01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2945 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ekki efa ég það að hv. þm. Jón G. Sólnes segi satt um þetta mál. En það lýsir e.t.v. sitt hverju um hvernig að þessari framkvæmd er staðið að fréttamenn og spyrlar skuli vita meira um slík mál heldur en sjálfur formaður Kröflunefndar, því ég held að það dyljist varla nokkrum manni að spyrillinn, sem spurði hv. þm. þessarar spurningar sem formann Kröflunefndar, hafði eitthvað fyrir sér þegar hann spurði. Og mér finnst það harla einkennilegt ef ráðgjafaraðilar Kröflunefndar eru að taka saman skýrslur um mál eins og þessi, sem ekki eru unnin á einni nóttu, eins og menn geta rétt ímyndað sér, að þá skuli sambandið milli ráðgjafaraðilans og framkvæmdaraðilans vera svo slæmt að það megi halda því fram að Kröflunefnd, sem framkvæmir hlutina, viti síðust manna um hvað ráðgjafaraðilarnir eru að gera. Þetta er auðvitað alveg furðuleg málsmeðferð. Og ef það er rétt sem hv. þm. Jón G. Sólnes segir, þá er ekki nema tvennt til: annaðhvort telja ráðgjafaraðilarnir gjörsamlega þýðingarlaust að vera að gefa þessari ágætu n. nokkur ráð eða að n. hefur ekki fyrir því að hafa frumkvæði um að leita til þessara ráðgjafaraðila.

Það var einnig annað sem ég tók fram í ræðu minni áðan og enginn þeirra, sem hér hafa talað, hefur viljað gefa svar við, og það var þetta: Vissi Kröflunefnd um það í septembermánuði s.l. að jarðfræðingar og aðrir vísindamenn teldu að það mætti búast við eldgosum og náttúruhamförum á Kröflusvæðinu? Það hefur komið fram að 15. sept. s.l. var að tilhlutan jarðfræðinganna fjölgað mjög jarðskjálftamælum þar sem þeir töldu sig sjá fyrir að það væri eitthvað mjög alvarlegt að gerast við Kröflu. Á sama tíma og þetta gerist fullyrða aðilar í Kröflunefnd við hvern sem heyra vill að það þurfi enginn að hafa áhyggjur af þessum málum. Eftir að gosið hefur orðið og jarðhræringarnar átt sér stað, þá kemur í ljós að jarðfræðingarnir vöruðu við. Þeir sögðust hafa skýrt almannavarnanefnd Mývatnssveitar frá þessu og það hafi orðið til þess að hún flýtti sínum aðgerðum og sínum áætlanagerðum. Var Kröflunefnd kunnugt um þetta eða ekki? Við þeirri spurningu vil ég fá svar. Það verður e.t.v. nægur tími fyrir þessa ágætu n. að átta sig á því, hvaða svar eigi að gefa, fram til næsta þriðjudags.

Ég skal ekkert fara í launkofa með hver mín skoðun er á þessari framkvæmd. Hún er sú, að eins og mál standa nú, þar sem verið er að byggja stóra virkjun án þess að vitað sé um hagkvæmni hennar að öðru leyti en því að slegið hefur verið af ábyrgum aðila fram þeirri fullyrðingu að tapið á þessari virkjun verði einn milljarður á ári, — á sama tíma og þetta er hið eina sem um hagkvæmni virkjunarinnar er vitað, þá skuli vera haldið áfram að framkvæma fyrir erlent lánsfé þegar aðstæður í landinu hafa breyst þannig að fyrirsjáanlegt er að það sé ekki markaður fyrir þessa orku. Það tel ég með öllu ábyrgðarlaust athæfi og má mikið vera ef flokkar Alþ. ætla sér virkilega að sameinast um að afgr. málið í þegjandi hljóði með því að samþ. á næsta ári tvöföldun raforkuverðs til þess að standa undir vitleysunni. Ætla þessir hv. alþm., sem bera ábyrgð verandi í Kröflunefnd, að standa frammi fyrir þjóðinni með það á bakinu?

Ég fer ekkert í launkofa með hvað ég tel að eigi að gera. Ég tel að það eigi að fresta öllum framkvæmdum við Kröflu á meðan athugað er hvert á að selja þá orku, sem þar er verið að framleiða, og hvar sá markaður sé fyrir hendi, sem eigi að taka við þeirri orku. Ég tel að það sé ábyrgðarlaust að halda þessum framkvæmdum áfram fyrr en það liggi fyrir.