06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

178. mál, veiting prestakalla

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég á sæti í allshn. Sþ. og er einn þeirra sem hafa lagt til að þessi till. verði samþ. Ég læt mér að sjálfsögðu í léttu rúmi liggja hvort ég fæ þakklæti fyrir þá afstöðu mína hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Það skiptir mig ekki máli. En vegna orða hans og nokkurra annarra langar mig til þess að segja hér örfá orð.

Ég hef ekki tjáð mig um það hvort eigi að afnema prestskosningar og ég tel mig ekki þurfa að gera það hér og ætla mér ekki að gera það. Það kemur afgreiðslu þessa máls ekkert við hverjar skoðanir menn hafa á því frv. sem siðast var lagt fyrir Alþ. um skipan prestskosninga. Það kemur afgreiðslu þessa máls hreint ekkert við. Ástæðan fyrir stuðningi mínum við þessa þáltill. er sú, að mér sýnist þetta vera leið sem reynandi er að fara, þ.e. að kjörin verði n. alþm. til þess að gera till. um skipan prestskosninga. Með því sýnist mér að það séu meiri líkur á að Alþ. komi þessu máli frá sér, en það tel ég nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir að það gangi aftur á hverju þingi.