05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

108. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram að ég er samþykkur þessari afgreiðslu n. Ég er samþykkur frv. og tel að þær breyt., sem n. hefur gert, ekki vera á neinn hátt þess eðlis að þær séu til hins verra, heldur þvert á móti. Ég skal ekki endurtaka það, sem hv. frsm. sagði áðan, að þau rök mæla með þessu að þetta getur horft til vissrar hagræðingar og til þess að létta störfum af dómstólum. Það er löng venja að náðunum hafi verið beitt í þessum tilfellum, þ.e.a.s. að varðhaldi hafi verið breytt í sektir. Og til þess hafa legið ýmsar ástæður eins og hv. frsm. nál. drap á, m.a. kannske plássleysi. En ég verð að segja það sem mína skoðun að ég tel það til lítilla bóta að fara að hefta alla þessa menn í varðhald nokkra daga. Ég tel það ekki heppilega aðferð og tel að í mörgum þeim tilfellum, sem hér er um að ræða, eigi sektargreiðsla fremur við. En það ber auðvitað að taka fram að í sambandi við náðanir kemur engin breyting til greina á ökuleyfissviptingu. Það er útbreiddur misskilningur að náðun hafi einhver áhrif á ökuleyfissviptingu en ökuleyfissvipting stendur eftir sem áður þó að varðhaldinu sé breytt í sekt. Það er ástæða til að undirstrika þetta, að þegar ökuleyfissvipting er dæmd í ákveðinn tíma, þá verður henni ekki breytt, þá stendur hún. Það er enginn sem hefur heimild til þess að breyta því. Þetta vildi ég aðeins taka fram, en lýsa fylgi mínu við frv.