01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2932 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

221. mál, graskögglaverksmiðjur

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú sem síðari flm. að þessari till. lýsa ánægju minni yfir þeim undirtektum sem hún hefur fengið hér þegar og glöggt hefur komið fram í þessum umr. Við setningu laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum árið 1971 voru í fyrsta skipti tekin inn í lög ákvæði um grænfóðurverksmiðjur. Í framhaldi af þessari lagasetningu var samkv. þeim lögum tilnefnd n. 6 manna, 3 af hálfu Búnaðarfélags Íslands og 3 af hálfu Landnáms ríkisins, til þess að gera áætlun um staðarval og uppbyggingu grænfóðurverksmiðja í landinu. Þessi n. starfaði á síðari hluta árs 1971 og fyrri hluta árs 1972 og skilaði þá ítarlegu áliti til þeirra stofnana sem hér áttu hlut að máli, þ.e. Búnaðarfélags Íslands og Landnáms ríkisins. Sú n. komst að þeirri niðurstöðu að á næstu árum væri æskilegt og fjárhagslega hagkvæmt að byggja grænfóðurverksmiðjur í Hólminum í Skagafirði, í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Þessi staðsetning verksmiðja var m.a. valin vegna þess að nauðsynlegt var að gera sér grein fyrir því að flutningskostnaður á þessari vöru milli fjarlægra landshluta verður ærinn og af þeim sökum þurfti að taka tillit til þess við staðsetningu. Auk þess var haft að meginsjónarmiði að velja heppilegar sveitir og heppileg landssvæði frá gróðurfarslegu og veðurfarslegu sjónarmiði. Þessi voru þau meginsjónarmið sem byggt var á við staðarval fyrir þær verksmiðjur sem hér um ræðir. Þá áætlun, sem þessi n. skilaði af sér, staðfestu þær stofnanir, sem hér áttu hlut að máli, í megindráttum og hæstv. landbrh. staðfesti þá áætlun með bréfi litið breytta hinn 2. júní 1972 og fylgir það bréf sem fskj. með þessari till.

Síðan hefur verið unnið að þessu máli, að vísu með minni hraða en stefnt var að, en þó með þeim árangri að á s.l. ári tók til starfa graskögglaverksmiðja í Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu.

Þær tvær verksmiðjur, sem þessi till. fjallar fyrst og fremst um, í Hólminum í Skagafirði og Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu, eru enn tiltölulega skammt á veg komnar í uppbyggingu. Þó hefur Landnám ríkisins tryggt sér eignarráð á því landi, sem til þarf, og á auk þess möguleika á auknu landrými, a.m.k. við Saltvíkurverksmiðjuna. Þetta land á báðum stöðum er nú uppþurrkað og jarðvinnsla er nokkuð á veg komin, en þó er mikið verk eftir á því sviði. Á báðum þessum stöðum eru náttúrlegir landkostir góðir. Á báðum þessum stöðum er jarðvarmi enda þótt frekari rannsóknir þurfi að gera í því efni, a.m.k. í sambandi við verksmiðjuna í Hólminum, eins og hér hefur komið fram.

Þegar undirbúningsnefnd þessa máls vann sitt verk á árunum 1971 og 1972 var olíuverð allt annað í landinu og í heiminum en nú er, og ég verð að segja það að á þeim tíma voru nm. ekki svo framsýnir að þeir hefðu jarðvarma sem neitt höfuðmarkmið í sambandi við staðsetningu þessara verksmiðja. Það er hins vegar mikið lán og er mjög þýðingarmikið að við þær tvær verksmiðjur, sem hér er aðallega um rætt, er jarðvarmi í allra næsta nágrenni. Og ég vil taka mjög undir það, sem fram kom hér hjá hv. 2. þm. Vestf., að það þarf að freista þess til hins ítrasta . að nota jarðvarmann svo sem kostur er í þessum verksmiðjum. Ég vil láta það koma fram hér, sem raunar kom að nokkru fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að það hefur verið farið fram á það að nú á þessu ári verði borað eftir heitu vatni í Varmahlíð til þess að auka þar vatnsmagnið sem þar er virkjað og fullnægir þeirri byggð sem þar er nú. En það er nauðsynlegt að afla þar meiri jarðvarmaorku til þess að geta notað hana við þá verksmiðju sem ákveðið er að reisa í Hólminum. Það skiptir vitaskuld mjög miklu máli, eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson gat um, hvert hitastig þessa vatns er, því að tæplega eru, að ég hygg, tæknilegir möguleikar á því að nota jarðvarma til a.m.k. fullrar þurrkunar á grasi og grænfóðri ef hitastig er ekki verulega hátt. En það getur alla vega orðið til mikillar hjálpar og orðið til þess að draga úr annarri orkunotkun verksmiðjanna. Þess vegna er þetta mjög stórt mál í sambandi við uppbyggingu þessara verksmiðja.

