01.04.1976
Sameinað þing: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

179. mál, heyrnarskemmdir af völdum hávaða í samkomuhúsum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er að mínu viti hreyft ákaflega merkilegu máli, og ég hefði gjarnan viljað að það væri útfært öllu meira en hér er gert. Það eru örugglega ekki aðeins þeir, sem sækja dansstaði og samkomuhús, sem eru hér í hættu eða þeir, sem vinna í háreysti mjög mikilli á vinnustöðum, heldur enn þá fleiri.

Það hefur orðið ákaflega mikil breyting í allri tækni til að framleiða hljóð og koma því til skila, koma því til annarra á síðustu áratugum. Vel má segja að þetta vandamál, sem hér er verið að ræða, hafi byrjað á tilraunastofu Edisons á sínum tíma, Thomas A. Edisons, og tækninni, sem kviknaði þar af tilraun gamla mannsins, hefur fleygt mjög ört fram og þó sérstaklega síðustu þrjá áratugina. Þetta litla tæki, hljóðneminn, sem við tölum gjarnan í hérna í salakynnum þessa húss, og síðan gellirinn, hátalarinn, sem notaður er til þess að magna þetta hljóð, þetta eru hvort tveggja vandmeðfarin tæki. Við hv. alþm. erum hér að vísu saman komnir til þess að heyra mál hver annars. Hér sem við erum staddir er það raunar skylda okkar að hlýða á mát hver annars þótt okkur þyki það mismunandi skemmtilegt. En þegar við komum út úr þessu hv. húsi að loknum vinnudegi, þá viljum við hafa möguleika á því að heyra ekki annað en það sem okkur langar sjálfa til.

Af meira en aldarfjórðungsstarfi við ríkisútvarpið hlýt ég að játa það, að ég fékk svoddan ofnæmi fyrir ýmsum þeim göfugu tónum, sem sendir eru út, eins og það var orðað í gamla daga, á öldum ljósvakans út yfir þetta land, inn á heimili manna, fékk ég svoddan ofnæmi fyrir þessum hljóðum og fyrir þessari tækni að ég hef aldrei getað haft útvarp í bílnum mínum. Þegar ég fer svo út í blómskrýdda náttúru þessa unaðslega kyrrláta lands að sumrinu til, þá er það einn gripur sem ég hef af ásetningi aldrei með í ferðinni og það er transitorútvarpstæki. Ég tel líka að ég eigi rétt á því að þurfa ekki að hlusta á transitorútvarpstæki annarra manna sem hafa þau með sér á fólkvanga eða upp í óbyggðir.

Ég hygg að það sé tími til kominn að kveða á um það með einhverjum hætti að enginn óróabelgur eða tónlistarunnandi eða forfallinn útvarpshlustandi hafi rétt til þess að þvinga nokkurn annan landa sinn til þess að hlusta á útvarpstækið hans úti á viðavangi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé kominn tími til að það verði fært í lög að það megi ekki hafa háreysti í útvarpstækjum úti undir berum himni þar sem háreystin frá þessum tækjum getur angrað aðra. Sjálfur hef ég lent í því böli uppi við rætur Ódáðahrauns á kyrrlátu sumarkvöldi, þar sem ég ætlaði mér svo sannarlega ekki að þurfa að hlusta á útvarp, að það var sitt transitortækið hvorum megin við mig, að vísu í svo sem 300–400 metra fjarlægð, annað stillt á London og hitt stillt á Reykjavík, og að vísu þagnaði tækið vestan megin við mig þegar Útvarp Reykjavík bauð góða nótt. En tækið, sem stillt var á London, hélt áfram alla nóttina.

Háreysti er með þeim hætti að hún snertir í flestum tilfellum miklu fleiri en þá sem eru að framleiða hana. Og sé nokkurt einstakt atriði sem virkilega þarf að gjalda varúð við, er það réttur einstaklingsins til að framleiða háreysti — og efla þarf rétt einstaklingsins til að fá að vera í friði. En ef mig minnir rétt, þá var það Boswell sem sagði forðum tíð um tónlistina að hún væri aðeins mismunandi óþægileg háreysti. Þetta get ég ekki tekið undir. En ég hygg að það væri rétt að við hugleiddum þann möguleika að koma málunum svo fyrir að enginn þyrfti að hlusta á aðra tónlist en þá sem honum sjálfum sýndist og það væri gjörsamlega fyrir það tekið að þegnarnir gætu að eigin vild varpað út músík úr transistorútvarpstækjum eða grammofónum yfir fólkvangana okkar að sumri.