06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3009 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

202. mál, framfærslukostnaður

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Spurningum þessum mun vera beint til mín sem fulltrúa Íslands í ráðherranefnd Norðurlanda, hinni almennu ráðherranefnd, en auk hennar eru starfandi ráðherranefndir fagráðherra og þ. á m. menntmrh. Norðurlanda, en undir þá heyra í raun og veru samskipti Norðurlanda á sviði íþrótta. Ég hef því óskað eftir upplýsingum menntmrn. til þess að gera þessum spurningum skil, og byggi ég svar mitt á grg. sem tekin er saman í menntmrn. og hljóðar á þessa leið:

Varðandi fyrri spurninguna: „Hvaða samþykktir hefur Norðurlandaráð gert varðandi samskipti Norðurlanda á sviði íþrótta?“ er svarið:

Um leið og svarað er fyrri lið fsp. þykir rétt að gera nokkra grein fyrir skipulagi norræns samstarfs á sviði menningarmála, en rekja síðan samþykktir Norðurlandaráðs um íþróttasamstarfið sérstaklega og hvernig við þeim hefur verið brugðist.

Hinn svonefndi menningarmálasamningur Norðurlanda, sem tók gildi 1. jan. 1972, tekur einkum til þess skipulagða samstarfs á sviði menningarmála sem fram fer að undirlagi ríkisstj. á Norðurlöndum eða með beinum tilstyrk þeirra. Gildissvið samningsins skiptist í þrjá geira eftir málaflokkum: fræðslumál, vísindamál og önnur menningarmál í viðtækri merkingu. Undir þennan síðast nefnda málaflokk fellur m.a. íþróttastarfsemi. Þetta kemur fram í 5. gr. menningarmálasamningsins, þar sem m.a. er kveðið á um að samningsaðilar skuli hafa með sér samstarf um eflingu starfsemi félaga og samtaka sem starfa að almennum menningarmálum, einnig á sviði æskulýðs- og íþróttamála. Yfirstjórn á framkvæmd norræna menningarmálasamningsins er í höndum ráðherranefndar Norðurlanda, menntmrh. Ráðherranefndinni til aðstoðar er embættismannanefnd svo og Norræna menningarmálaskrifstofan, Sekretariatet for nordisk Kulturelt Samarbejde, sem staðsett er í Kaupmannahöfn. Skrifstofan skiptist skipulagslega í þrjár deildir sem svara til hinna þriggja meginsviða menningarmálasamningsins. Mál, er varða íþróttasamstarfið, falla þannig undir deild almennra menningarmála.

Meðal umfangsmikilla verkefna menningarmálaskrifstofunnar má nefna undirbúning samnorrænnar fjárhagsáætlunar um samstarf á sviði menningarmála, norrænu menningarfjárlaganna; sem gerð er ár hvert í samráði við menningarmálanefnd Norðurlandaráðs. Auk framlaga til samnorrænna stofnana og annarra fastra samstarfsverkefna fela menningarfjárlögin m.a. í sér sérstaka ráðstöfunarfjárveitingu til handa ráðherranefndinni, og er sú fjárveiting einkum ætluð til að kosta ýmiss konar kannanir svo og nýja starfsemi sem efnt er til í þessu skyni. Fjárveitingar samkv. norrænu menningarfjárlögunum fyrir árið 1976 nema samtals 45.3 millj. danskra kr. og fyrirhugaðar eru 52 millj. danskra kr. á árinu 1977.

Á þeim rösklega 4 árum, sem norræni menningarmálasamningurinn hefur verið í gildi, hefur samstarfið á því sviði, sem samningurinn tekur til, verið eflt og aukið og hefur m.a. verið komið á fót nýjum samstarfsstofnunum, svo sem Norrænu Samastofnuninni í Kautokeino í Noregi og Norrænu eldfjallastöðinni í Reykjavík. Jafnframt hefur þetta tímabil á hinn bóginn einkennst af því að lögð hefur verið áhersla á að meta það samstarf, sem fyrir var, og gera áætlanir um verkefni á næstu árum.

Að því er íþróttasviðið varðar hefur tilkoma menningarmálasamningsins fram að þessu ekki markað nein teljandi spor. Í þeim stefnumiðum fyrir norrænt menningarmálasamstarf, sem ráðherranefnd Norðurlanda samþ. í des. 1974 og ætlað er að vera frumdrög að starfsáætlun fyrir næstu ár án tiltekinna tímamarka, er hins vegar vikið að íþróttasamstarfinu í sérstökum lið sem í heild hljóðar svo: „Einnig ber að íhuga hvernig unnt sé innan marka menningarmálasamningsins að efla norrænt samstarf á sviði íþrótta. Á þessu sviði er þegar fyrir hendi viðtækt kappleikjasamstarf í úrvalsflokkum, en leggja ber einkum áherslu á að koma á laggirnar íþróttasamvinnu á breiðum alþýðulegum grundvelli í samráði við aðra aðila á sviði menningar- og umhverfismála.“

Árið 1971 samþ. Norðurlandaráð ályktun þar sem því var beint til ríkisstj. að í tengslum við meðferð fyrri ályktunar varðandi aukinn stuðning við norrænt æskulýðssamstarf yrðu einnig kannaðir möguleikar á fjárhagslegum stuðningi við norræn íþróttasamskipti. Íslandi var falið að hafa forgöngu í sambandi við meðferð þessarar ályktunar, og menntmrn. vísaði henni til samstarfsstofnana þeirra er komið var á fót samkv. hinum nýja menningarmálasamningi. Tæpast verður talið að ályktunin hafi fram að þessu leitt til neinna áþreifanlegra aðgerða innan marka menningarmálasamningsins. Frá því árið 1973 hefur árlega verið veitt af ráðstöfunarfé ráðherranefndarinnar 1 millj. danskra kr. til stuðnings samstarfi milli norrænna æskulýðssamtaka. Er hér í bili um að ræða þriggja ára reynslustarfsemi. Við afmörkun á verksviði þessara styrkveitinga voru íþróttasamskiptin felld undan.

