05.04.1976
Efri deild: 84. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2967 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um frv. þetta og kemur álit hennar fram á þskj. 469. N. er sammála um að mæla með þessu frv. en leggur til tvær breytingar sem þar koma fram.

Fyrri breytingin er nánast og raunar eingöngu leiðrétting, þ.e. í 4. gr., fyrir „skal tekin í skriflegum úrskurði“ koma: „skal tekin með skriflegum úrskurði“.

En jafnframt taldi n. eðlilegt að bæta við nýrri grein sem heimill sjútvrh. að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

Á fundi n. mættu frá sjútvrn. Þórður Ásgeirsson deildarstjóri og Jón B. Jónsson fulltrúi. Frá Hafrannsóknastofnuninni Jakob Jakobsson aðstoðarforstjóri stofnunarinnar og Ingvar Hallgrímsson fiskifræðingur. Einnig mætti á þeim sama fundi Kristján Ragnarsson frá L.Í.Ú.

Um þetta frv. var allmikið rætt. Kom fram á þessum fundi að frv. þetta er raunar flutt af — við getum sagt: þeirri illu nauðsyn að taka upp langtum harðara eftirlit og stjórnun á fiskveiðum okkar landsmanna, ekki síst með tilliti til þess ástands sem fiskistofnarnir eru nú í. Einnig er vert að vekja athygli á því, að nauðsyn slíks frv. kom mjög fram á s.l. sumri þegar síldveiðar voru því miður stundaðar af ýmsum bátum töluvert umfram það sem heimilað var. Þá voru 16 aðilar kærðir fyrir ólöglegar síldveiðar og munu þau mál ekki vera til lykta leidd.

Í þessu sambandi kom fram að framkvæmdin mun verða í samvinnu við Framleiðslueftirlitið, en samtals munu starfa hjá ráðuneytinu um 10 manns í sambandi við slíkt eftirlit, en að vísu ekki nema fáir fullan tíma, flestir starfa aðeins hluta af degi. Kom fram hjá fulltrúa L.Í.Ú. að þeim þykir vald rn. með þessu frv. æðimikið; en hins vegar lagði Kristján Ragnarsson áherslu á að reynslan sýndi að slík heimild yrði að vera fyrir hendi.

Fram kom hjá fiskifræðingunum, sérstaklega Ingvari Hallgrímssyni, að slíkt mat á ólöglegum afla sem gert er ráð fyrir í þessu frv. er ákaflega erfitt gagnvart rækjunni. Þar er um að ræða að sjálfsögðu milljón einstaklinga í afla einnar veiðiferðar og verður ekki metið á sama máta og gert er með fisk. Ekki síst með tilliti til þessa var talíð rétt að bæta við þeirri grein sem ég lýsti áðan, sem heimilar rn. að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Það er fyrst og fremst gagnvart slíkum afla sem slík ákvæði virðast vera nauðsynleg.

Ég tel rétt að geta þess hér að á fundi n. kom fram hjá ýmsum nm. sterkur vilji til þess jafnvel að skylda skip að koma með allan afla að landi, og töldu ýmsir að það mundi hafa jákvæð áhrif í þá átt að skip stunduðu ekki slíkar veiðar. Niðurstaðan var hins vegar sú að slíkt ákvæði ætti ekki heima í þessum lögum og ætti þá fremur að takast upp í sambandi við endurskoðun laga um fiskveiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eða fiskveiðilögin svonefndu sem fljótlega verða til umr. á hv. Alþ. Einnig er rétt að það komi fram, að á það var bent að í sumum tilfellum getur þetta verið vafasamt þar sem undirmálsafli, t.d. smárækja, sem sorteruð er með vélum um borð og fer aftur til sjávar, er lifandi og þá er það að sjálfsögðu betra en að flytja hana að landi. Einnig var á það bent að eftirlit með slíku ákvæði getur verið erfitt. Ég tel rétt að minnast á þetta hérna þó að niðurstaðan væri sú að það eigi ekki heima í þessum lögum, því að svo mjög var á þetta minnst á fundi nefndarinnar.

Ég vil svo segja fyrir mitt leyti að mér sýnist ástæða til þess að hugleiða það mikla umfang sem orðið er á vegum eins rn. og fer ört vaxandi í sambandi við sjávarútvegsmálin. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegt, þ.e.a.s. ill nauðsyn sem þar rekur á eftir. En það er að mínu mati ákaflega mikil spurning hvort slík framkvæmd á að vera beint undir rn. Ég tel það vafasamt og kannske óæskilegt að sá háttur sé á hafður. Rn. á að sjálfsögðu að vera þarna æðsti aðili og á að hafa síðasta úrskurðarvald, en er með þessu móti komið í sjálfa framkvæmdina jafnvel í smáatriðum. Og ég vil varpa hér fram þeirri hugmynd að rétt væri að skoða hvort ekki þurfi að koma hér á fót einhvers konar starfsemi eins og er í Noregi og kallast þar Fiskeridirektorats, þ.e.a.s. stofnun sem að sjálfsögðu heyrði undir viðkomandi rn., en hefði með að gera framkvæmdaratriði á þessu sviði, því að mér þykir ljóst að slíkar framkvæmdir muni mjög fara í vöxt á næstu árum. Það verður óhjákvæmilegt, eins og ég sagði, með virkri stjórn á okkar sjávarútvegi. Ég endurtek því, þar sem ég sé að hæstv. ráðh. er kominn hér inn, að það þyrfti að fara að hugsa um hvernig þessum miklu umsvifum verður best skipað í okkar stjórnkerfi.