04.11.1975
Sameinað þing: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

29. mál, fjárreiður stjórnmálaflokka

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. 5. þm. Norðurl. v. áðan sé ég mig knúinn til að gera örstutta aths., bæði um lagaskýringar hans og eins raunar um prósentureikning sem hann fór með áðan. Í grg. með frv., sem hann var að ræða um, stendur svo, með leyfi forseta:

„Ljóst er að ýmislegt gæti orkað tvímælis við framkvæmd till. þeirra sem hér eru fluttar ef að lögum yrðu. En svo er raunar um ýmis fleiri atriði skattalaga, svo sem kunnugt er. Þannig er t. d. hvergi í íslenskri löggjöf skilgreint hvað stjórnmálaflokkur sé, og kann því að orka tvímælis hve langt beri að ganga í að heimta framtöl frá stjórnmálafélögum. Væntanlega yrðu lög þessi skilin þröngt, ef slíka skilgreiningu skortir, þegar þau kæmu til framkvæmda, en tækju í öllu falli til aðalskrifstofu flokkanna, rekstrar fasteigna og útgáfustarfsemi. Hugmyndir hafa þó verið uppi um að nauðsyn bæri til að setja löggjöf um réttindi og skyldur stjórnmálaflokka og mundi þá margt skýrast. En flm. telur eðlilegt að á þessu stigi málsins verði um þetta fjallað í þn. þar sem fulltrúar mismunandi stjórnmálaflokka hafa aðstöðu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. N. sú, sem fær frv. þetta til meðferðar, metur hvort ástæða sé til að kveða nánar á um til hverra framtalsskyldan skuli ná eða um fyrirkomulag framtala flokkanna.“ Og nokkru síðar: „Ráð er fyrir því gert að lögin öðlist gildi 1. jan. n. k. og mundu þá fyrstu framtöl flokkanna send skattayfirvöldum árið 1977, en naumast er unnt að gera flokkana framtalsskylda fyrr en þeir hafa ótvírætt verið bókhaldsskyldir um eins árs skeið.“

Það er alveg ljóst hvað fyrir mér vakir í þessu og allt annað er útúrsnúningur. (Gripið fram í.) Það er sagt að um allt þetta verði að fjalla í þn. Mér er það algerlega ljóst að ég kem þessu máli ekki einn í gegn, það þarf að ræða þetta í þn., og er einmitt þetta allt saman haft opið þannig að engu sérstöku atriði er lokað, og að skattalög verði að gilda aftur fyrir sig, hvar stendur það? En nóg um þetta.

En um prósentureikninginn aftur, þá varð þm. á svolítil skekkja í honum líka áðan og ég tók víst undir það, þegar hann hélt því fram að það þyrfti að vera 10 millj. kr. hagnaður hjá Ármannsfelli til þess að 5% gerðu millj., ég er hræddur um að þær séu 20. (Gripið fram í.)