06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

178. mál, veiting prestakalla

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég átti ekki von á því að það mundu upphefjast hér aftur umr. um þetta mál á svipuðu stigi og með svipuðu orðafari og var hér við umr. þegar þetta mál var lagt fram. Ég hafði hins vegar hugsað mér að koma hér upp og færa allshn. þakkir fyrir afgreiðslu þessa máls í fjarveru 1. flm. þáltill.

Það, sem frsm. sagði, var rétt. Mér er fullkunnugt um það að í allshn. sjálfri hafa menn skiptar skoðanir á málinu sjálfu. Þar kunna að finnast bæði menn sem eru með breytingu og andstæðir breytingu, en hafa eigi að síður það álit, að það væri rétt að skoða málið, og standa þess vegna að því að kjósa n. sem kannaði hvort hægt væri að finna einhvern flöt á málinn, þannig að það næðust sættir á milli kirkjunnar og Alþingis.

Það er alveg rétt, sem frsm. sagði, að það hefur verið ákveðin, yfirlýst stefna af hálfu Kirkjuþings að breytingar yrðu gerðar þarna á. Hann minntist á það að Alþ. skipti sér ekki af innri málum kirkjunnar. En ég lít nú samt sem áður svo á, að það, hvernig söfnuðir velja sér prest, sé innri mál kirkjunnar. Þá er þetta spurning um það að hve miklu leyti kirkjan fær að starfa sjálfstætt og samkv. sínum eigin óskum eða hvort það eru af löggjafans hálfu lagðar á ákveðnar kvaðir eða ákveðin bönd, þannig að hún nái ekki að þróa starfsemi sína í þá átt sem hún sjálf óskar. Ég tel fyrir mitt leyti að það sé nauðsynlegt að hún hafi visst frelsi til þess.

Það er alveg rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Norðurl. v., að það er ekki fullkominn ein-, hugur innan kirkjunnar um þetta, og ég hygg að það hafi enginn haldið því fram að það væri einhugur hjá öllum sem um þetta mál hafa fjallað enda þótt Kirkjuþing hafi afgreitt það með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. og sífellt með auknum meiri hl. Ef málið væri svo einfalt, þá væri það út af fyrir sig ekki vandamál. Þá tel ég að það væri alveg tvímælalaust skylda að kirkjan fái að ráða þessu sjálf. En eigi að síður hefur það í vaxandi mæli færst yfir á þá hliðina að fleiri og fleiri hafa talið rétt að gera breytingu hér á.

En það eru tvær breytingar sem n. gerir á þáltill. Ég get vel fellt mig við báðar breytingarnar. Ef þessi n. verður kosin og hún starfar til áramóta, þá hefur hún tækifæri til þess að bera skoðanir sínar og niðurstöður undir það Kirkjuþing sem situr næsta haust og þá, ef einhver leið opnast til samkomulags, haft samráð við það um endanlega niðurstöðu.

Ég held nú að það sé ekki frjótt að fara að ræða hér um störf presta, hvort sem þeir eru sálusorgarar eða prímusar, á þeim grundvelli. En ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að kirkjan er félag og hún kýs sér stjórn. Hún gerir það líka í dag. En ég held að það sé yfirleitt venja alls staðar þar sem félög starfa og þar sem kosin er stjórn, að stjórnin ræður starfsmenn, framkvæmdastjóra, og annað því um líkt. Og ég held að það sé misskilningur hjá honum um aukið vald biskups og ráðh.

Ef við förum að ræða efnislega frv., sem lagt var fram, á annað borð og þær hugmyndir, sem þar voru uppi, þá hef ég skilið það þannig að þar væri minnkað vald biskups og ráðh. Ég er að vísu ekki með þetta frv. við höndina, en ég held að ég muni það alveg áreiðanlega rétt. að biskup er skyldugur til þess að hlíta ráðningu kjörmanna. En núna, samkv. núgildandi reglum, hefur hann algerlega frjálsar hendur ef kosningin er ekki lögmæt, þannig að ég lít svo á að þarna sé valdið fært heim til stjórnanna í söfnuðunum frá biskupi, en ekki til biskups.

Ég vil sem sagt ítreka þakkir mínar til n. um afgreiðslu á þessu máli. Ég get vel fellt mig við þær breytingar fyrir mitt leyti sem hún hefur gert á þáltill., og ég vænti þess að hv. þm. verði bað viðsýnir að þeir felli ekki að n. verði kosin til þess að kanna þetta mál.