01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2961 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

179. mál, heyrnarskemmdir af völdum hávaða í samkomuhúsum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ræða hæstv. fyrsta flm. var mjög ítarleg og ég ætla ekki miklu við að bæta, en hér er um mikið merkismál að ræða og mál sem er liður í heilsugæslu og í því að fyrirbyggja sjúkdóma.

Hávaði er óæskileg og óþægileg hljóð, en það geta orðið svo óþægileg og skaðleg hljóð, að eins og hann tók fram geta þau valdið dauða. Vandamál hávaða á skemmtistöðum kom fyrst fram þegar magnarar og elektrónísk músík komu til sögunnar, og er það tiltölulega ungt fyrirbrigði og því lítið rannsakað. En það var áberandi að þegar Bítlarnir, sem komu frá Englandi, komu með sinn hávaða og sína elektrónísku músík og miklu magnara, þá gerðist það, sem ekki hafði gerst áður, að áheyrendur trylltust oft. Þeir trylltust og þeir létu öllum illum látum og hegðun þeirra var gjörólík því sem menn áttu að venjast. Að hve miklu leyti var eingöngu um fjöldaæsingu að ræða eða hvort hávaðinn og vissir tónar ollu þessu, það skal ég ekki segja, en það er mikil ástæða til að ætla að tónar af vissri hæð geta valdið óróa og jafnvel truflun og haft varanleg áhrif á sálarlíf og heilsu fólks. Og það er þetta sem mikil nauðsyn er að rannsaka til fullnustu. Það er að sjálfsögðu gert viða og ég held að bretar séu jafnvel frumkvöðlar að því að reyna að bæta úr þeim ágöllum sem eru á þessari músík, en enn þá er það svo að bæði heyrnarskaðar og aðrir líkamlegir áverkar eru samfara því að hlusta á þessa háu og skerandi músík. Það er enn fremur ástæða til að rannsakað sé hvort ekki geti hugsast að tónar, sem jafnvel heyrast ekki mannlegu eyra, geti haft skaðvæn áhríf á mannslíkamann, og eitt er víst, að það er ýmislegt sem bendir til að svo sé. Enn fremur er það, að það er talið nokkuð öruggt að notkun vissra vímugjafa, t.d. hassnotkun, tilheyri í sjálfu sér því að hlusta á músík af ákveðnu hljóðfalli. Hvort aftur á móti músíkin framkallar þörfina fyrir hassneyslu eða öfugt, það skal ég ekki fullyrða um, en þetta er nú verið að rannsaka og bendir ýmislegt til þess að viss tegund af músík geti haft víss hegðunarvandamál í för með sér.

Hér á landi er, eins og flm. tók fram, verið að vinna að þessum málum, og mér er kunnugt um að á vinnustöðum hefur verið gert allmikið að því á undanförnum árum að lagfæra ýmsa annmarka. Það er, eins og hann gat um, gert með því að auka einangrun, með því að flytja til vélar, með því jafnvel að setja ákveðnar vélar inn í klefa, og það er gert með því að nota eyrnaskjól eða tappa. En þetta er allt á tilraunastigi, og ég lít svo á að bað sé með þetta eins og annað, að hér sé það ekki síst áróðurinn og upplýsingarnar sem geti hjálpað okkur allmikið. Ég held þess vegna að það sé mjög gagnlegt að fá umr. um þetta sem víðast og enn fremur, það sem ég held að hafi aðeins verið borið við í sambandi við flutning svipaðrar till. á fyrra þingi, að leitað sé samstarfs við félag hljóðfæraleikara, við félag þjóna og við félag gistihúsaeigenda, því að hér er ekki hvað síst um fyrirbyggingu sjúkdóma að ræða, og þessir menn, bæði þjónar og hljómlistarmenn, gera sér ef til vill ekki grein fyrir því að miklar líkur eru til að þeir verði fyrir varanlegum skaðlegum áhrifum ef svo heldur áfram sem verið hefur nú um nokkur ár.

Ég vil svo að lokum aðeins geta þess, að heyrnarleysi er svo mikil örorka að það er talið af mörgum sérfræðingum að heyrnarleysi sé verri örorka að bera heldur en blinda.