06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

178. mál, veiting prestakalla

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég skýrði frá skoðun minni um daginn, þegar þessi till. var til fyrri umr. en ég held nú samt að ég komist ekki hjá því, eftir að þetta nál. er komið fram, að koma hér einu sinni enn og segja nokkur orð. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði þá, að ég er andvígur samþykkt þessarar þáltill. vegna þess að það er ljóst að hún gengur í þá átt að vekja upp frv. til l. um breytingu prestakalla sem var til meðferðar á Alþ. 1972 og 1973, en var þá svæft. Þetta frv. gerði ráð fyrir því að tekin yrði upp kjörmannakosning og völd biskups og ráðh, aukin. Ég hygg að sú aðferð, sem við nú búum við, þ.e.a.s. opin, lýðræðisleg kosning, sé betri og líklegri til þess að presturinn sé í tengslum við fólkið í söfnuði sínum heldur en hann sé einungís í tengslum við kjörmenn, biskup og ráðh.

Þetta leiðir hugann að því hvert sé hlutverk presta og hvert sé þeirra verkefni. Sálusorgun og boðun kristinnar siðfræði af stólnum er einn þátturinn, en engan veginn aðalatriðið, eins og ég kom rækilega inn á við fyrri umr. málsins.

Ég vil ekki fækka prestum og ég met presta mjög mikils. Ég tel að þeir séu starfsmenn ríkisins með allmikla húmaníska menntun og rúman tíma til þess að sinna margvíslegum félagslegum félagsmálastörfum og veita forustu og hafi tækifæri til þess að koma hvarvetna fram til góðs og vinna margs konar þjóðnytjastörf.

Séra Jón prímus gerði við prímusa og hraðfrystihús og járnaði hross, og hann er mér einna hugstæðastur allra presta og hef ég þó kynnst þeim mörgum góðum. Hann járnaði hross og það meira að segja utansveitarstóð.

Ég get ekki fallist á þá nauðsyn sem n. telur að sé á því að endurskoða lögin, vegna þess að sú aðferð, sem við búum nú við, er allgóð, a.m.k. brúkleg og líklegri til þess að viðhalda lífrænum og eðlilegum tengslum prests og safnaðar en klíkukosning eða biskupsveldi. Báðar þær leiðir eru nefnilega fullreyndar. Þær aðferðir eru báðar fullreyndar í íslenskri kirkjusögu. Það kostaði 50 ára baráttu að öðlast þennan almenna kosningarrétt, og ég er ekki fús til þess að farga honum. Fortíðin hefur sannað að gamla aðferðin er ómöguleg.

Aðalatriði málsins, sem ekki hefur þó komið nógu skýrt í ljós við þá umr., sem fram hefur farið á Alþ. að þessu sinni, er að kirkjan er félag í eðli sínu og félögum er kjörin stjórn, en ekki skipuð eðli málsins samkv. Prestar eru þjónar safnaðarins og söfnuðurinn á að fá að velja sér þessa þjóna, en ekki veita þeim viðtöku að ofan.

Ef prestskosningar verða afnumdar, þá þykir mér óeðlilegt að hugsa sér að halda í núverandi kosningafyrirkomulag á biskupi. Ég tel sjálfsagt að hann verði skipaður af kirkjumrh., jafnvel að hægt væri að hugsa sér að ekki yrði um æviráðningu að ræða, hvorki á prestum né á biskupi. Það er ófært að söfnuður verði að sitja til frambúðar með prest sem hann hefur ekki valið sjálfur, og eins er það með því frv. sem sofnaði hér um árið. Einnig er biskup gerður svo voldugur um örlög presta að það er ekki hægt annað en að gera því skóna, þótt við íslendingar höfum nú úrvalsbiskup á stóli, þá sannar sagan að svo hefur ekki ætið verið. Við höfum nefnilega haft einstöku sinnum ágjarna og rangláta biskupa. Og sagan getur sannarlega endurtekið sig, svo sem kunnugt er. Nýr Gottskálk grimmi á biskupsstóli mundi væntanlega ekki verða eftirlátur andstæðingum sínum í prestastétt eða greiðugur á góð brauð við andstæðinga sína. Og andstæðinga hlyti hann að eiga, ekki síst þar sem nú horfir svo að prestastéttin sé klofin í tvær fylkingar sem opinberlega klóast öndverðar um drauga og Andskotann. Grautartrúarbiskup, svo að ég vitni enn og aftur til orðalags kirkjunnar manna, mundi hugsanlega raða grautartrúarprestum í öll skárri embættin, en setja hina hjá. Kjörmenn yrðu náttúrlega á stanslausu uppboði.

Það hefur verið gert mikið úr því af kirkjunnar mönnum hér á þingi að alger einhugur væri um frv. frá 1973 meðal presta og safnaðarfulltrúa og sóknarnefndarmanna, og seinast kom það fram í framsögu hv. 11. þm. Reykv. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu, og ég vek athygli á nál. á þskj. 523 frá 94. löggjafarþingi, frá menntmn. Ed. Og ég vil leyfa mér að lesa hér — með leyfi forseta — örlítinn kafla:

N. hefur sent frv. ýmsum aðilum til umsagnar og reyndust skoðanir skiptar um efni þess. Meðmæli með frv. hafa borist frá héraðsfundi Eyjafjarðarprófastsdæmis, prófasti Austfjarðaprófastsdæmis, prófasti Skagafjarðarprófastsdæmis, sóknarnefnd Grensássóknar og héraðsfundi Ísafjarðarprófastsdæmis, guðfræðideild Háskóla Íslands og Prestafélagi Íslands.“ Þetta voru nú meðmælin. En andmæli gegn samþykkt frv. hafa borist frá dómprófasti Reykjavíkurprófastsdæmis, safnaðarstjórn og safnaðarfulltrúa Digranessóknar í Kópavogi, safnaðarnefnd Kársnesprestakalls í Kópavogi og prófasti Kjalarnesþings. Prófastur Rangárvallaprófastsdæmis hefur borið málið undir söfnuðina, og bárust svör frá 8 af 16 söfnuðum og voru allir andvígir frv. Prófastur Húnavatnsprófastsdæmis hefur fengið jákvæðar undirtektir við frv. í 6 sóknum og neikvæðar í öðrum 6 sóknum.“ Ég vil undirstrika það, að það er engan veginn að það sé einhugur hjá fólki, sem lætur sig málefni kirkjunnar einhverju skipta, um þetta mál. Það er fjarri því.

Það verður vafalaust ekki útrýmt klíkuskap með samþykkt þessa kjörfyrirkomulags. Það verður pólitískur slagur, pólitísk kosning um kjörmennina. Prestarnir verða að koma sér vel við kjörmennina. Þeir verða að keppast um hylli biskups og jafnvel hylli ráðh. En ég tel að presturinn eigi ekki að vera sálusorgari biskups eða ráðh., ekki endilega, og ekki félagi þeirra í dagsins önn, ekki járningamaður eða viðgerðarmaður hraðfrystihúsa eða prímusa fyrir biskup eða ráðh. og ekki sérstaklega einkasálusorgari sóknarnefndarmanna eða safnaðarfulltrúa, því að eins og ég sagði áðan: eðli málsins samkv. er kirkjan félag, og félög eiga að hafa rétt á því að kjósa sér stjórn, en ekki taka við henni að ofan.