Ég skal ekki fara um þetta mjög mörgum orðum eða rekja sögu þessa máls frekar en ég hef hér þegar gert. Það er hins vegar svo komið, að ég hygg að allir séu sammála um að hér sé um þýðingarmikið mál að tefla. Þrátt fyrir það er svo háttað um fjárhag ríkisins og fjárveitingar hins opinbera til þessara mála að ef sambærilegt framhald verður á fjárveitingum á fjárl. og verið hefur nú um nokkur ár, þá ganga þessi mál hægt fyrir sig í framtíðinni. Þess vegna þarf að breyta hér um. Það þarf annað tveggja að auka fjárveitingar á fjárl. eða að afla fjármagns eftir öðrum leiðum. Og að því miðar sú till., sem hér er flutt, að þess verði freistað eftir öllum leiðum að afla fjármagns til þessa þýðingarmikla verkefnis.

Það hefur oft verið talað um að það væri einkenni á atvinnurekstri okkar íslendinga og stuðningi hins opinbera við atvinnuuppbyggingu hér á landi að við værum alltaf fúsir til þess að leggja mikið fjármagn í þau fyrirtæki sem ynnu að gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið, og er vitaskuld ekki á neinn hátt vert að kasta rýrð á þau vinnubrögð. Hins vegar hefur verið miklu tregara um það, óhætt að segja, að menn væru fúsir til þess að leggja mikið fjármagn í þau fyrirtæki sem væru gjaldeyrissparandi fyrir þjóðarheildina. Þau fyrirtæki eiga þó að mínu viti jafnan rétt við þau sem eru gjaldeyrisaflandi, því að hvor fyrirtækin um sig verða til þess að bæta hag okkar og stöðu í viðskiptum við aðrar þjóðir. Það er vikið að því örfáum orðum í grg. þessarar till. hvílíkur gjaldeyrissparnaður er hér á ferðinni ef uppbygging þessara verksmiðja væri svo hagað og þeirri vinnu hraðað svo að unnt væri að framleiða innanlands sem svaraði allt að 3/4 þess kjarnfóðurs sem nú er flutt inn til landsins. Ég skal ekki rekja það meir. En framleiðsla þessara tveggja verksmiðja, í Hólminum og Saltvik, mundi væntanlega verða til þess, miðað við núverandi verðlag, að spara sem svaraði 180–200 millj. kr. í gjaldeyri á ári, og sjá allir að hér er um verulega þýðingarmikið mál að tefla.

Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir þær undirtektir og þær yfirlýsingar sem hann gaf hér í sambandi við þetta mál. Ég tel að það sé tímabært og hefði raunar verið fyrir alllöngu að skipa n. til þess að vinna að framgangi þessara mála í heild og halda áfram að huga að áætlun um uppbyggingu fleiri verksmiðja í kjölfar þeirra sem þegar er ákveðið að byggja. Þetta var raunar tekið fram í áliti þeirrar n. sem starfaði á vegum Búnaðarfélags Íslands og Landnáms ríkisins árin 1971 og 1972, og því áliti var skilað til hæstv. ráðh. Það er því kannske vonum seinna að nú sé þessi n. í fæðingu. Hitt er ekki síður þýðingarmikið, að setja þegar á laggir undirbúningsstjórnir eða framkvæmdanefndir fyrir þær tvær verksmiðjur sem hér er um að tefla, — framkvæmdastjórnir sem geta haft með höndum undirbúningsstarf í sambandi við uppbyggingu þessara tveggja verksmiðja og hugað að fjáröflun og eignaraðild heimaaðila, eins og rannar hefur þegar verið drepið á af hv. 3. þm. Norðurl. v. Þess vegna vil ég ítreka það, að ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðh. um þessi efni og vænti þess að þær verði til þess að styðja þetta mál og hraða því að það komist heilt í höfn.

Ég skal svo ekki lengja þetta mál meir. Mér er ljóst að fjármagnið er hér eins og endranær afl þeirra hluta sem gera skal. Sú n., sem mundi huga að framvindu þessa máls alfarið um landið í heild fengi væntanlega það verkefni að huga að nýjum tekjuöflunarleiðum og e.t.v. sérmerktum tekjustofnum til þessa verks. En framkvæmdanefndirnar heima fyrir þurfa að gefa því ítarlega gaum hvort ekki sé einnig ástæða til þess að leita eftir tekjustofnum heima í héruðum og þá um leið eignaraðild heimaaðili.