06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

188. mál, byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Norðurl. e. höfum leyft okkur að bera fram þá fsp. til hæstv. forsrh. hvenær vænta megi þess að ríkisstj. staðfesti byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu. Eins og flestum mun kunnugt, þá liggur fyrir fullgerð byggðaþróunaráætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu, en til þess að hún öðlist fullt gildi þarf ríkisstj. að staðfesta hana. Nú er orðið alllangt um liðið síðan Framkvæmdastofnunin sendi þessa áætlun til staðfestingar hjá ríkisstj., en hins vegar er mér ókunnugt um að það hafi borist nokkur tilkynning um að hún hafi verið staðfest. Þess vegna er þessi fsp. borin fram. En þess má geta að við hv. 2. þm. Norðurl. e., Jón G. Sólnes, eigum báðir sæti í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar sem fer með byggðaþróunarmál.

Rökin fyrir byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu eru auðvitað augljós. Þar hefur orðið geysilega mikil byggðaröskun á undanförnum árum og áratugum. Það hefur orðið mikil fólksfækkun í Norður-Þingeyjarsýslu, ekki einasta hlutfallslega, heldur beinlínis í tölum talið. Auk þess hefur það komið upp á núna, einkum á síðari misserum, síðari mánuðum, að atvinnulíf sjávarþorpanna í sýslunni, bæði á Raufarhöfn og Þórshöfn, atvinnulíf þessara staða stendur mjög höllum fæti.

Mér þykir rétt að geta þess, að við þm, kjördæmisins, Norðurl. e., höfum átt mjög ítarlegar viðræður við fulltrúa ríkisstj., þ.e.a.s. við forsrh. og dómsmrh., um málefni sýslunnar og þá ekki hvað síst um atvinnumál Þórshafnar. Við höfum gert það sem í okkar valdi stendur til þess að kynna fyrir hæstv. ríkisstj. það slæma ástand sem þar ríkir. Það er augljóst að það ber brýna nauðsyn til þess að gera ráðstafanir til viðreisnar atvinnulífi í Norður-Þingeyjarsýslu og raunar allri byggð í sýslunni. Að öðrum kosti er mjög hætt við því að sú óheillaþróun, sem verið hefur í byggðamálum þessarar sýslu, raunar í áratugi, geti leitt til landauðnar að meira eða minna leyti.

Sú byggðaþróunaráætlun, sem hér um ræðir, er eins og sjá má allmikil bók og í henni er margar upplýsingar að finna. Ég held að það sé ekkert efamál, hvað sem annars má um þessa bók segja, að hún er mjög mikilvægur leiðarvísir um viðreisn Norður-Þingeyjarsýslu, og að mínum dómi felst gildi hennar í því. Ég held að kostur þessarar áætlunar sé sá, að hún miðar að því að efla og treysta atvinnulífið í sýslunni og þar með byggðarinnar, bæði einstakra sveita og sýslunnar í heild, án þess að stofna til umbyltinga á atvinnulífinu í héraðinu eða á mannlífinu í heild.

Ég sagði um daginn í umr. hér að þessi áætlun væri miðuð við það að Norður-Þingeyjarsýsla héldi áfram að vera samfélag bænda og sjómanna, en þó með nauðsynlegu ívafi þjónustustarfsemi og smáiðnaðar. Og eftir þessari byggðaþróunaráætlun, sem ég er að ræða hér, er ekki farið fram á neina iðnbyltingu eða beðið um að fara að flytja obbann af landsmönnum norður á Langanes eða Melrakkasléttu. Svo langt er nú ekki gengið í þessari áætlun, þannig að ég held að það þurfi ekki að kosta neinar sérstakar fórnir fyrir þjóðfélagið í heild að gera þessa áætlun að veruleika. Ég held að það yrði engin fjárhagsbyrði að því að stefna út á þá braut sem þessi áætlun bendir til, því að hún er fyrst og fremst leiðarvísir og gæti þannig orðið til leiðbeiningar um uppbyggingu Norður-Þingeyjarsýslu. Hins vegar get ég ekki ímyndað mér að nokkur líti á hana sem neina endanlega forskrift sem í engu megi út af bregða. En ég vil leggja áherslu á það, að það er lágmarkskrafa áætlunarinnar að Norður-Þingeyjarsýsla með sínum fögru sveitum og sérstæða mannlífi fái að dafna á ókomnum árum, þannig að hún haldi eðlilegri fólksfjölgun og bjóði lífvænlega afkomu því fólki sem þar vill vera. Og ég á bágt með að trúa því að þjóðfélagið sé svo illa komið að ekki sé auðvelt að verða við svo hógværum kröfum.

Ég skal ekki hafa öllu lengra mál fyrir fsp. minni, en hún liggur hér sem sagt fyrir og fjallar um það hvenær þess megi vænta að hæstv. ríkisstj. staðfesti byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu.