06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

178. mál, veiting prestakalla

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að hafa mörg orð um mál þetta, en ég vil auðvitað að það komi strax hér fram að ég er gersamlega andvígur að fólk verði rænt þeim rétti að velja sálusorgara sinn sjálft.

Það voru aðallega tvö atriði í ræðu hv. 4. þm. Vestf. sem orsökuðu að ég bað um orðið. Það var þegar hann sagði að það mætti líta svo á að hér væri verið að færa valdið heim til fólksins með því, eins og menn hafa látið sér detta í hug, að sóknarnefndarmenn ráðskist með tillögurétt um hvern biskup síðan skipar sem sóknarprest. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi og ég veit eiginlega ekki hvernig þm. dettur í hug að koma með slíkar útskýringar; að ef hinn almenni borgari er sviptur kosningarréttinum þá muni það verða til þess að færa valdið nær honum. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Og eins sagði hann að kirkjan væri félag og hún kysi sér stjórn og þess vegna ætti hún að fá að tilnefna starfsmenn sina. Er þá svo að skilja að hún eigi að láta vera að skipta sér af öðrum en þarna eru innandyra? Ekki stenst það heldur. Þessar umbyltingar eru allar komnar frá prestum sem eftir eigin sögn kunna ekkert með kosningabaráttu að fara svo að siðsemi sé í, vegna þess að engir stjórna þeirri uppákomu prestkosninganna aðrir en þeir sjálfir og ef togaðar eru fram lágar hvatir í fari fólks við prestskosningar, þá geta engir nema frambjóðendur og þeirra umboðsmenn sérstakir togað þær fram.

Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því að þessi 60 ára gömlu lög séu endurskoðuð. En að því er að gá að ástæðurnar til þess, að nú er lagt til að þurfi endurskoðun, eru alfarið þær að eigi að ræna fólki þeim rétti að velja sér sálusorgara. Því er það að ekki kemur til greina auðvitað að fylgja slíkri tillögugerð, þó að ég geri ráð fyrir því kannske að till. þessi um kosningu endurskoðunarnefndar verði samþ. Og eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Suðurl., Jóni Helgasyni, þá er hans afstaða sú að gjarnan megi líta á lögin til endurskoðunar, en hins vegar breyti það ekki því, að hann hefur ekki þá skoðun að það eigi að leggja niður almennar prestskosningar.

Það er ljóst að Kirkjuþing hefur gert um þetta samþykkt. En eins og fram kom hjá hv. þm. Páli Péturssyni, þá er langt frá því að hér sé um neinn einhug að tefla í þessu efni, enda á þessi stétt manna alls ekki að fá að ráða þessu. Hv. þm. Gunnlaugur Finnsson benti enn fremur á að biskup væri hreint ekki samkv. núgildandi lögum skyldugur til þess að skipa samkv. úrslitum prestskosninga. Þetta er að vísu rétt. En ég veit aðeins um eitt dæmi þar sem hefur verið farið fram hjá þessu, og ég hygg að það hafi orðið víti til varnaðar, þannig að í raun og veru er hér auðvitað alfarið um það að ræða að úrslit kosninganna ráði þótt ekki sé lögleg kosning. Þegar ekki er um löglega kosningu að ræða og biskup getur ráðið, þá hygg ég að alfarið sé og hafi verið um langa hríð farið eftir úrslitum kosninganna. Sá, sem flest atkv. hlýtur, er skipaður í embættið.

Mér er sem ég sjái til hvers það mundi draga ef sú skipan yrði á höfð sem menn hafa kynnst í tillögugerð klerkanna þegar byrjað er að togast á um kjörmennina eða sóknarnefndarmennina. Það yrðu áreiðanlega ekkert siðsamari aðferðir heldur en hin almenna kosning sóknarbarnanna. Hins vegar, eins og ég segi, kemur til álita að endurskoða þessi lög, líka kannske í þá veru að það ætti að kjósa þá á 4 ára fresti, eins og okkur á hið háa Alþ., hið minnsta og helst oftar ef þeir eru leiðinlegir og slæmir kennimenn. Auðvitað hlýtur sú spurning að vakna. Það er mjög erfitt. — það veit ég dæmi um, — það hefur verið mjög erfitt að verða að sitja uppi með klerk svo að segja ævilangt. Ég er ekki að leggja þetta til. en heim er ekkert vandara um en okkur að ganga fyrir hv. kjósendur á 4 ára fresti, og það mundi kannske hvetja þá til þess að standa vel í stöðu sinni ef þeir ættu á hættu að vera kannske settir af eftir 4 ár. Þeir mundu þá leggja Skynsamlegar út af ýmsu í ritúalinu og skynsamlegar en mörg dæmi eru til um. (Gripið fram í: Það er gott að þú ert ekki kosinn ævikosningu, ég segi bara það.) Ég mundi ekki fara fram á það, a.m.k. ekki í þá stöðu sem við gegnum hér.

Við eigum samkvæmt okkar umboði að ráða fyrir þessum mönnum að þessu leyti, og því er það að ég tek ekkert gilt og geri ekki mikið með samþykktir hvorki kirkjuþings né annarra í þessum hópi, því að þó þeir hafi þessa reynslu af prestskosningum, þá er enginn vafi á því að allur þorri almennings kann því lang best að fá að velja sér sálusorgara. Og þó að menn sækist á hart í sambandi við kosningarnar, þá er það ólaginn klerkur í meiri máta sem læknar ekki þau sár undireins eftir að hann fær færi á því að gerast klerkur safnaðarins með þeirri miklu aðstöðu til góðra áhrifa í söfnuðinum sem hann fær og trúlega betri aðstöðu en allir aðrir menn. Ég get þess vegna ekki fylgt þessari till., þó að ég væri ella reiðubúinn til þess að athuga um endurskoðun á þessum gömlu lögum. Ég get ekki fylgt samþykkt till. þar sem hún er einvörðungu reist á þessum hugmyndum um, að breyta til og leggja af almennar prestskosningar.