hvað þetta snertir og eru í raun forsenda fyrir því að þeir geti notað grasköggla sem kjarnfóður svo að nokkru nemi.

En graskögglaverksmiðjur hafa ekki síður þýðingu fyrir þjóðarbúið í heild vegna gjaldeyrissparnaðar. Árið 1975 voru flutt inn 55 367 tonn af fóðurvörum fyrir 1 milljarð 677.2 millj. kr. Innflutningur fóðurvara hefur á undanförnum árum oft verið í kringum 60 þús. tonn og er líklegt að verðgildi þess verði á þessu ári ekki minna en 2 milljarðar kr. Talið er að nota megi grasköggla með hagkvæmni í stað allt að 3/4 þess kjarnfóðurs sem nú er flutt inn í landið. Það blasir því við að unnt er að spara verulegan gjaldeyri með því að auka þessa framleiðslu innanlands. Sú staðreynd á ekki síst sinn þátt í mikilvægi þessa máls. Sumir telja að ennþá lengra megi komast hvað þetta snertir með því að efnabæta graskögglana með íblöndun fituefna sem til falla bæði við sláturhús og viðar hér í landi og þannig mundum við nýta efni sem annars færu til einskis.

Eins og áður segir, þá er hér auðvitað um allverulegt fjárhagsspursmál að ræða. En við íslendingar erum nú einu sinni orðnir vanir að hugsa í millj., og með tilliti til allra þeirra fiskiskipa, sem flutt hafa verið inn í landið á undanförnum árum, finnst mér þetta ekkert voðaleg upphæð. Það er ekki vert að ganga fram hjá því, að sú orka, sem þessar verksmiðjur þurfa, er auðvitað mjög umtalsvert atriði. Þær eru nokkuð orkufrekar, það er best að segja það eins og er. Þær, sem hingað til hafa verið byggðar, munu að mestu eða öllu leyti hafa notast við innflutta orku í formi olíu. Hins vegar standa nú vonir til þess að verksmiðjurnar í Hólminum og Saltvík geti komist af með innlenda orku einvörðungu. Það er á báðum stöðunum aðstaða til nýtingar jarðvarma, sem þó er ekki fullnægjandi einvörðungu vegna þess hve hitatopparnir þurfa að vera háir, þannig að raforka þyrfti einnig að koma til. Má ætla að hin innlenda orka verði mun ódýrari en olíuorka, þar sem orkuþörf verksmiðjanna er mest yfir sumartímann og því ekki óhugsandi að þær geti fengið keypta ódýra umframorku frá hita- og rafveitum, því að á sumrin er orkuþörf slíkra veitna auðvitað minnst. Ég vil geta þess, að mér er kunnugt um að milli Landnámsins annars vegar og Hitaveitu Húsavíkur hins vegar hafa farið fram umræður einmitt um slík orkukaup, og ég held að útkoman úr þeim umr. sé mjög jákvæð, þannig að þarna er náttúrlega um hreina byltingu að ræða ef hægt er að nýta einvörðungu innlenda orku til verksmiðjanna.

Ég hef hér ekki handbærar hagfræðilegar tölur um rekstrarhagkvæmni þessara verksmiðja, en ég tel að hún sé algerlega óumdeild, þannig að ég tel óþarfa að vera að lesa slíkt yfir mönnum. En til glöggvunar vil ég þó geta þess að framleiðslugeta hvorrar verksmiðju um sig er áætluð 2500–3000 tonn á ári af graskögglum miðað við 5 tonna einingargetu á klst. En eftir því sem einingargetan á klst. er meiri er orkuþörfin náttúrlega meiri. Verðmæti slíkrar ársframleiðslu er ca. 100 millj. kr., og er það ekki lítið með tilliti til þess að heildarstofnkostnaður verksmiðjanna er áætlaður 210 millj.

Mér finnst rétt að vekja athygli á því að það er sérstaklega óhagstætt að byggja upp graskögglaverksmiðju á mjög löngum tíma. Ef vel á að vera þarf bygging sjálfrar verksmiðjunnar og ræktun landsins að fara saman, þannig að verksmiðjan sé fullbúin til starfa þegar uppskeran er til. Það er mjög óhagstætt að rækta fyrst landið og fara svo að byggja verksmiðjuna og enn þá fráleitara að byggja fyrst verksmiðjuna og láta hana síðan biða eftir ræktun landsins. Það má því segja að í þessu tilliti er þörf á vissum hraða við uppbygginguna.

Það hefur komið fyrir hér hjá okkur íslendingum að við höfum byggt margar síldarverksmiðjur, sem ekkert var óeðlilegt, víðs vegar um landið. En síldin hvarf sums staðar af miðunum og sumar þessara verksmiðja stóðu uppi verkefnalausar. Um hliðstæða hættu held ég að sé alls ekki að ræða hvað snertir graskögglaverksmiðjuna. Ég held að grasið muni ekki hætta að gróa og framtíð þessara verksmiðja verði byggð á ræktun, en ekki á rányrkju, og ræktun og rányrkja eru alveg sitt hvað. Við höfum góða reynslu fyrir því.

Uppbygging graskögglaverksmiðja víðs vegar um landið er landbúnaðinum brýnt nauðsynjamál og eitt af stefnumálum bænda. Það er mikið byggðamál og hagkvæmnismál fyrir þjóðina í heild. Mér finnst því eðlilegt að framgangur þess máls hafi eigi minni hraða en umrædd þáltill. gerir ráð fyrir. Þetta er ekkert margbrotið mál. Ég held að allir skilji hvert verið er að fara, og ég held að það skilji allir hvað þetta er mikilvægt mál.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira að sinni, en vísa að öðru leyti til meðfylgjandi grg. og fskj. þessarar þáltill.