06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég leyfi mér að kveðja mér hljóðs utan dagskrár, er sú fregn er mér barst til eyrna í gær, að hæstv. menntmrh. hefði skipað dr. Sigurð Magnússon í stöðu prófessors við Háskóla Íslands í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og yfirlækni í kvensjúkdómum á Fæðingardeild Landsspítalans, en ekki dr. Gunnlaug Snædal sem talinn var hæfari þessara tveggja umsækjenda til þess að gegna umræddu embætti, en slík varð niðurstaða dómnefndar skipaðrar mönnum frá þremur viðurkenndum háskólum á Norðurlöndum: Karolinska Institutet í Stokkhólmi, Árhus Universitet og Háskóla Íslands, en á hans vegum sat prófessor Þorkell Jóhannesson í nefndinni. Dómnefnd þessi var skipuð að ósk læknadeildar Háskóla Íslands í samráði við menntmrh. til þess að komast að hlutlausri niðurstöðu um hæfni umsækjenda þar sem báðir voru taldir koma til greina í stöðuna og því vandasamt og mikið verk sem dómnefndarmenn voru beðnir að inna af hendi. Á niðurstöðu dómnefndarmanna hvíldi framtíð umsækjenda.

Niðurstöður dómnefndarinnar reyndust samhljóða. Annar umsækjandinn, dr. Gunnlaugur Snædal, var talinn tvímælalaust hæfari til að gegna prófessorsstöðunni í kvensjúkdóma- og fæðingarhjálp við Háskóla Íslands og yfirlæknisstöðu Fæðingardeildar Landsspítalans, eða eins og fram kemur í niðurstöðu dómnefndar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, en þar er yfirskriftin: „Samanburður á umsækjendunum tveimur og lokaniðurstaða“ — hún hljóðar svo:

„Báðir hafa umsækjendur fullgilda menntun, og þeir hafa báðir að verulegu leyti aflað sér undirstöðumenntunar erlendis. Enn fremur hafa þeir báðir víðtæka margra ára kennslureynslu.

Enda þótt Magnússon standi að því leyti greinilega framar Snædal vegna langs starfsferils við kennslustörf, þá hafa báðir tekið drjúgan þátt í fræðslufundahöldum, bæði sem fyrirlesarar og kennarar við framhaldsmenntun með fjölbreyttu sniði. Það leikur því ekki á tveim tungum að báðir eru þeir fyllilega hæfir til þess að stjórna kvensjúkdóma- og fæðingardeild Þar eð umsóknirnar varða prófessorsembættið í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp verður að telja að vísindastörf ráði úrslitum, en þau eru af beggja hálfu alltakmörkuð.

Það er áherandi, er meta skal störf Magnússonar, að öll ritverk hans hafa orðið til á síðustu 5 árum. Það er enn fremur sérkenni á öllum verkum Magnússonar, að doktorsritgerðinni undanskilinni, að þau eru gefin út í samvinnu við einn eða oftast fleiri, og miðað við Magnússon verður að telja þá flesta eldri og mjög virta vísindamenn sem áður hafa gefið út viðamikil rit um þau efni sem fjallað er um í framlögðum verkum.

Doktorsritgerðin, sem álíta verður mjög veigalítið verk, styður þessa skoðun á framlagi Magnússonar.

Ritstörf Snædals eru einnig alllítil að vöxtum, en hins vegar er doktorsritgerð hans yfirgripsmikil, afar mikils virði og brauthugsað verk þar sem fram koma margar athuganir sem vel má telja frumlegar. Svipuð sjónarmið um verkgæðin má setja fram varðandi annað verk hans um línurit yfir tíðni krabbameins í brjósti miðað við aldur og verkið um sjúklega stækkun skjaldkirtils hjá vanfærum konum. Hvorugt þessara verka lætur lesandanum velkjast í vafa um að Snædal hefur lagt fram mjög drjúgan skerf til þeirra þótt báðar séu ritgerðirnar unnar í samvinnu við aðra.“

Niðurstaða dómnefndarinnar er svo hljóðandi: ,,Einróma álit n. er að dr. med. Gunnlaugur Snædal sé hæfari til þess að gegna umræddri prófessorsstöðu við Háskóla Íslands, og vísar n. til þess að hann stendur frá vísindalegu sjónarmiði greinilega framar hinum umsækjandanum þótt þeir séu að öðru leyti jafnokar.“

Undir þetta er skrifað af viðkomandi þremur dómnefndarmönnum í Kaupmannahöfn 16. jan. 1976.

