06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3006 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

202. mál, framfærslukostnaður

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannason):

Herra forseti. 16. maí 1975 var samþ. þál. um athugun á framfærslukostnaði sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að ríkisstj. skuli fela Hagstofu Íslands að reikna út framfærslukostnað a.m.k. á einum stað í hverjum landsfjórðungi. Þessari athugun verði hraðað þannig að niðurstöður liggi fyrir við endurskoðun á vísitölugrundvelli:

Till. þessi var flutt af þm., sem sitja í milliþn. um byggðamál. Það varð niðurstaða n. að slík athugun væri mjög nauðsynleg fyrir störf n. og var lögð áhersla á að þessari athugun yrði hraðað með tilliti til þess að n. hyggst ljúka störfum sínum á þessu ári og vill hafa þessar niðurstöður við höndina við sín störf.

Ég hef því leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. forsrh. á þskj. 424, þar sem ég spyr hvernig þessi störf gangi. Ég geri það m.a. til þess að leggja áherslu á að þessu verði hraðað, og ég harma að ekki er niðurstaða fengin enn.