05.04.1976
Neðri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2999 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

23. mál, umferðarlög

Gunnar Sveinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala hér mikið í dag, en það er aðallega af tveim ástæðum að ég geri það. Ég hlustaði á útvarp fyrir nokkrum dögum þar sem getið var um þetta álit allshn., þar sem hún leggst á móti þessari breytingu sem hér er til umr. Ég var svo hissa að ég skildi eiginlega ekkert í því hvað hefði komið hér fyrir. Þetta frv. var hér til umr, í fyrra eða var lagt fram, og mér hefur skilist síðan þetta kom til umr., þessi breyt., að um hana væru flestallir sammála og fyrst og fremst af þeirri röksemd að hún væri stórfelld hagræðing og að henni væri stórfelldur sparnaður.

Þegar ég ræði um sparnað í þessu sambandi, þá á ég ekki sérstaklega við að embættismenn spari eitthvað sérstaklega mikið vinnulaun eða pappíra. Ég á fyrst og fremst við sparnað hins almenna borgara. Við höfum allir staðið í því að skipta um bíla, fá ný númer, ná í verkfæri og aðstöðu til þess að skipta um númer á okkar bílum. Þetta verða þúsundir íslendinga að gera á hverju einasta ári. Með þessu frv. erum við að létta þessari kvöð af landsmönnum, og þess vegna get ég ekki skilið í því þegar allshn. verður sammála um að fella svona till. sem er til stórkostlegra bóta.

Við vitum það að þegar til umr. var á sínum tíma að breyta úr vinstri í hægri í umferðinni, þá voru um það mjög skiptar skoðanir og margir sem voru því mótfallnir og töldu að það kostaði mjög mikið og það væri alls ekki til bóta. Það var samþ. fyrir því og talið eðlileg framþróun í umferðarmálum á Íslandi að við fylgdumst með sem flestum öðrum Evrópuþjóðum í því að aka á hægri vegarkanti. Ég tel að með þessari breytingu, að við nú leggjum niður þetta gamla fyrirkomulag með gömlu númerunum og tökum upp svipað skráningarkerfi og gildir í nálægum löndum, séum við raunverulega að halda áfram þeirri þróun sem við byrjuðum á þá, og þess vegna skil ég ekki í þeirri andstöðu sem hér kemur fram.

Það hefur verið bent hér á ýmis rök sem menn telja að séu á móti því að breyta þessu, eins og veðsetningu ökutækja. Það er búið að útskýra að þetta er alls ekki það stórt atriði að það þurfi að hafa nokkur úrslit í sambandi við ákvarðanatöku í þessu máli. Ég tel sama gilda um þau önnur atriði sem hér hafa komið fram, að þau séu alls ekki það þung á vogarskálunum að þau vegi á nokkurn hátt upp á móti því hagræði að breyta yfir í þetta nýja kerfi. Hugsum okkur það út frá almennri skynsemi að við þurfum að skipta 20 sinnum eða 30 sinnum um númer á einum bíl á hans æviferli, miðað við það að þurfa ekki að gera það nema einu sinni. Ég held að þetta sé svo augljóst mál að um það hefði ekki þurft að verða neinn ágreiningur.

Ég vil því eindregið leggja til að allshn. fái þetta frv. aftur og endurskoði þessa afstöðu sína, því ég tel að mikill meiri hl. landsmanna sé með þessari eðlilegu breytingu og hún sé til stórbóta.