Við þetta má bæta að dr. Gunnlaugur Snædal hefur um 16 ára skeið unnið farsælt starf við Fæðingardeild Landsspítalans og verið staðgengill yfirlæknis og prófessors Péturs heitins Jakobssonar á meðan hans naut við. Dr. Gunnlaugur Snædal hefur tekið verulegan þá!t í stjórnunarstörfum Fæðingardeildarinnar og séð um skýrslugerð deildarinnar frá stofnun hennar 1949. Þá hefur dr. Gunnlaugur unnið að nýskipan mæðraskrár og fæðingartilkynninga og var fulltrúi prófessorsins í allri undirbúningsvinnu við nýbyggingu Fæðingardeildarinnar frá 1968 til þessa dags.

Sýnir þetta að dr. Gunnlaugur Snædal hefur öðrum fremur áunnið sér rétt til þess að verða eftirmaður prófessors Péturs Jakobssonar ef um væri að ræða að umsækjendur væru að öðru leyti jafnokar. En staðreyndir sýna að ritsmíð og störf dr. Gunnlaugs eru bæði meiri að magni og mikilsverðari frá vísindalegu sjónarmiði, og niðurstaða dómnefndar virðulegra norrænna háskóla mælir einróma með því að hann hljóti stöðuna.

Það hlaut því að vekja athygli þegar læknadeild Háskólans ákvað á fundi hinn 5. mars 1976 með 22:16 atkv. að ganga gegn niðurstöðu dómnefndarinnar án rökstuðnings og mæla með því að dr. Sigurður Magnússon yrði skipaður af ráðh. í umrædda prófessorsstöðu.

Nú hefur hæstv. menntmrh: skipað dr. Sigurð Magnússon í stöðuna þrátt fyrir einróma niðurstöðu dómnefndarinnar dr. Gunnlaugi Snædal í hak. Virðist hæstv. ráðh. hér taka mið af niðurstöðu læknadeildarinnar, en engin rök hafa verið færð fram fyrir því hvers vegna þar er lagst á móti ráðningu dr. Gunnlaugs Snædals. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh.:

1. Hvers vegna var gengið fram hjá niðurstöðu dómnefndar, sem læknadeildin óskaði eftir að málinu yrði vísað til, um skipun í prófessorsembætti í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp og yfirlæknisembætti við kvensjúkdóma- og fæðingardeild Landsspítalans?

2. Hver var kostnaðurinn við umrædda dómnefnd, og hver greiðir laun?

3. Nú er hér um að ræða skipun í prófessorsembætti við Háskóla Íslands ásamt embætti yfirlæknis við kvensjúkdóma- og fæðingardeild Landsspítalans. Leitaði hæstv. menntmrh. álits heilbrmrn. á skipun yfirlæknisembættisins, og ef svo var, hvert var álit heilbrrn.?

Að mínu mati hefur verið gengið á rétt eins af okkar hæfustu læknum og leikreglur brotnar á góðum dreng sem dr. Gunnlaugur Snædal er með því að hafa að engu hlutlaust mat sérfróðra manna á hæfni umsækjanda. Ég þoli illa allt ranglæti og leyfi mér þess vegna að draga athygli að þessu máli. Háskóli Íslands er eign og stolt þjóðarinnar og ber ávallt að hafa hæfustu vísindamenn innan sinna veggja og í sinni þjónustu.