05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2977 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

108. mál, umferðarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, en flm. þess frv. eru hv. þm. Friðjón Þórðarson og Jóhannes Árnason.

Frv. gerir ráð fyrir þeirri breyt. á refsiákvæði umferðarlaga, þ.e.a.s. 80. gr., að niður verði felld ákvæði 2. og 3. málsgr. greinarinnar, en skv. þeim málsgr. varða víss brot eigi vægari refsingu en varðhaldi. Er stefnt að því með frv. að dómstólar hafi frjálsari hendur um það hvort beita eigi sektum eða refsivist fyrir nefnd brot.

Ég vil, um leið og ég geri grein fyrir þessu nál., leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp úr umsögn sem n. barst frá Birgi Þormar fulltrúa yfirsakadómarans í Reykjavík og fjallar um þetta frv., en sakadómur Reykjavíkur hefur haft meginhluta þeirra mála sem snerta brot á umferðarlögum og hefur dæmt mest allra dómstóla skv. 80. gr. Í þessari umsögn, sem varpar nokkru ljósi á málið eins og það er í dag, segir m.a.:

„Skv. íslenskum lögum er refsisvert að aka vélknúnu ökutæki nemi vinandamagn í blóði ökumanns 0.5 0/00. Ef vinandamagn í blóði ökumanns nær ekki 1.20 0/00 er heimilt að ljúka máli hans með dómsátt sé ekki um ítrekað brot að ræða. Með dómsátt er heimilt að svipta mann ökuréttindum í allt að 1 ár. Nemi vínandamagn í blóði ökumanns 1.20 0/00 eða meira varðar brot hans refsivist og verður að afgreiða málið með opinberri málshöfðun.

Árið 1975 voru í Sakadómi Reykjavíkur afgreidd 218 mál vegna ölvunarakstursbrota með dómsáttum. Almenn lágmarkssekt í þessum málum var 25 þús. kr. Á sama ári voru 347 menn sviptir ökuréttindum með dómi í eitt ár og dæmdir til 10–15 daga varðhaldsvistar. Algengt var á árinu að í stað 10 daga varðhaldsvistar kæmi 25 þús. kr. sektargreiðsla með náðun. Þess voru því mörg dæmi að menn, sem hlutu varðhaldsdóma, sluppu betur fjárhagslega en þeir, er gengust undir sektargreiðslur með dómsáttum. Þessi framkvæmd er augljóslega ekki í samræmi við vilja löggjafans.

Skv. frv. hefði mátt ljúka flestum þessara 347 mála með dómsáttum. Hefði þá lengd ökuleyfissviptinga í málunum orðið sú sama, en heimilt hefði verið að beita hærri sektum en áður.

Árið 1975 voru kveðnir upp 957 dómar í Sakadómi Reykjavíkur. Eins og áður greinir voru 347 þessara dóma um ökuleyfissviptingu í eitt ár og 10–15 daga varðhaldsvist. Einnig voru á árinu kveðnir upp 75 dómar þar sem sakborningar voru dæmdir til 10–15 daga varðhaldsvistar vegna umferðarlagabrota án þess að þeim væri gerð ökuleyfissvipting. Undirritaður telur sennilegt að skv. frv. hefði mátt ljúka nálega 400 þeirra 957 mála með dómsáttum sem dæmd voru 1975.

Afgreiðsla mála með dómsáttum er fljótvirk og einföld ef borið er saman við mál sem leiða til opinberrar málshöfðunar. Skal hér stuttlega bent á helsta muninn á þessu tvennu. Er þá miðað við afgreiðslu umferðarlagabrota þar sem sakborningur viðurkennir brotið og ekki er vafi um sönnunar- og lagaatriði, en einmitt þetta er einkennandi fyrir flest þeirra mála sem ljúka mætti með dómsáttum skv. frv., en leiða til málshöfðunar eftir núgildandi lögum. Hafa ber í huga að mjög oft hefur viðkomandi lögreglustjóri kallað sakborning fyrir og svipt hann ökuréttindum til bráðabirgða áður en kæra er send sakadómi. Ef skilyrði eru fyrir hendi til dómsáttar er sakborningur boðaður á fund dómara og honum gefinn kostur á að ljúka málinu með dómsátt, enda viðurkenni hann brot sitt og samþykki að gangast undir sektargreiðslu og önnur viðurlög þegar það á við. Sáttamáli lýkur með undirskrift sakbornings í sakadómsbók og tekur afgreiðslan oft aðeins fáar mínútur.

