01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

179. mál, heyrnarskemmdir af völdum hávaða í samkomuhúsum

Flm. (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Á þskj. 368 höfum við 5 þm. leyft okkur að flytja þá till. sem hér er á dagskrá. FIm. auk mín eru hv. þm. Oddur Ólafsson, Geir Gunnarsson, Jón Árm. Héðinsson og Karvel Pálmason. Till. er um varnir gegn heilsutjóni og heyrnarskemmdum af völdum hávaða í samkomuhúsum og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, hvort heilsutjón og heyrnarskemmdir geti orsakast af hávaða frá hljóðfærum danshljómsveita á skemmtistöðum. Komi í ljós við slíka rannsókn að þessi hávaði sé heilsuspillandi skal ríkisstj. leggja fyrir Alþ. frv. til l. um varnir gegn hávaðamengun á skemmtistöðum.“

Um nokkurt árabil hafa danshljómsveitir, sem leika fyrir dansi og hafa það að atvinnu sinni, tekið upp þann sið að magna og margfalda hljómstyrk hljóðfæra sinna með rafknúnum tækjum, eflaust til þess að ná betur til þeirra sem dansleikinn sækja. Svo virðist sem allflestir uni þessum hávaða vel sem þessa samkomur sækja. Þó er nú svo komið að sérstaklega eldra fólk unir þessum hávaða ekki og forðast þær samkomur þar sem hljóðfærin eru mest mögnuð upp, því að útilokað er að tala saman á meðan hljómsveitin er að spila, og er það álit margra að sumar hljómsveitir stilli tæki sín svo hátt að stórhættulegt sé fyrir heyrn fólks sem samkomurnar sækir. Er það líka reynsla sumra lögreglumanna að mikill hávaði valdi því að fólk hegði sér verr á þeim samkomum, enda er nú svo komið að sum samkomuhús hafa sett upp mælitæki sem mæla hávaðann og rjúfa rafstraum á magnara hljóðfæranna ef hann fer fram úr vissum takmörkunum. Veit ég um að Hótel Saga hefur komið upp slíkum útbúnaði í Súlnasal.

Það verður nú þegar að margra dómi að setja um það ákvæði að ekki verði leyfður sá hávaði á dansleikjum sem valdið gæti heilsutjóni. Það er, held ég, flestum kunnugt að öryggiseftirlit á vinnustöðum hefur verið hert á undanförnum árum og ekki vanþörf á. Með auknum iðnaði og meiri og stórvirkari tækjum verður hávaðinn oftast meiri, enda hafa stöðugt komið stærri og öflugri vélar og tæki til landsins sem margar hverjar valda miklum hávaða. Þess vegna hefur Öryggiseftirlitið talið sér skylt að athuga og setja reglur um hávaðamengun á vinnustöðum. Er þá miðað við þann hávaða sem talinn er geta valdið varanlegu heilsutjóni og heyrnarskemmdum.

Víðast hvar er reynt að draga úr hávaða með ýmiss konar hljóðdeyfum og ef það ekki nægir, þá eru notaðar eyrnahlífar. Nú á síðustu árum eru ekki seldar hjóladráttarvélar öðruvísi en með þeim fylgi eyrnahlífar hvað þá stærri vélknúnum tækjum. En í samkomuhúsum hafa ekki enn þá verið settar neinar reglur eða ákvæði um hávaða og má það furðulegt vera þar sem svo margir koma og vitað er að mælst hefur 114 desibela hávaði á danssamkomum þar sem það hefur verið athugað. Er að okkar dómi; sem þessa till. flytjum, brýn nauðsyn að hið fyrsta verði gerð athugun á því af sérfróðum mönnum hvort sá hávaði, sem hér um ræðir, valdi varanlegu tjóni á heilsu fólks. Sé svo er það von okkar að hæstv. ríkisstj. geri ráðstafanir sem kæmu í veg fyrir að svo héldi áfram.

