05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2985 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

23. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Því miður er það svo að það er mjög sjaldan, eða allt of sjaldan kannske mætti orða það frekar, sem mál koma frá hæstv. ríkisstj. sem verða að teljast skynsamleg og ættu að verka til sparnaðar í þjóðfélaginu. Við höfum á undanförnum mánuðum fjallað um ótalmörg stjfrv. sem mörg hver, svo að ekki sé meira sagt, hafa verið meingölluð, en þá hafa hv. óbreyttir þm. stjórnarliðsins allir dansað með í þeim dansi hæstv. ríkisstj. En þegar nú bregður svo við að að því er mér virðist kemur skynsamlegt frv. frá hæstv. ríkisstj., þá sameinast allir hv. stjórnarsinnar í allshn. Nd. um það að rísa nú upp á afturfæturna og vera á móti.

Þetta er kannske einkennandi fyrir það sem hefur verið og er að gerast hér á hv. Alþ. undir forsjá hæstv. ríkisstj. Það er að sjálfsögðu oft sem hæstv. dómsmrh. mælir skynsamlega í ýmsum málum, og mér fannst hann gera það nú í þessu máli. Og nú er svo komið að hæstv. dómsmrh. og ég erum orðnir í meginatriðum sammála um stjfrv. þegar hinir risa allir upp á móti, hans eigin samherjar, flokksbræður og úr hinum stjórnarflokknum. Ég veit ekki, hvað slíkt boðar, og ætla engu þar um að spá. En mér finnst þetta athyglisvert eigi að síður.

Eins og hæstv. ráðh. kom hér inn á, þá er hér um að ræða nokkuð verulega breytingu frá gildandi ákvæðum varðandi þessi mál, og meginefni þessa frv. er einmitt að breyta ákvæðum umferðarlaga um skráningu ökutækja varðandi lögsagnarumdæmi. Ég man ekki betur en þetta mál hafi verið athugað allgaumgæfilega í undirnefnd fjvn. fyrir 3–4 árum og þá fékk sú n. allítarlega skýrslu og grg. frá umferðareftirliti ríkisins þar sem leidd voru rök að því, a.m.k. lét ég sannfærast þó að hv. fulltrúar í allshn. hér hafi ekki sannfærst, þá lét ég sannfærast um það að hér væri á ferðinni breyting sem mundi leiða til verulegs sparnaðar ef af yrði. Og hafi verið til þess ástæða þá, fyrir fjórum árum, að gera breytingar til sparnaðar og jafnframt til hagræðis, þá er það ekki síður nú.

Ég man að vísu ekki þá tölu sem þá var nefnd í sambandi við sparnað, en þar var um að ræða nokkrar millj. a.m.k. Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að hér gæti verið um að ræða um 20 millj. kr. sparnað á ári. Vissulega munar um ef hægt er að spara það í þessu og veita því fjármagni til nauðsynlegra hluta sem nú eru sveltir í fjárveitingum.

En ég stóð nú fyrst og fremst upp til að spyrjast í raun og veru fyrir um það, hvort það hafi virkilega verið svo að allshn. þessarar d. hafi ekki gert sér þá fyrirhöfn að fá um það alveg ótvíræðar upplýsingar frá viðkomandi aðilum hversu mikinn sparnað væri hér um að ræða ef þessi breyting yrði gerð. Mér finnst mjög skorta á í störfum n. og því, sem frá henni kemur, að því er virðist, og ekki verður annað séð a.m.k. frá mínum bæjardyrum, að allshn. hafi aflað sér nauðsynlegra upplýsinga til þess að geta byggt á þá ákvörðun að hér væri ekki um neinn verulegan sparnað að ræða. Ég hefði viljað fá að heyra tölur um það settar fram af þeim aðilum, sem hér hafa að unnið, og rökstuddar, hver slíkur sparnaður væri. Mér finnst það á vanta.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að breyta ætti til í þessum efnum og gera þá breytingu með þeim hætti sem hér um ræðir. Það eiga að víkja öll tregðulögmál í þessum efnum og tilfinningaspursmál gagnvart lágum númerum. Það er enginn vafi á því að það viðhorf er ríkjandi hjá æðimörgum og líklega ekki bara þm., heldur líklega miklu víðar. En það er enginn vafi á því að það er ríkjandi hjá þm. líka, en slíkt er auðvitað ekki þess eðlis að það eigi að halda því við ef hægt er að sýna fram á að það sé hægt að spara fjármuni með breyttum vinnubrögðum í þessum efnum.

Meginákvæði þessa frv. er sem sagt þessi breyting, og það er undirstrikað í aths. með frv. að vegna hinna síauknu og stórlega auknu umsvifa hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins vegna þessara skráninga sem rú eru viðhafðar, umskráninga, þá telja þeir nauðsynlegt að slík breyting verði gerð. Það er eitt meginefni þessa frv.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég vildi gjarnan ef það er mögulegt, fá frekari upplýsingar. Ég trúi því vart að hv. allshn. hafi ekki kafað svo djúpt í þetta mál að hún hafi kynnt sér það alveg raunhæft hversu miklar upphæðir hér er um að ræða í sparnaði ef að þessum till. yrði farið. Mér finnst það á vanta í þessu máli að sýnt sé fram á af hálfu allshn. með rökum og tölum að hér sé ekki um .að ræða neinn sparnað sem sé þess eðlis að það sé rétt að gera þessa breytingu. Ég sem sagt lýsi stuðningi mínum við þetta stjfrv. og hæstv. dómsmrh., og ég tel að það sé rétt að gera þessa breytingu.