06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

178. mál, veiting prestakalla

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu gaman að fá öðru hverju skemmtilegar ræður. En mér datt í hug áðan, þegar hæstv. utanrrh. flutti ræðu sina, að í eina tíð var ég staddur á kvöldvöku, skulum við segja, og þar átti ágætur maður að lesa upp, og ég held að hann hafi tekið Gagn og gaman eða eitthvað þess háttar og lesið upp úr því á sinn sérstæða hátt, og þetta vakti mjög mikla kátínu. Mér fannst þessi upplestur áðan missa nokkurs marks, vegna þess að hæstv. síðasti ræðumaður hefði alveg eins getað tekið kosningalögin til Alþ. og lesið upp úr þeim alveg hliðstæða hluti. Hvernig væri það t.d. ef það væru engin ákvæði í kosningalögum til Alþ. um að það skuli auglýsa hverjir eru í framboði, menn geti bara lesið um það í blöðunum o.s.frv. Mér finnst í raun og veru að hér sé meira alvörumál á ferðinni heldur en svo að það sé rétt að taka á því á þennan hátt.

Það er verið að tala um það hér að verið sé að tala um að málið snúist um breytingar á kosningalögum. Það má segja að það sé grunntónn. En málið snýst fyrst og fremst um það hvort menn vilja að þessi lög verði skoðuð af þingkjörinni n. og eins og ég sagði áðan reynt að finna einhvern flöt á því hvort samkomulag næst við það ráðgjafarþing sem starfar lögum samkvæmt við hliðina á Alþ. Það er spurningin. Og mér heyrist að menn hafi hér leitt hjá sér að ræða þetta atriði og reynt að snúa umr. að kosningalögum, eins og þau eru núna um veitingu prestakalla, til þess að leiða athyglina frá málinu sem er á dagskrá fyrst og fremst og á þann hátt taka upp þá stefnu hér að kasta stríðshanska. Hér er eingöngu verið að fjalla um það hvort hægt sé að ná einhverju samkomulagi um þetta. Með því að neita að taka þátt í þeim viðræðum er verið að kasta stríðshanska framan í hinn aðilann sem hefur æ ofan í æ óskað eftir því að þetta mál yrði betur skoðað.

Það hefur verið spurt hér um einstök atriði. Það hefur verið spurt t.d. um það af hv. 5. þm. Vestf. hvort menn væru reiðubúnir til að breyta um kjör á biskupi. Ég held að það sé ekkert um kjör biskups í lögum um veitingu prestakalla. Þess vegna er ekki verið að fara fram á að það sé verið að samþ. að kjósa n. til að endurskoða lög um kjör biskups. Það má eflaust kjósa n. til þess líka. Það er alveg sjálfsagt að athuga það. En ég held nú satt að segja, samt sem áður, að kjör biskups sé nokkuð í því formi sem hefur verið tekið upp annars staðar. Það er auðvitað spurning hvort kjósa eigi biskup til lífstíðar. Ég sé ekki að til þess sé nein ástæða. Ég skal segja það strax. En ég sé engin rök mæla gegn því að biskup sé kosinn af starfsmönnum kirkjunnar, á sama hátt og rektor Háskólans t.d. er kosinn, hann er kosinn að vísu til ákveðinna ára, eða rektor Kennaraháskólans. Ýmislegt hefur þróast þar í þá átt að slíkar stöður séu ekki veittar eða kosið í þær til lífstíðar. Það má sjálfsagt skoða það. En ég sé bara ekki að það komi þessu máli nokkurn skapaðan hlut við.

Ég sagði við fyrri hluta umr. um þetta mál að ég héldi að það væri ákaflega erfitt að tala um hinn heilaga kosningarrétt í þessu sambandi. Menn, sem eru komnir yfir fimmtugt, hafa aldrei fengið að segja eitt einasta orð um það hver þeirra sálusorgari er. Að þessu leyti lít ég kosningar þessar allt öðrum augum en hinar almennu kosningar þar sem kosið er með vissu árabili til Alþ. eða til sveitarstjórna. Kosningarréttur er hér ákaflega einskorðaður, og þarna er hreinlega um mat að ræða hvort útfæra á óbeinar kosningar, eins og þær tíðkast víða, eins og þær tíðkast í þessari virðulegu stofnun þar sem alþm. eru kosnir almennum kosningum og hafa umboð til þess að kjósa í nefndir og ráð — og til embætta jafnvel, — hvort það er útfært í þá átt eða hvort tekið er upp eitthvert annað form. Ég held nefnilega að það verði að líta fyrst og fremst á presta sem embættismenn, og ég hef aldrei kveðið hér upp neitt endanlegt álit mitt um hvað ég felldi mig við og hvað ég felldi mig ekki við. Spurningin er einmitt sú, hvort þessir embættismenn eigi að lúta einhverjum öðrum lögmálum um sín embætti heldur en aðrir, og ég tel það vel að þær umr., sem hafa farið fram hér á þinginu í vetur, leiða eflaust til þess að fólk hugsar um þetta meira en það hefur áður gert. Ég ber ekki saman þá aðstöðu, sem prestar einir embættismanna þyrftu að hlíta, að eiga starf sitt undir kosningum fjórða hvert ár út af fyrir sig. Ég held að prestar fari ekki út í þetta starf með þeim skilmálum. Ég tel að þarna gegni öðru máli en um kosningar á löggjafarsamkomu.

Ég get ómögulega komið auga á það, sem hv. 3. þm. Austurl. sagði hér áðan og raunar hv. þm. Páll Pétursson, að það væri fært vald til biskups. Þarna stendur fullyrðing gegn fullyrðingu, og mér þætti vænt um að heyra á hverju þeir reisa sína fullyrðingu.

Í þessu frv., sem verið er að ræða, eru mjög svipuð ákvæði og í lögum. Ef 2/3 hlutar kjörmanna koma sér saman, þá hefur biskup engan valkost, þá skal sá prestur hljóta embættið sem menn hafa komið sér saman um.

Það var annað atriði sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., og það var að þessar umbyltingar allar væru komnar frá prestum. Ég held að ég verði nú aðeins að taka upp hanskann fyrir presta þar sem þeir eiga nú engan fulltrúa hér. Hvernig ætli standi á því að hver einasti leikmaður á Kirkjuþingi greiddi atkv. með þessum breytingum, bæði á síðasta og næstsíðasta Kirkjuþingi? Þeir, sem vorn andstæðir, voru prestar. Ég held því að þarna sé verið að taka á vandamáli sem er hvort tveggja vandamál safnaðanna sjálfra og vandamál prestanna.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég hélt að menn væru ekki svo einstrengingslegir að þeir stæðu hér upp hver af öðrum til þess, eins og ég sagði áðan, að kasta stríðshanska. Ég hélt að þeir gætu fallist á að það yrði kosin n. til þess að endurskoða þessi 60 ára gömlu lög. Og ég verð að taka undir það, að það hefur farið meira en lítið fyrir brjóstið á þeim að allshn. skuli hafa mælt með því að þessi n. yrði kosin. Ég leyfi mér að vara við því ef Alþ. hefur ekki þá viðsýni að koma til móts við óskir um að það verði sest niður og þetta mál skoðað.