Þessi till. er flutt hér í annað sinn, en hún var flutt á 94. löggjafarþingi, en var þá ekki afgreidd frá þinginu. Vísa ég til umr. um hana í Alþingistíðindum, 15. hefti 1973–1974, dálki 2147, en þar er ýmsan fróðleik að finna sem enn er í fullu gildi. Vegna þess að þessi till. var ekki afgreidd af þinginu 1974 hafa komið áskoranir og ályktanir víðs vegar að af landinu um að þessi mál verði tekin upp að nýju og afgreidd. Ég ætla að lesa hér upp nokkur þeirra, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Félags áfengisvarnanefnda í Árnessýslu, haldinn á Selfossi 15. febr. 1974, ítrekar fyrri ábendingar um þá hættu sem fólki, er sækir opinberar samkomur, er búin af þeim gegndarlausa hávaða sem ýmsar danshljómsveitir temja sér. Beinir fundurinn þeirri áskorun til alþm. Suðurlandskjördæmis að þeir endurflytji þáltill. Ágústs Þorvaldssonar o.fl. um rannsókn á hættu af hávaðamengun, en till. þessi fékk ekki fullnaðarafgreiðslu á síðasta þingi.“

Og hér er önnur ályktun:

„Aðalfundur Félags áfengisvarnanefnda í Rangárvallasýslu, haldinn að Hvoli 1. des. 1974, telur að brýn nauðsyn sé að láta kanna sem fyrst rækilega heilsutjón, sem stafa kann af háværum danshljómsveitum, og skorar á Alþ. að beita sér fyrir slíkum rannsóknum.“

Og enn fremur:

„Aðalfundur félags áfengisvarnanefnda í Vestur-Skaftafellssýslu, haldinn að Herjólfsstöðum 21. nóv. 1974, telur brýna þörf á að fram fari sem fyrst könnun á heilsuháska af völdum hávaða af danshljómsveitum og skorar á Alþ. að setja lög sem takmarki slíkan hávaða sem heyrnarskaða kann að valda.“

Af þessum samþykktum er ljóst að hér er um mál að ræða sem ekki verður lengur hægt að láta afskiptalaust, svo margt fólk hefur gert sér grein fyrir þeirri hættu sem hér er á ferðinni, enda er heyrn hvers og eins eitt af því dýrmætasta sem mönnum er gefið.

Í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 18. maí 1974, eftir Nancy Ward, er m.a. vitnað í bandaríska háls-, nef- og eyrnalækninn dr. Maurice Schiff, með leyfi hæstv. forseta.

„Diskótek-unglingarnir í dag eiga það á hættu að missa heyrnina með tímanum. Þessi gífurlegi hávaði magnaðrar tónlistar mælist oft allt að því 145 desibel. Þegar þess er gætt, að ef hávaðinn mælist 150 desibel getur hann valdið brunasárum á hörundi og 180 desibel eru banvæn, má furðulegt teljast að táningar skuli standast þessa miklu áreynslu.

Þegar dr. Schiff tók nokkra pilta og stúlkur til skoðunar eftir að þau höfðu um stund setið undir diskótektónlist komst hann að raun um að flest þeirra þjáðust af auknum blóðþrýstingi og örari hjartslætti og höfðu sveitta lófa, víkkuð sjáöldur, vöðvaspennu og flökurleika. Höfðu þau orðið fyrir beinum líkamlegum breytingum, æðar þeirra herpst saman og þau fundu til svima. Einnig komst læknirinn að því að mjög hávaðasöm tónlist dró tímabundið úr kynhvöt margra þeirra.“

Af þessum athugunum er það greinilegt að mikill hávaði er hættulegur heilsu fólks og eftir því sem hann er meiri þeim mun hættulegri er hann. Einnig fer það mikið eftir því hvað hann stendur lengi. Kannanir, sem fram hafa farið í nágrenni flugvalla þar sem þotur eru stöðugt á ferð og valda miklum hávaða, hafa leitt það í ljós, að sálsjúkdómar eru þar mun tíðari en annars staðar. Auk þess hefur því verið haldið fram, að þungaðar konur og nýfædd börn séu næmari fyrir sjúkdómum á þeim svæðum en öðrum. Er því augljóst að hér getur verið um fleira að ræða en heyrnarskemmdir af völdum hávaða. Væri því ekki síður vanþörf á að takmörk yrðu sett á þann hávaða sem við getum ráðið yfir og hæglega stillt í hóf.

