06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3007 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

202. mál, framfærslukostnaður

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurnir:

„1. Hvaða samþykktir hefur Norðurlandaráð gert varðandi samskipti Norðurlanda á sviði íþrótta?

2. Hve miklu fé hefur verið varið til að efla þau íþróttasamskipti undanfarin 6 ár og hver er hlutur Íslands (sundurliðaður)?“

Á þessu og síðasta ári hefur athygli manna hér á landi beinst meira en áður að norrænni samvinnu. Kemur þar tvennt til: Norðurlandaþingið var haldið í vetur með talsverðri fyrirferð og nú á Norðurlandaþinginu í vetur samþ. ráðið stuðningsyfirlýsingu með íslendingum í landhelgisdeilunni. Þessir tveir atburðir hafa opnað augu manna fyrir þeirri starfsemi sem fram fer á þessum vettvangi, gefið tilefni til þess að trúa því að raunhæft gagn sé að norrænni samvinnu og gefið nokkuð aðra mynd af henni en íslendingar hafa almennt haft af norrænni samvinnu.

Lengst af hafa íslendingar litið til norrænnar samvinnu góðlátlegum, vínsamlegum augum, ekki haft á móti henni, en ekki heldur verið of trúaðir á ágæti hennar. Þeir hafa gert sér grein fyrir þeirri bræðraskyldu að vera með í Norðurlandaráði, en ekki reiknað með því að uppskeran sé meiri en nokkur kg af pappír, hátíðarræðum og skálaglaumi, þ.e.a.s. saklaus skylda en ekki árangursrík. En hver veit nema Eyjólfur hressist? Umbúðalaus stuðningsyfirlýsing til handa íslendingum vekur upp vonir um meiri áhrif, og beinskeyttur málflutningur fulltrúa okkar ber hugsanlega þann árangur að samvinna á þessum vettvangi verði raunhæfari og áþreifanlegri en verið hefur hingað til. Bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, fjárfestingarbanki, allt er þetta vottur þess að eftir því sé tekið hvað við höfum fram að færa og hver okkar vandamál eru.

Um nokkurt skeið hefur verið starfandi sjóður til eflingar norrænum menningarmálum í viðtækri merkingu þess orðs. Í 5. gr. menningarmálasamningsins var á sínum tíma og til skamms tíma kveðið svo á að aðilar skuli hafa með sér samstarf um eflingu starfsemi félaga og samtaka sem starfa að almennum menningarmálum, þ. á m. einnig á sviði æskulýðs- og íþróttamála. Þessari grein hefur nú verið breytt í þeim tilgangi að taka af allan vafa um að sjóðurinn eigi að efla íþróttasamskipti.

Hin frjálsa íþróttahreyfing á Norðurlöndum, sér í lagi sú íslenska, hefur í fjöldamörg ár fylgst með háleitum ræðum og yfirlýsingum um stuðning Norðurlandaráðs við íþróttirnar. Áhugi íslenskrar íþróttahreyfingar er að sjálfsögðu sprottinn af þeirri staðreynd að hún á fjárhagslega langerfiðast uppdráttar. Ferðalög og samskipti við útlönd gerast sífellt erfiðari og kostnaðarsamari. Íslendingar þurfa lengst að sækja og þurfa yfirleitt að bjóða öðrum heim því að öðruvísi kemur enginn eða mjög fáir til íþróttakeppni hingað vegna fjarlægðarinnar og kostnaðarins. Ég hef því nú spurt: „Hvaða samþykktir hefur Norðurlandaráð gert varðandi samskipti Norðurlanda á sviði íþrótta?“ Og í öðru lagi: „Hve miklu fé hefur verið varið til að efla þau íþróttasamskipti?"

Mér býður í grun hvert svarið verður. En ég ber fram þessa fsp. til að varpa ljósi á einn þátt Norðurlandasamvinnunnar sem snertir almenning og það starf og það líf sem að honum snýr, til að varpa ljósi á samræmi milli stefnuyfirlýsingar og framkvæmdar, til að vekja athygli á því hversu samvinna getur verið tilgangslítil ef hún er orðagjálfrið eitt, en þýðingarmikil ef henni er beint inn á réttar brautir. Þessari fyrirspurn er beint til forsrh., og ég vænti þess að hann geti gefið mér svör við þessum fyrirspurnum.