06.04.1976
Sameinað þing: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það mun fremur óvenjulegt að ræða stöðuveitingar utan dagskrár á Alþ., a.m.k. man ég ekki til þess að það hafi verið gert. En spurningum hv. 12. þm. Reykv. vil ég svara þannig í sem allra fæstum orðum.

Fyrsta spurningin: Dómnefndin mat báða umsækjendur hæfa til að gegna stöðunni. Staðan er veitt: samræmi við till. læknadeildar.

Önnur spurning: Heildarkostnaður við dómnefndina var 230 636 kr., þar af þóknun til dómnefndarmanna 84 þús. kr. sem skiptast jafnt milli þriggja og kostnaður 146 635 kr., og er þessi kostnaður færður með rekstrargjöldum Háskólans. Til upplýsinga má geta þess að hæst hefur kostnaður við dómnefnd farið upp á liðlega 1 millj. 200 þús. kr. árið 1974.

Þriðja spurningin var um það hvort hefði verið leitað álits heilbrrn. Svarið er nei. Það var ekki gert og það hefur ekki verið venja.

Þetta eru bein svör við spurningum hv. þm., en að öðru leyti ræði ég ekki þetta utan dagskrár hér á Alþ. að sinni, enda kynni það að verða nokkuð langt mál ef út í það væri farið.