Mál, sem sæta opinberri málshöfðun, eru miklu þyngri í vöfum. Eftir að kæra hefur borist dóminum er sakborningur kallaður fyrir til að tjá sig um sakarefnið. Að því búnu eru skjöl málsins send ríkissaksóknara til ákvörðunar. Þegar ríkissaksóknari hefur höfðað opinbert mál gegn sakborningi er hann aftur kallaður fyrir dóm og birtir dómari honum þá ákæru. Óski sakborningur ekki eftir að halda uppi vörnum né biðja um frest er kveðinn upp dómur í sama þinghaldi. Að lokinni vélritun dómsins og frágangi skjala er málið á ný sent ríkissaksóknara sem tekur ákvörðun um áfrýjun. Eftir að ríkissaksóknari hefur tekið ákvörðun um að áfrýja ekki eða lokadómur hefur gengið í Hæstarétti Íslands á sakborningur þess kost að sækja um að fá náðun af refsivist. Slík náðun er ævinlega veitt með því skilyrði að sekt sé greidd. Verður nú enn einu sinni að ná til sakbornings og gera honum ljóst hvar mál hans standa. Fyrst eftir að skriflegri náðunarbeiðni dómstóla hefur verið svarað jákvætt á hann þess kost að inna sektargreiðslu af hendi.

Ekki er óalgengt að sáttamáli vegna ölvunarakstursbrota sé lokið innan mánaðar frá því að kæra barst dóminum, og hefur sakborningur þá oftast 6 vikna frest til greiðslu sektar. Leiði mál af þessu tagi hins vegar til opinberrar málshöfðunar og varnardóms er ekki óvanalegt að ár líði frá því að kæra berst dóminum og þar til hægt er að ganga að dómþola með sektarinnheimtu, enda hefur þá oft verið fjallað um málið í tíu skipti af hálfu fjögurra stofnana.“

Síðan segir í þessari umsögn frá Sakadómi Reykjavíkur:

„Ef frv. yrði að lögum mundi verulega minnka álagið á dómendum og öðru starfsfólki dómsins. Til viðbótar því, sem að framan hefur verið rakið, skal bent á það að reynslan sýnir að miklu auðveldara er að ná til sakborninga þegar mál þeirra ern ný, en erfiðleikar á að fá þá til að mæta eru ein af helstu ástæðunum fyrir drætti í afgreiðslu sakamála. Verði frv. að lögum mætti ljúka verulegum fjölda mála á miklu skemmri tíma en tíðkast hefur. Einnig yrði minna um það að boða yrði sama manninn hvað eftir annað til stofnunarinnar vegna sama máls.

Undirritaður er sammála öllu því, sem segir í grg. með frv., og telur það mjög til bóta.“

Með þessari umsögu fylgir síðan bréf frá yfirsakadómara þar sem segir að „dómendur Sakadóms Reykjavíkur, sakadómarar og fulltrúar, hafa rætt málefni þetta og erum við allir sammála um að mæla eindregið með því að frv. nái fram að ganga.“

Vitaskuld væri að mörgu leyti æskilegt að hægt væri að framfylgja þeirri refsingu sem dæmd skal skv. núgildandi lögum, þ.e.a.s. að hneppa menn í varðhald ef þeir brjóta af sér. En sannleikurinn er sá, að þessi refsing hefur verið útilokuð að mestu leyti hér á landi af ýmsum ástæðum sem ég rek ekki hér. Fyrir vikið hefur þurft að fara þá leið, sem hér var rakin, að eftir að sakborningar hafa verið dæmdir. þá hafa þeir sótt um náðun og ævinlega fengið hana. Skv. upplýsingum frá dómsmrn. munu um 1000 aðilar hafa sótt um og fengið náðun á s.l. ári og er meginhluti þess vegna brota á umferðarlögum.

Með hliðsjón af þessum staðreyndum vill allshn. mæla með því að þetta frv. verði samþ. og telur að með því séu vinnubrögð gerð fljótvirkari og áhrifameiri og að mjög geti greiðst úr öllum málarekstri og afgreiðslu mála hjá lögreglustjóraembættum og Sakadómi Reykjavíkur.

Með þessu fá dómstólar frjálsari hendur um að ákvarða refsingu, en þeir geta að sjálfsögðu áfram ákvarðað varðhaldsrefsingu ef þeim sýnist svo, ef brot gefa tilefni til, en þeir eru ekki skyldugir til þess undir vissum kringumstæðum eins og nú er.

Allshn. leggur sem sagt til að þetta frv. verði samþ., en vill þó gera á því tvær breytingar: Annars vegar að fella niður upphæð sektar. Nefndin telur ekki ástæðu til þess að það sé tekið fram í þessum lögum, enda geta dómstólar ákvarðað þær upphæðir eins og kveðið er á um í lögum um meðferð opinberra mála. Jafnframt leggur n. til að í stað orðanna „varðhald eða fangelsi allt að einu ári“ sé sagt: „varðhald eða fangelsi allt að tveimur árum“, en það er til samræmis við önnur ákvæði og reyndar sama ákvæðið og fyrir er í lögunum. Þetta eru aðeins breytingar til samræmis, en ekki neinar efnisbreytingar. Allshn. var algjörlega sammála um þessa afgreiðslu málsins.