Einn af sérfræðingum Bandaríkjanna á þessu sviði, dr. Vern Knudson við Kaliforníuháskóla, hefur látið hafa þetta eftir sér, með leyfi hæstv. forseta.

„Ég reikna með því að í borgum framtíðarinnar verði gangstéttir og götur þaktar hljóðdeyfandi efni og skýjakljúfar byggðir með hallandi veggjum til þess að draga úr hljóðburði.“

Allt ber hér að sama brunni. Allir, sem hugleiða þetta mál, komast að þeirri niðurstöðu að í framtíðinni verði ekki komist hjá því að draga úr hávaða svo sem kostur er. Að öðrum kosti sé sú hætta fyrir hendi að hljóta meiri eða minni skaða á heilsu sinni.

Í jólablaði Austra, sem kom út um síðustu jól, er viðtal við ungan verkfræðing, Stefán Einarsson að nafni, sem hefur sérstaklega lært og unnið s.l. 6–7 ár við hljóðtæknifræði í Svíþjóð, þar sem sívaxandi fjöldi fólks starfar við ýmiss konar hljóðeinangrun og hvers konar varnir gegn hávaða og hljóðdeyfingu. Kom þar fram að svíar leggja mikið kapp á að hafa þessa hluti í lagi og eru meðal fremstu þjóða á því sviði.

Hér í Reykjavík hefur á síðari árum verið lögð stöðugt meiri áhersla á eftirlit og verndun heyrnar á vinnustöðum þar sem hávaði er mikill. Og í fræðslu- og upplýsingariti, sem Heilsuverndarstöð Reykjavíkur gaf út 1974 um heyrnarmælingar á vinnustöðum, er greinilegt að ekki er vanþörf á að draga úr hávaða með öllum tiltækum ráðum því að vitneskjan ein stoðar lítið ef ekkert er að gert. Vitað er að heyrnarskemmdir af völdum hávaða, hvers eðlis sem hann er, eru ólæknandi.

Í blaðinu Iðnaðarmálum, 2. tbl. 1975, er í grein eftir Leó M. Jónsson tæknifræðing þessi kafli m.a., með leyfi forseta:

„Sá áróður, sem rekinn er fyrir heyrnarvernd, hefur nú þegar borið árangur sem sést best á því hve margir nota eyrnahlífar við hávaðasama vinnu. Engu að síður vantar mikið upp á að notkun hlífðartækja sé nógu almenn. Hér er við sama vandamál að etja og við önnur öryggismál, svo sem slysavarnir. Kæruleysi og heimska eru eftir sem áður of algengar orsakir slysa og heilsutjóns. Heimsku og fáfræði má draga úr með kynningar- og upplýsingastarfsemi. Kæruleysi er hins vegar allra djöfla þyngst í drætti.“

Eins og hér kemur fram og fram hefur komið í þessum orðum mínum er hávaði valdur að ýmiss konar heilsutjóni. Einn þátturinn í hávaðamengun er í skemmtanalífinu þar sem danshljómsveitir og diskótek hafa óbundnar hendur um tónhæð hljóðfæra og magnara sinna. Það er von okkar flm. þessarar till. að undirtektir hér á hinu háa Alþ. geti orðið upphaf að því að eitthvað raunhæft verði gert til þess að koma í veg fyrir þennan heilsuspillandi hávaða sem er yfirleitt tíðkaður nú á fjöldasamkomum. Að öðrum kosti verðum við að reikna með því að allt of margir neyðist til þess að nota heyrnartæki í framtíðinni eða bíði einhvers konar tjón á heilsu sinni.

Herra forseti. Ég legg svo til að að umr, loknum verði málinu vísað til allshn.