Á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í Reykjavík í febr. 1975, var að till. menningarmálanefndar ráðsins ákveðið að afskrifa ályktunina frá 1971 með skírskotun til þess að ráðið samþ. á þessu þingi nýja ályktun sem talin var hafa hliðstætt markmið og ganga lengra en fyrri ályktunin. Nýja ályktunin, nr. 16 frá 1975, er á þessa leið:

„Norðurlandaráð beinir því til ráðherranefndar Norðurlanda að láta gera könnun á, hvernig haga megi auknu norrænu íþróttasamstarfi, og leggja fram till. um það efni og verði í því sambandi: 1) sérstaklega höfð hliðsjón af þörfinni á stuðningi við samstarf á sviði skóla-, æskulýðs- og starfsfélaga- og fötlunaríþrótta svo og á sviði almenningsíþrótta yfirleitt; 2) kannaðir möguleikar á að stofna íþróttaverðlaun Norðurlandaráðs.“

Þessi ályktun var ítrekuð með samþykkt á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Í skýrslu ráðherranefndar Norðurlanda, sem lögð var fyrir síðasta þing Norðurlandaráðs, er tekið fram að efnt muni verða til athugunar á aukningu samstarfs á sviði íþrótta, sérstök áhersla muni verða lögð á samvinnu um alla íþróttastarfsemi fyrir börn og unglinga, starfsmannaíþróttir og íþróttir fyrir fatlaða. Á vegum Norrænu menningarmálaskrifstofunnar í Kaupmannahöfn fer nú fram könnun á fjárhagsaðstöðu íþróttastarfsemi í einstökum Norðurlandaríkjum.

Þegar norræni menningarmálasamningurinn kom til sögunnar hafði Menningarsjóður Norðurlanda þegar verið starfandi í um það bil 5 ár. Markmið sjóðsins er að efla menningarsamstarf Norðurlandaþjóða. Reglur sjóðsins hafa nýlega verið endurskoðaðar og var í því sambandi breytt að nokkru orðalagi þeirrar greinar sem markar verksvið sjóðsins. Í hinni nýju gerð reglnanna sem undirrituð var á fundi ráðherranefndar Norðurlanda, menntmrh., í Stokkhólmi 12. júní 1976, hljóðar þar um ræddur málsliður sem hér segir: „Starfssvið sjóðsins tekur til norrænnar menningarsamvinnu á öllum sviðum. Styrki úr sjóðnum má þannig veita til verkefna á sviði vísinda, rannsókna, fræðslumála og almennrar menningarstarfsemi í víðtækasta skilningi.“ Í fyrri gerð greinarinnar vorn nefnd dæmi um tiltekin svið almennrar menningarstarfsemi. Með hinu nýja og almennara orðalagi hafa menn viljað reisa skorður við því að nokkurt svið almennra menningarmála yrði af formlegum ástæðum talið falla utan við verksvið sjóðsins. Þetta ætti að vera ávinningur m.a. fyrir íþróttastarfsemi.

2. líður fsp. varðar fjárveitingar til norrænna íþróttasamskipta undanfarin 5 ár og hlut Íslands í því sambandi. Ef gert er ráð fyrir að átt sé við styrki af samnorrænum fjárveitingum, ber að taka fram að slíkur stuðningur hefur einkum verið veittur í formi styrkja úr Menningarsjóði Norðurlanda. Hlutur íþróttanna í heildarfjárveitingum úr sjóðnum er þó ekki fyrirferðarmikill. Í tölfræðilegu yfirliti um starfsemi sjóðsins á árunum 1970–1974 kemur fram að á þessu tímabili bárust 13 umsóknir um styrki úr sjóðnum til íþróttaverkefna, en af þeim voru aðeins tvær samþ. Heildarfjöldi umsókna til sjóðsins var á sama tíma um 1575, þar af samþ. 445 til styrkveitinga. Hlutur íþrótta af heildarfjölda umsókna var þannig um það bil 1% á umræddu tímabili, en náði ekki hálfu prósenti af samþ. umsóknum.

Af ráðstöfunarfé sjóðsins árið 1971 voru engir styrkir veittir til íþrótta og ekki heldur árin 1972 og 1973. Árið 1974 voru veittir tveir styrkir til íþróttastarfsemi samtals að fjárhæð 25 þús. danskar kr. Annar þeirra var styrkur til frjálsíþróttasambandsins í Norðurbotnum í Svíþjóð til að kosta þátttöku íslendinga í hinni svonefndu Kalottkeppni, þ.e. íþróttamót fyrir íbúa í nyrstu héruðum Norðurlanda. Árið 1975 voru veittir tveir styrkir til ráðstefnuhalds varðandi íþróttamálefni, en hvorugur þeirra varðaði Ísland sérstaklega.

Við þessa grg. vil ég svo aðeins bæta því, herra forseti, að ég er þeirrar skoðunar að á fáum sviðum sé vænlegra að efla bróðurhug og samstarfsanda með Norðurlandaþjóðum en á sviði íþrótta og tel ég ástæðu til þess að auka það samstarf m.a. með tilstyrk Norðurlandaráðs.